16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. N. hefur ekki fengið langan tíma til að athuga þetta frv. og ber jafnvel frágangurinn á nál. það með sér, því að það óvenjulega hefur komið fyrir, að prentvilla er í nál. meiri hl., sem ég vil biðja hæstv. forseta að sjá um, að verði leiðrétt við prentun á þingtíðindum. Þar er skorað á hæstv. ríkisstj. að „undirrita“ löggjöf um þetta efni, en á að sjálfsögðu að standa að „undirbúa“ löggjöf.

Það er án allrar hrifningar, sem meiri hl. n. mælir með samþykkt þessa frv. óbreytts. Það kemur undir það, sem maður kallar illa nauðsyn, að það verður að sjá fyrir því að halda bátaflotanum í tryggingu og mér skilst, að til þess sé engin önnur leið heldur en að greiða a.m.k. töluverðan hluta af iðgjöldunum og fyrir því er verið að reyna að sjá í þessu frv. Af ástæðum, sem fyrirrennurum mínum á Alþ., þeim vísu mönnum, sem þær reglur settu á sínum tíma, eru sjálfsagt kunnari en mér, hefur verið farið inn á þá leið að greiða vátryggingu fiskiskipanna með útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, og nú, þegar verðið lækkar á þessum afurðum, verður að sjálfsögðu ónógt fé í sjóði til þess að standast þennan kostnað öðruvísi heldur en að hækka gjaldið af hinum einstöku vörutegundum. Það má segja, að hallinn, sem þarf að jafna fyrir árin 1967 og 1968, sé sem næst 100 millj. kr. fyrir hvort ár. Fyrir 1967 hefur verið séð fyrir þessu að nokkru leyti með því að leggja til hliðar hluta af hinum svokallaða gengisbreytingarhagnaði í þessu skyni, hinum reikningslega hagnaði, sem myndast í sambandi við gengisbreytinguna við það, að útfluttar vörur framleiddar fyrir breytinguna verða aðeins gerðar upp á gamla genginu, þótt þær séu seldar á hinu nýja gengi. Þannig mun bætast töluverður hluti af halla síðasta árs, og halla þann, sem búizt er við á þessu ári, á að reyna að bæta að nokkru með þessu frv., sem hér liggur fyrir, þ.e.a.s., það er gert ráð fyrir, að þarna náist kringum 42 millj. kr. Afganginn er hugsað að reyna að bæta með því að draga úr útgjöldum við tryggingarnar.

Ég hygg mig tala fyrir alla n., a.m.k. í fullu umboði meiri hl., þegar ég segi, að þessi mál eru í ólestri og á engan hátt með því móti, sem við vildum óska, og að það er samróma álit okkar, að þau þurfi að taka föstum tökum og að það fyrirkomulag, sem á þeim málum er núna, sé ekki til neinnar frambúðar og þurfi að kippa því í lag fyrir næstu áramót. Það ætti að vera eitt af fyrstu frv., sem yrðu lögð fyrir Alþ., þegar það kemur aftur saman til funda í haust. En þar sem auðséð er, að þegar svo áliðið er þingtímans sem nú er orðið, getur ekki unnizt tími til slíkrar endurskoðunar að sinni, þá mælum við af illri nauðsyn með samþykkt frv. óbreytts.