27.11.1967
Neðri deild: 29. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

66. mál, verðlagsmál

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Fjhn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls, og sýndist þó ekki vera mjög stórt atriði, sem skildi á milli meiri hl. og minni hl. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að hin nýja skipan verðlagsnefndar verði þannig, að í n. verði 9 menn. Fjórir skulu skipaðir samkv. ábendingu Alþýðusambands Íslands, tveir samkv. tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, einn samkv. tilnefningu Verzlunarráðs Íslands og einn samkv. tilnefningu Sambands ísl. samvinnufélaga. Og 9. nm. er ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. Þess er getið í grg. frv., að tilgangurinn með þessari breytingu sé sá að verða við óskum forystumanna verkalýðssamtakanna og gefa þar með ASÍ aukin áhrif á störf þessarar n. En nú liggur það fyrir, að forystumenn ASÍ óska eftir, að það fyrirkomulag verði haft á, að ASÍ tilnefni aðeins 3 en ekki 4, en hins vegar verði ákveðið, að hitt stóra launþegasambandið í landinu, þ.e.a.s. BSRB, fái að tilnefna af sinni hálfu þennan eina mann, sem þá félli niður af þessum fjórum, sem ASÍ var ætlað að hafa. En þá kemur í ljós, að þeir nm. fjhn., sem styðja ríkisstj., geta ekki fallizt á þetta, að fulltrúar ASÍ í n, verði þrír og BSRB fái einn, en vilja knýja það fram, að ASÍ megi tilnefna alla 4 fulltrúa. Mér er vel kunnugt um það, að þeir forystumenn ASÍ, sem höfðu rætt þessi mál við ríkisstj., höfðu orðið ásáttir um það við samstarfsmenn sína í BSRB, en á milli þessara tveggja launþegasamtaka hefur verið náið samstarf, að BSRB fengi einn af þessum fulltrúum. Nú sýnist það auðvitað mjög sanngjarnt, að jafnfjölmennt og mikið samband sem BSRB er, eigi þarna einn fulltrúa og þegar sá aðili, sem ætlað hafði verið að hafa þarna fjóra fulltrúa, vill gjarnan sætta sig við að hafa þar þrjá, ef BSRB fær þann fjórða, sýnist nú ekki ástæða til þess að knýja hitt fram, að ASÍ skuli tilnefna fjóra. En það er engu líkara en þeir, sem virðast ráða þessum málum, hafi eitthvert ofnæmi í þessu tilfelli gegn BSRB. Þeir megi helzt ekki heyra það nefnt í þessu tilfelli. En nú hafa auðvitað fulltrúar BSRB nákvæmlega sömu áhugamálin varðandi þetta eins og fulltrúarnir frá ASÍ. Ég verð því að lýsa undrun minni yfir því, að þetta skyldi þurfa að verða til þess, að n. klofnaði og ég á satt að segja erfitt með að trúa því, að hæstv. viðskmrh. haldi fast við þetta atriði að halda þessu svona óbreyttu. Á það hefur verið minnzt, að ef hér yrði farið að nefna BSRB, gætu komið hér enn fleiri samtök til, sem óskuðu eftir að fá menn í n. Vissulega geta þau komið hér til, þó að ekki sé minnzt á BSRB. Þau gætu gefið sig fram og hafa oft óskað eftir því að fá fulltrúa í verðlagsnefnd. En ef samkomulag hefði orðið hér á Alþ. á milli allra flokkanna á þinginu um það að hafa þennan hátt á, var hættan ekki mjög mikil, að hinir hefðu brotizt í gegn með þessar óskir sínar, til þess að glundra einhverju í þessari n. Ég álít því, að málið liggi þannig fyrir, að alveg augljóst sé, að ef ekki fæst fram þessi breyting á tillgr. eins og hún liggur fyrir, er hér um einhverja alveg óskiljanlega andstöðu við BSRB að ræða.

Sú leið, sem líka er minnzt á, að ASÍ geti tilnefnt einhvern úr röðum BSRB í sæti eins af þeim fjórum, sem það á að tilnefna, er vitanlega óeðlileg og óaðgengileg. Það er vitanlega eðlilegt, að það sé bandalagið sjálft, sem tilnefnir sinn fulltrúa, velur sinn fulltrúa til þess að sitja í slíkri n. sem þessari, en það sé ekki Alþýðusambandsstjórn, sem velur þeirra fulltrúa. Við í minni hl. fjhn. leggjum því til, að sú breyting verði gerð á frv., að í stað þess, sem stendur í tillgr., að 4 nm. skuli skipaðir samkv. tilnefningu ASÍ, skuli þrír nm. skipaðir samkv. tilnefningu ASÍ, en einn samkv. tilnefningu BSRB o.s.frv., eins og segir í 1. gr. frv.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þessi skipun á verðlagsnefnd verði aðeins í gildi út árið 1968 eða á meðan áhrif gengislækkunarinnar eru að koma fram í verðlaginu. Ég hefði nú álitið fyrir mitt leyti, að það hefði verið eðlilegt að taka upp þessa skipun á n. og hafa þar engin sérstök tímamörk á. Ef Alþ. sýnist ástæða til þess að breyta fyrirkomulaginu með skipun n., verða sett lög um það, en ég kann heldur illa við, að þetta sé bundið aðeins við árið 1968. Við höfum nú samt ekki séð ástæðu til þess að flytja brtt. um það, heldur aðeins þetta eina ágreiningsefni, sem er þess eðlis, að ég vil varla trúa því, að hér þurfi að verða langar eða miklar umr. um þetta efni eða miklar þrætur um það, hvaða fyrirkomulag skuli haft á þessu og ég undirstrika það, að mér er vel kunnugt um það af viðtali við forseta ASÍ og við formann verkamannafélagsins Dagsbrúnar, sem hér er staddur á þingfundinum, og þá aðra aðila frá hálfu ASÍ, sem við í fjhn. höfðum rætt um þessi mál við, að það er vilji þessara aðila, að fulltrúar ASÍ verði þrír og BSRB fái að tilnefna fjórða manninn. Og ég get bara ekki skilið, að það sé neinn vinningur fyrir ríkisstj. að vera að þvinga hér fram aðra skipun á þessum málum en þessir aðilar vilja. Ég veit ekki nema það verði hreint klúður úr þessu og að Alþ. sé ekki alveg öruggt um það að geta sagt ASÍ að skipa fleiri menn þarna en þeir vilja út af fyrir sig hafa sjálfir. Og ég vil því vænta þess, að hæstv. viðskmrh. fallist á þau rök, sem ég hef flutt hér fyrir því, að þessi breyting verði gerð á frv.