09.04.1968
Efri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

170. mál, eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum

Jón Árm. Héðinsson:

Sjálfsagt getum við félagarnir lengi deilt um, hvernig bezt verði komið fyrir mati í þágu sjávarútvegsins. Um hitt mun okkur áreiðanlega ekki greina á, að við viljum, að matið sé sem traustast, bezt og öruggast, og ég held líka, að okkur muni ekki greina á um það, að matsstofnunin, Fiskmat ríkisins, á að vera óháð stofnun, og það á að vera hægt að leggja traust sitt á, að stimpill þeirrar stofnunar sé einhvers virði. Það er ekkert gagn að þeirri stofnun, sem hefur slíkan stimpil, sem ekki er hægt að treysta. Ég veit ekki, hvernig það liti út, ef það ætti að leita álits ákveðinna skúrka í ákveðnu umdæmi um það, hvernig ætti að ráða sýslumann eða tollstjóra. Ætti að leita til ráðvandra manna eða óráðvandra manna? Ég býst við því, að það mundi hljóma undarlega, að óskað væri eftir því að leita um það álits þeirra manna, sem eiga allt sitt undir stofnuninni, með hvaða hætti skuli ráða menn í stofnunina. Það er ekki vafamál, að það eru vaxandi kröfur um heilbrigðiseftirlit í öllum heiminum, um meira aðhald við matvælaframleiðslu í öllum heiminum og ymsar þjóðir kunna að fylgjast með því, hvernig íslenzka Fiskmatið er byggt upp og hverjir hafi þar hönd í bagga. Hefur framleiðandinn þar hönd í bagga? Þá erum við ekki óháð. Það gæti m.a.s. verið spurnig um það, hvort þetta litla gjald, sem rennur til Fiskmatsins, sem nemur þó sennilega um 9 millj. kr. á ári, gæti ekki verkað þannig á erlenda aðila, að þeir sæju, að þessi stofnun væri háð framleiðendum og þess vegna væri stimpill hennar ekki í því gildi, sem nauðsynlegt væri. Það er þetta, sem ég er að benda á. Ég er alveg viss um, að við erum sammála um það, að Fiskmatið verður að vinna sem allra bezt og ná sem mestum árangri til að tryggja góða vöru, en ég óttast, að ef slík n. verður skipuð og hún leggur eitthvað til og fiskmatsstjóri eða framkvæmdastjórarnir, ef deildarstjórarnir eru tveir, leggja eitthvað annað til, hver ber þá ábyrgðina og eftir hverju á þá að fara? Hver er hinn sterki aðili? Á þá ráðh. að skera úr, eða á Fiskmatið nokkuð að fara að sitja á þingpöllum? Nei, ef kvartanir koma fram á Ferskfiskmatið, þá lætur auðvitað viðkomandi útvegsmaður sín eigin samtök um að koma kvörtuninni á framfæri. Samtökunum er treystandi til þess að tala við ráðh. eða fiskmatsstjóra eða deildarstjóra þeirra deilda, sem um þessi mál fjalla. Á sama hátt fer með umkvartanir út af saltfiski. Þá eru til sterkar stofnanir fyrir þessar starfsgreinar.

Það er þetta, sem ég vil ekki að komi inn í lögin, að Fiskmatið verði of háð einhverri og einhverri n. Við eigum að fá slíka viðurkenningu fyrir Fiskmat ríkisins, að það mun koma í ljós bráðum, vegna þess að bæði heimta Rússar þetta og Bandaríkjamenn munu sennilega fara inn á þessa línu, því nú liggur fyrir Bandaríkjaþingi frv. í þá átt að herða mjög eftirlit með öllum matvörum, og fiski sérstaklega, og þá ríður á því, að við höfum óháð, sterkt fiskmat, sem hægt er að treysta, ekki neitt kák, ekki neina sýndarmennsku. Það verður öllum fyrir beztu, þegar til lengdar lætur. Það mun alltaf verða erfitt að meta fisk, það þekkjum við vel, sem höfum staðið í þessu. Og það er eðlilegt, að það verði átök og ágreiningur um matið. En það verður ekki til bóta eftir mínu viti og minni reynslu að hafa einhverja n., sem þarf að kalla saman, og bíða svo eftir úrskurði, sem ég veit ekki hvenær gæti komið. Það á að ganga beint til verks með það. Því legg ég til, herra forseti, að við atkvgr. verði atkvæði greidd sérstaklega um 17. gr., og mun ég biðja um nafnakall í því sambandi.