01.04.1968
Efri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

177. mál, verslun með ópíum o.fl.

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 459 er samið í dómsmrn. að ráði landlæknis og annarra sérfróðra manna, sem um lyfjamál fjalla, en efni þess er, að dómsmrn. geti úrskurðað, að tiltekin lyf, eins og segir í 1. gr., sem ætla má, að geti verið mjög skaðleg undir vissum kringumstæðum, skuli sæta sömu meðferð eins og nú gildir um ópíum og fleiri lyf slíkra tegunda. Það kemur fram í grg., að það muni ekki vera um að ræða verulega misnotkun þessara lyfja hér á landi, en hins vegar nauðsynlegt að setja undir lekann og láta um þetta gilda hinar ströngustu reglur, eins og önnur þau lyf, sem l. taka nú þegar til.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn. eða heilbr.- og félmn., sem væri kannske réttara.