09.04.1968
Efri deild: 86. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er augljóst mál, að hér er um stórkostlegt vandamál að tefla, en ég mun samt ekki fara mörgum orðum um þetta frv. í þetta skipti, og er hvort tveggja, að frv. er nýlega útbýtt, svo að tæpast hefur gefizt tími til að lesa það, og í annan stað hefur orðið að samkomulagi, eins og hæstv. sjútvmrh. gerði grein fyrir, að greiða götu frv. nú til n., svo að ekki þurfi að hafa þingfund í þessari hv. d. á morgun. Ég vil þó segja það strax á þessu stigi um þetta frv., að ég get alls ekki fallizt á það eins og það er úr garði gert. Það er efni þess, eins og hæstv. sjútvmrh. gerði grein fyrir, að leggja nýjar álögur á vissar greinar sjávarútvegsins. Þær álögur eru áætlaðar að upphæð 42 millj. kr. Því fer þó fjarri, að með þeim álögum sé sá vandi leystur, sem hér er við að glíma, því að eins og ráðh. gerði grein fyrir, er halli á þessum tryggingasjóði orðinn eða verður að óbreyttu yfir 200 millj., og hrekkur sú fjárhæð, sem hér er um að tefla, 42 millj., skammt til þess að leysa þann mikla vanda. Það er ekki gerð grein fyrir því í þessu frv., hvernig snúizt verði við þeim vanda, sem eftir er að leysa í því sambandi. Það segir aðeins með næsta óákveðnum orðum hér í aths. við frv., með leyfi forseta:

„Því, sem á vantar, 61 millj. kr., verður hins vegar að reyna að ná. með því að draga úr útgjöldum sjóðsins.“

Þetta á aðeins við hallann á þessu ári. Og síðan segir: „Enda þótt það takist að fullu, en það liggur enn ekki ljóst fyrir, er sá vandi enn óleystur að jafna þann hluta hallans frá fyrra ári, er ekki fæst jafnaður með hlut tryggingasjóðs í gengishagnaði af útflutningsafurðum, sem áætlaður er 50—60 millj. kr. Sá halli, er eftir stæði, mundi þá nema um 35—40 millj. kr.“

Það kemur á daginn með þessu frv., að þarna er um stórkostlegt vandamál sjávarútvegsins að ræða. Nú höfum við verið að fjalla um ýmis vandamál sjávarútvegsins að undanförnu. Ég álít, að það væri heppilegra að taka öll þau mál til athugunar í heild, en ekki tína þannig fram eitt vandamálið á fætur öðru, eins og gert hefur verið. Ég held, að það væri eðlilegra að horfast í augu við þann vanda, sem hér er um að ræða, í einu og skoða málið allt í heild heldur en láta svo í hvert eitt skipti, að verið sé að leysa mál þessarar atvinnugreinar, en svo jafnskjótt og það er búið, kemur annar vandi í ljós.

Hér er um það bil að ná afgreiðslu úr þessari hv. d. frv. til l. um Stofnfjársjóð sjávarútvegsins. Þar er gert ráð fyrir, að 124 millj. gangi í Stofnfjársjóð sjávarútvegsins, sem varið verði til þess, að mér skilst, að verulegu leyti að greiða afborganir og vexti af stofnlánum fyrirtækja. En í sambandi við það mál minnist ég þess ekki, að það hafi verið vikið að því, að óleystur væri vandinn í sambandi við vátryggingar fiskiskipa. Það kemur fyrst fram, þegar langt er komið afgreiðslu hins málsins. En þá kemur það á daginn, að það vantar ekki minni upphæð heldur meiri upphæð í þennan vátryggingasjóð heldur en í afborganir og vexti og vanskil af stofnlánum.

Ég skal, eins og ég sagði, ekki fara að öllu leyti ýtarlega út í að ræða þetta frv. að þessu sinni. Vil aðeins undirstrika þetta, að hagur útgerðarinnar virðist vera þannig og hefur verið þannig, að hún sýnist ekki þola auknar álögur. Þarna er gert ráð fyrir auknum álögum enn á útgerðina upp á 42 millj. samtímis því, sem verið er að samþykkja hér og afgreiða lög um framlög til útgerðarinnar úr ríkissjóði. Það sýnist lítið samræmi í þessu. Í öðru lagi er það Ijóst, að þó að þetta frv. verði afgreitt, fer því svo fjarri, að vandi þessa vátryggingasjóðs verði leystur, sá vandi, sem eftir stendur, er miklu meiri en nemur þessum 42 millj.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því, að þessi upphæð, sem hér er um að ræða 42 millj., verði aðallega fengin af saltsíld, og það er vikið að því í aths. við frv. og gerð nokkur grein fyrir því, að verð á saltsíld hafi ekki lækkað eins og verð á ýmsum öðrum útflutningsafurðum og því er það gefið í skyn, að saltsíldin muni geta borið þær auknu álögur, sem hér er um að ræða, að útflutningsgjaldið verði fært upp, eins og segir í þessu frv. og að aukning tekna af því verði um 28 millj. En ég verð að segja það, að eins og málin horfa varðandi saltsíldina og síldveiðarnar á sumri komanda, dreg ég mjög í efa, að sú atvinnugrein sé fær um að taka á sig þann bagga, sem hér er um að tefla. Öllum er það kunnugt, að síldveiðarnar urðu erfiðar á marga lund á s.l. sumri og mér virðist, að menn geri ráð fyrir því, að þar muni ekkert verða léttara undir fæti á sumri komanda. Menn gera ráð fyrir því, að það þurfi að sækja síldina langt og flytja hana langt til, og það er þess vegna augljóst, að sá atvinnurekstur verður mjög erfiður viðfangs á næsta sumri. Ég held því að það sé óráð að gera nú ráð fyrir því, að þessi atvinnugrein geti tekið á sig þau auknu gjöld, sem þarna er um að tefla. Ég held, að það sé ekki leyfileg bjartsýni, að svo muni ganga hjá síldveiðunum á sumri komanda, að þær geti borið þetta.

Þarna er um nýjar álögur upp á 42 millj. kr. að ræða, en hæstv. sjútvmrh. segir að hér sé ekki um að ræða álögur, sem falli til ríkissjóðs, heldur fari þær til útgerðarinnar aftur. Þetta er útaf fyrir sig rétt, en það sjá þó allir, hver skrípaleikur það er í raun og veru að vera að leggja álögur á atvinnugrein, sem ekki fær staðizt án þess að fá svo fyrirgreiðslu og stuðning í ýmsu formi. Það sýnast vera lítil búhyggindi í þeim tilfærslum. En það er ákveðið í 2. gr. frv., hvernig þessu skuli varið, og það er augljóst, að hækkunin á að fara í vátryggingar fiskiskipanna, og þá má að vísu til sanns vegar færa, að útflutningsgjaldið renni þá aftur til útgerðarinnar að nokkru leyti. En þá er komið alveg að merg málsins í þessu sambandi að mínum dómi, og hann er sá, að með þessu er auðvitað verið að færa til tekjur frá sjómönnum og til útgerðarinnar. Það er það, sem er í raun og veru verið að gera með þessu frv. og er grundvöllur fyrir þessu útflutningsgjaldi. Það er verið að taka útflutningsgjaldið af óskiptu og verja því til annars aðilans. Þetta liggur náttúrlega ljóst fyrir, að það er þetta, sem raunverulega er verið að gera með þessu. Ég skal ekki segja, að það geti ekki verið réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum að laga þannig eitthvað til. En hér er um allmikla og verulega röskun að tefla, og nú hef ég það í huga, að nýlega hefur verið ákveðið verð á sjávarafurðunum og samningar verið gerðir og mér skilst, að þeir samningar hljóti að hafa verið byggðir á þeirri forsendu, að grundvellinum væri ekki raskað eins og mér sýnist, að hljóti að vera gert með þessu ákvæði. Og þá verður mér spurn í þessu sambandi, ég veit ekkert um það nú, en mér kemur sú spurning í hug, telja ekki sjómenn brotinn rétt á sér með svona lagasetningu? Mér kæmi það ekkert á óvart. Það upplýsist náttúrlega við meðferð málsins í n. Ég skal svo standa við það, sem ég sagði, að ég skal ekki fara nánar út í það að ræða þetta annars stóra og mikla mál á þessu stigi, enda á ég sæti í þeirri n., sem málið fær til meðferðar, en vil aðeins endurtaka það, að ég get með engu móti fallizt á þetta frv. eins og það er úr garði gert og eins og það lítur út frá mínu sjónarmiði.