27.11.1967
Neðri deild: 29. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

66. mál, verðlagsmál

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mér finnst þetta líta frekar illa út, að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja sé sýnd þessi — ég vil segja óvirðing, sem hér kemur fram, að það megi ekki eiga kost á að eiga einn mann af níu í þessari verðlagsnefnd. Þarna mun vera um samband að ræða, sem samanstendur af 8 þús. manns í landinu. Auk þess eru þetta þau stéttasamtök, sem engan verkfallsrétt hafa og í raun og veru þar af leiðandi engan samningsrétt um vísitölu á laun móts við verkalýðsfélög í landinu. BSRB komi ekki þarna að. Hv. frsm. meiri hl. afsakaði sig með því, að það hefði ekki komið nein beiðni fram frá BSRB í þessu efni. Kom nokkur beiðni fram um fjóra menn frá ASÍ? Ég held, að það hafi bara verið nefndir þrír áður. Og hvernig var hægt að búast við einhverri beiðni frá BSRB? Var ekki verið að útbýta þessu frv. nú í kvöld? Veit BSRB nokkuð um frv., að það sé til? Átti BSRB að senda beiðni hingað inn á Alþ. um mál, sem enginn hafði séð, því síður, að það gæti haft hugmynd um, að það væri verið að afgreiða frv. hér á næturfundi. Það er ekki hægt að afsaka slíkt með því, að það hafi ekki legið fyrir nein beiðni. Menn geta ekki beðið um neina hluti, þegar þeir eru ekki farnir að sjá málið. Ég vænti þess, að hv. þm. taki til athugunar þá brtt., sem hér er borin fram, og hún verði samþ.