09.04.1968
Efri deild: 86. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Við höfum að undanförnu búið við erfitt tíðarfar. Það hafa verið frost og snjóar. En þegar þessu virðist nú vera að linna, þá byrjar snjógangur af sérstökum hætti hér inni í þinginu. Einmitt á meðan við vorum að ræða hér frv. ríkisstj., sem ráðgerir að leggja á skattborgara landsins um það bil 109 millj. og mikið kapp er lagt á af stjórnarinnar hálfu að fá það afgreitt sem allra fyrst, og ég skal út af fyrir sig fallast á það, að slík mál eru þess eðlis, að það er ekki æskilegt, að þau séu mjög lengi í meðförum Alþ., þá snjóar hér inn á borð okkar þm. nýju frv., sem felur í sér nýjar álögur að því er ríkisstj. ætlar upp á 42 millj. kr. Þetta er frv. um breytingar á útflutningsgjöldum á sjávarafurðum.

Hæstv. sjútvmrh., sem hér mælti fyrir frv., fór nú að vísu ekki mjög ýtarlega ofan í tildrög þess, að frv. liggur hér fyrir. Þó er það í aðalatriðum glöggt, að ríkisvaldið hefur í rauninni tekið að sér að greiða vátryggingargjöld af fiskiskipaflotanum, en til þess að standa straum af þeirri iðgjaldagreiðslu, hafa verið lögð á sérstaklega há útflutningsgjöld á sjávarafurðir, svo há, að það þykir ekki hlýða af ríkisstj. hálfu, eins og stundum er þó gert, að reyna að sanna það, að þau séu ekki hærri en í öðrum löndum, enda hygg ég, að það þyrfti að leita langt til þess að finna slík útflutningsgjöld af helztu afurðum nokkurs lands sem útflutningsgjöldin af sjávarafurðum eru hér á Íslandi. Ég hef t.d. hugmynd um það, að nú þegar ríkisstj. hefur ákveðið að rannsaka, hvort við ættum innangengt í EFTA, sé það eitt af því, sem menn reka þar fyrst augun í, að þar á kunni að vera sá hængur, að eftir reglum þess bandalags og reyndar ekki síður eftir reglum annarra bandalaga, sem manni virðist nú ríkisstj. líta nokkru hornauga til að komast inn í, þyrftu einmitt hin sérstöku útflutningsgjöld, sem við hér höfum, þá að jafnast út og færast til samræmis við það, sem gerist í öðrum löndum. Ég vildi þegar við þessa umr. málsins spyrjast fyrir um það hjá ráðh., hvort það mál hefur verið athugað, hvort við verðum ekki, ef af þeim yfirlýsta vilja ríkisstj. verður, að við getum komizt inn í EFTA, að lækka öll útflutningsgjöld, og er þá hér tjaldað nema til einnar nætur með því að færa útflutningsgjöldin til hækkunar?

Hæstv. ráðh. lét hér svo um mælt, að í rauninni væru þessi gjöld ríkissjóði óviðkomandi, þar sem þetta væri tilflutningur á milli aðila innan sjávarútvegsins. Það er nú svo. Ég held, að hér sé reyndar um meira að ræða heldur en það, að hér sé tilflutningur einn á milli aðila innan sjávarútvegsins. Það er að vísu rétt, að að parti til má heimfæra það, að svo kunni að líta út, en hvaða aðilar eru það þá, sem fært er á milli? Ég held, að það sé vert, að við komum að þeim atriðum, en hv. síðasti ræðumaður, sem hér talaði á undan mér, drap reyndar lítillega á það, hvað væri kjarni málsins. En kjarni málsins er einmitt sá, að íslenzkir fiskimenn eru yfirleitt ráðnir upp á hlut af afla. Og sá hlutur er venjulega tiltekinn í einhverjum pörtum, hundraðshlutum úr heildarafla hvers skips. Afli sjómanna er síðan greiddur á sama verði eins og útvegsmanna, en til þess að verðákvarðanir á aflanum verði tiltölulega lágar, er reiknað með því, þegar aflaverðmætið er ákveðið hverju sinni, — en það er gert árlega og stundum oftar en einu sinni á ári, — þá er reiknað með því, að af óskiptu séu tekin gjöld eins og útflutningsgjaldið. Það er þess vegna alveg greinilegt, að tilflutningurinn liggur í því, að það er verið að færa tekjur burt frá sjómannastéttinni og yfir til útgerðarinnar. Þó vildi ég segja það, að útgerðinni kemur þessi tilflutningur reyndar að takmörkuðu gagni, þó að ég dragi ekki í efa, að svo sé til ætlazt, að hann komi útgerðinni að gagni. Í kjölfar þessa er það svo raunin, að af opinberri hálfu eru goldin öll tryggingargjöld af fiskiskipaflotanum. Vátryggingarfélögin geta farið í harða samkeppni um að ná til sín viðskiptavinum til að tryggja skip og boðið góð kjör í nokkurn veginn fullri vissu um það, að hið opinbera sér um iðgjaldagreiðslurnar með ríflegum ágóðahlut fyrir sig, miðað við þær tjónabætur, sem orðið hafa undanfarandi ár. Allt þetta kerfi leiðir til mikilla vandræða, þegar það hefur staðið árum saman, þannig að tjónabætur á íslenzkum fiskiskipum eru miklum mun hærri heldur en tíðkast í nágrannalöndum í kringum okkur. T.d. munu þær vera nálega tvöfaldar á Íslandi við það, sem gerist í Noregi. Það er þess vegna ástæða til að ætla, að hér sé ekki um tjónabætur eingöngu að ræða í ströngustu merkingu þess orðs, heldur mun því vera svo fyrir komið, að meira og minna af viðhaldsframkvæmdum er líka kallað tjónabætur og þannig verða tjónabætur íslenzka fiskiskipaflotans alveg óeðlilega háar. En íslenzk stjórnarvöld, sem telja sér svo mikils virði að draga þannig burst úr nefi sjómanna, að taka allar iðgjaldagreiðslur í rauninni á opinbert framfæri, þeir telja þetta ekki skipta svo miklu máli, eins og það frv., sem hér hefur verið lagt inn á borð þm. í dag, ber með sér. Það er bara að hækka útflutningsgjöldin enn, þó að þau séu miklum mun hærri heldur en tíðkanleg eru nokkurs staðar á byggðu bóli í nálægð við okkur.

Þá er það leikurinn um það, að þetta sé ríkissjóði ekki viðkomandi, sem vert er að skoða örlítið nánar. Í nóvember í haust var gengi íslenzkrar krónu lækkað og við fengum þá skýringu á því, að þetta væri nauðsynlegt til þess að útflutningsframleiðslan, þ.e.a.s. sjávarútvegurinn, gæti borið sig og staðið undir sínum skuldbindingum. Ekki vil ég nú segja það, að það sé ríkissjóði eða skattþegnum íslenzka ríkisins óviðkomandi, þó að gengi íslenzkrar krónu sé stórlega fellt. En svo hlýtur auðvitað að fara, þegar meiri byrðar eru lagðar á höfuðatvinnuveg þjóðarinnar heldur en hann getur staðið undir. Þrátt fyrir þetta höfum við svo horft framan í þá staðreynd nú eftir nýárið, að ríkisstj. hefur samið við aðila sjávarútvegsins, þ.e.a.s. útgerðarmenn og fiskverkunaraðila um að greiða þeim ofan á gengisfellinguna 320 millj. úr ríkissjóði. Ætli það sé ríkissjóði eða skattþegnum íslenzka ríkisins óviðkomandi? Ég hefði nú haldið, að svo væri ekki. Og svo kemur frv. að tarna með löngum rökstuðningi um það, að vegna þess að verð á íslenzkum sjávarafurðum hafi fallið svo að undanförnu, sé nauðsynlegt, að því er manni skilst til viðreisnar sjávarútveginum, að hækka útflutningsgjöldin af íslenzkum sjávarafurðum um tugi millj. ofan á það, sem er. Um allt þetta sýnist mér, að hér séu dregin fram rök, sem séu, ef þau eru skoðuð í því ljósi, sem eðlilegast er og rökréttast, hreinlega sannanir fyrir því, að svona gjald megi hreint ekki hækka, það sé með öllu fráleitt að hugsa sér það.

Í grg. frv. er að því vikið, að halli á tryggingariðgjöldunum, þ.e.a.s. mismunurinn á tryggingariðgjöldunum, eins og þau eru krafin, og því fé, sem til þeirra á að renna samkv. gildandi lögum um útflutningsgjöldin, mismunurinn þarna á séu 95 millj. kr. Lauslega er á það drepið, að ekki muni nú þessar 42 millj. kr., sem á að hækka útflutningsgjöldin um samkv. þessu frv., geta mætt öllum þeim halla, heldur muni þurfa að reyna að spara eitthvað á tryggingariðgjöldunum eða kannske sem mismuninum nemur. Ég held, að það hefði verið nær, áður heldur en svona frv. er sýnt hér á Alþ., að sýna fram á það með hverjum hætti á að spara, sýna fram á það, að fyrst verði að koma tryggingariðgjöldunum niður á það stig, sem talizt getur sambærilegt við okkar nágrannalönd, áður heldur en mönnum dytti það í hug að ætla að fara að leggja á ný gjöld, einkum á sjómannastétt landsins, til þess að borga þau. En þetta frv. gerir beinlínis ráð fyrir því, að 42 millj. séu lagðar á sjómannastétt landsins fyrst og fremst. Sjómannastétt landsins kann að vera talin einhverrar refsingar verð af stjórnvaldanna hálfu. En ekki breytir það því, að án þeirrar stéttar verður lítið um tekjur í ríkissjóðinn íslenzka, og ef til þess kemur, að framleiðslan dregst saman, þá hossa þessar 42 millj. ekki hátt, hvorki í eitt né neitt af þörfum íslenzka ríkisins.

Það var einnig drepið á það hér af þeim ræðumanni, sem talaði næstur á undan mér, að hætta er á, að slíkt gjald, sem lagt er á eftir að ákveðið hefur verið verð á fiskafurðum, raski bæði einu og öðru í sambandi við framleiðsluna, og það er svo vissulega hárrétt og reyndar ekkert smáatriði. Nú er svo komið, að í verðlagningu sjávarafurða telja fiskvinnsluaðilar ýmsir sér vera ofgert. Þeir borgi þegar hærra hráefnisverð heldur en þeir hafi efni á og hafa uppi ýmsar hótanir um að stöðva fiskverkunarrekstur sinn. Hefur raunar komið til slíkrar stöðvunar að undanförnu, hversu réttmæt sem hún kann nú að vera. Ég bendi á það, að nú hafa ýmsir þeir aðilar, sem verka karfa, tilkynnt það, að þeir geti ekki staðið undir þeirri verkun með því verðlagi, sem ákveðið hefur verið. Ætli það sé til þess fallið að greiða úr slíkum vandamálum að hækka bara útflutningsgjöldin? Ég hefði nú haldið, að svo væri ekki. Svipuðu máli gegnir um ýmsa síldarframleiðendur, ekki sízt fiskiskipaeigendurna sjálfa. Þeir telja, að fyrirsjáanlegur kostnaður við síldveiðar á næsta sumri sé slíkur, að allsendis sé óvíst, hve mörg eða hvort nokkur skip verða gerð út til þeirra, ef þær yrðu harðsóttar að svipuðu marki og var á s.l. sumri og langsóttar. Hér ber því allt að sama brunni, að það frv., sem hér er lagt fyrir, get ég ekki annað séð heldur en sé algert vanhyggjuráð og í rauninni furðar mig á því, að það skuli vera sýnt á Alþ. og reynt að telja þm. trú um það, að þetta sé atriði, sem ekki snerti íslenzka þjóðarbúið, þ.e.a.s. íslenzkan ríkissjóð. Nei, því fer svo víðs fjarri, að svo sé.

Ég vil svo endurtaka spurningu mína um það, hvað hæstv. ráðh. álítur um íslenzku útflutningsgjöldin yfirleitt og hugmyndina um það, að við gerumst aðilar að EFTA, því að ég hygg, að ef sú hugmynd ríkisstj., að við ættum að verða þátttakendur í EFTA eða einhverjum slíkum samtökum, væri meint alvarlega, sé það einna fjarlægast af öllu fjarlægu að gera ráðstafanir til þess að hækka hin þegar allt of háu útflutningsgjöld, útflutningsgjöld, sem eru ósamræmanleg því, sem tíðkast í öðrum löndum þess bandalags.