09.04.1968
Efri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

170. mál, eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. og frsm. gat um, undirritaði ég nál. með fyrirvara. Ég er ósammála meiri hl. um 17. gr. fyrst og fremst og einnig þessu innskoti við 10. gr. um sérsamninga í lögum um launaráðningu ferskfiskmatsmanna. Þetta innskot í 10. gr. er þannig: „Fiskmatsmenn, sem starfa við ferskfiskeftirlit, skulu vera ráðnir starfsmenn, og verða laun þeirra greidd samkv. samningi, sem við þá verður gerður.“ Ég fæ ekki séð, hvaða tilgangi þessi viðbót þjónar. Málsgreinin eins og hún er, var aldrei samþykkt formlega í sjútvn., heldur bað Sigurður Haraldsson, annar framkvæmdastjóri Ferskfiskeftirlitsins, formann n. að lesa upp úr umsögn frá Ferskfiskeftirlitinu, á hvaða hátt það hefur ráðið til sín menn. Ef hv. þd. þóknast að samþykkja þessa viðbót, fæ ég ekki séð, hvernig aðrir fiskmatsmenn megi una því að vera á allt öðrum ráðningarkjörum. Hver er þá sparnaðarárangurinn af frv.?

Í 10. gr. frv. segir, með leyfi forseta: „Nánar skal kveðið á um ráðningu fiskmatsmanna, starfssvið þeirra og annað í reglugerð, sem sjútvmrh. setur.“ Ég tel, að hér sé kveðið á um heimild fyrir ráðh. til að ákveða í reglugerð, með hvaða hætti allir fiskmatsmenn verði ráðnir til starfa, þegar hið nýja form á fiskmati kemur til framkvæmda, en ekki einhver ákveðinn hópur þeirra. Ég geri líka ráð fyrir, að þetta sé óhjákvæmilegt, vegna þess að með þessari endurskipulagningu á að spara, að því er okkur er sagt, um 3 millj. Engin nauðsyn, nema síður sé, er því til þess að klína inn í lög þessu sérákvæði um ákveðinn hóp manna með sérstök ráðningarkjör fyrir ferskfiskmatsmenn. Slík mismunun hjá mönnum, sem vinna hjá sömu ríkisstofnun er fráleit að mínu áliti, og sé hún viðhöfð, tel ég að hið háa Alþ. eigi ekki að lögfesta slíkt, heldur verði viðkomandi ráðh. eða forstöðumaður viðkomandi stofnunar að bera á því fulla ábyrgð.

Ég vil einnig benda hv. þd. á það, að sjútvn. var sammála um það, að heppilegt væri að fella niður úr 9. gr., frá orðunum „tvær deildir eða fleiri“ o. s. frv., vegna þess að, eins og kom fram í umr., heppilegt er að ráðh. kveði nánar á um starfstilhögun í reglugerð, sbr. það, sem ég sagði áður um það, sem stendur í 10. gr. um ráðningu fiskmatsmanna allra. Þetta er eðlilegt, og þá getur þessi klausa um sérsamninga fyrir ákveðinn hóp manna hjá Fiskmatinu varla staðizt.

Um 17. gr. mætti hafa langt mál, en ég mun á þessu stigi vera stuttorður. Svo segir í sparnaðarfrv., sem hv. Alþ. hefur þegar afgreitt sem lög, að spara eigi um 3 millj. á endurskipulagningu við Fiskmat ríkisins, liður 14. Ég fæ því ekki séð, hvernig það samræmist megintilgangi endurskipulagningar Fiskmatsins að leggja til, að ráðh. skuli skipa 5 manna ráðgjafanefnd við Fiskmat ríkisins, er taki laun fyrir verk sitt. Það hefði þá verið nær lagi að leggja til, að þessi n. væri ólaunuð í samræmi við það, sem frv. á að hafa í för með sér. Eins og fram kemur í inngangi hins langa nál. eru margir á móti skipun þessarar fyrirhuguðu n. Ég vil benda á, að meiri hl. fiskmatsráðs lýsir sig andvígan slíkri n. og dr. Þórður Þorbjarnarson, forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og form. fiskmatsráðs, lýsti því ótvírætt yfir á nefndarfundinum, að hann teldi þessa n. ekki hafa neitt gildi. Ýmis önnur samtök, svo sem Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, eru á móti því og enn fremur fiskmatsstjóri. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur lýst sig samþykka áliti fiskmatsráðs, en það þýðir í raunveruleikanum, að hún telur þessa n. gagnslausa, og ég held, að sjávarafurðadeild SÍS hafi mjög svipaða skoðun. Einu samtökin, sem lýsa jákvæðri afstöðu til nefndarskipunarinnar, er LÍÚ. Hins vegar hafði ég samband við einn mann, sem fjallaði um þetta þar, og lýsti hann því yfir, að það hefði komið fram, að réttara væri að skipa nefndina, ef hún á annað borð færi á flot, heldur en að hafa það sem heimildarákvæði. Þó kom það líka fram, að sumir töldu þetta gagnslítið eða jafnvel betra, að það væri ekki í lögunum.

Ég hef hér aðeins drepið á veigamestu rökin fyrir því að fella út úr frv. 17. gr. í heild, og vænti þess, að við nánari athugun komist hv. þd. að þeirri niðurstöðu, að það sé æskilegt. Menn verða að hafa í huga, að Fiskmat ríkisins á að vera óháð, traust stofnun og þannig ber því að starfa. Þannig þjónar það bezt hagsmunum allra, sem eiga svo mikið undir farsælu starfi umræddrar stofnunar. Ég hef ekki gert athugasemd við 11/2 % gjaldið til fjáröflunar fyrir Fiskmatið, þar sem mér er kunnugt um erfiðleika ríkissjóðs. Þó má benda á það, að síldarafurðir eru látnar borga með þessu yfir til Fiskmatsins, þótt það annist ekki mat á síldarafurðum. Verði hins vegar sú niðurstaða, að hv. d. felli ekki út 17. gr. frv., kann ég að leyfa mér að endurskoða afstöðu mína varðandi þetta gjald.