16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að vera á fundi í sjútvn., þegar þetta mál var þar til umr., enda þótt þess sé nú ekki getið, hvorki í meiri hl. nál. né minni hl. En mér fannst ég ekki geta látið þetta mál alveg fram hjá mér fara. Í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, um hækkun á útflutningsgjöldum, er gert ráð fyrir að hækka þau, útflutningsgjöldin, á þremur tegundum afurða, óverkuðum saltfiski, frystum humar og saltsíld. Hér er verið að auka þær álögur, sem á þessum afurðum voru fyrir hendi. Það er gert ráð fyrir að tekjuauki af þessu nemi um 42 millj. kr., sem gangi upp í halla tryggingasjóðs, en sá halli nam á árinu 1967 um 95 millj. kr. og er áætlaður um 103 millj. á árinu 1968 eða samtals um tæpar 200 millj. á þessum tveimur árum. Upp í þennan halla er gert ráð fyrir því að fá um 60 millj. af gengishagnaði af útfluttum afurðum og 42 millj. samkv. þessu frv. Eftir verður því að jafna halla á tryggingasjóðnum, sem nemur um 100 millj. kr. En það er gert ráð fyrir því samkv. grg. frv., að um 60 millj. kr. verði hins vegar að reyna að ná með því að draga úr útgjöldum sjóðsins.

Mér virðist það harla lítil lausn, sem bent er á í þessari grg. með því að orða þetta svo „að draga úr útgjöldum sjóðsins“ án þess að benda á nokkra aðra leið. Hér fyrir þessari hv. d. lá frammi frv. um sparnaðartill. ríkisstj. Þar var svo drepið á einstaka liði, sem talið væri unnt að spara á eitthvað, þó að menn greindi mjög á um, hvort um raunverulegan sparnað yrði að ræða. Hér er ekki gerð minnsta tilraun til þess að benda á, hvar hægt verði að draga úr kostnaði í þessu efni.

Það er viðurkennt af öllum, að mjög mikill vandi er í sambandi við þessi mál, vandi, sem er óleystur. En hvað þýðir það, ef þarna er verið að tala um að það eigi að reyna að draga úr halla sjóðsins með því að draga úr útgjöldum? Það þýðir einfaldlega það, að útgerðarmenn þeir, sem hafa báta sína tryggða, verða að greiða stöðugt hærri hlut iðgjaldanna. Tryggingafélögin greiða ekki tjónin, sem verða á bátunum, vegna skulda bæði tryggingasjóðs og einstakra útgerðarmanna. Þeir verða að skuldajafna. Fari tjónabæturnar yfir ákveðna iðgjaldaupphæð, hækka tryggingagjöldin og þurfa því margir útgerðarmenn að greiða stórar fjárhæðir umfram það, sem fæst greitt úr sameiginlegum tryggingasjóði. Sá sameiginlegi tryggingasjóður hefur ekki nægt á undanförnum árum og hefur halli sjóðsins stöðugt aukizt og svo er enn. Fyrir þessu þingi liggur nú, að ég held við lokaumr. í Nd., frv. til l. um stofnfjársjóð fiskiskipa. Þegar það frv. var boðað í dagblöðum hér í borg, var það túlkað sem nægileg lausn á vandamálum bátaútvegsins. Þá var ekki minnzt á, að nokkur vandi væri óleystur í sambandi við bátaútveginn. En nú kemur í ljós, að óleystur er vandi, sem nemur um eða yfir 100 millj. kr. Þegar stofnfjársjóðurinn var ákveðinn, var örugglega reiknað með því, að ekki yrði dregið úr aðstoð við bátaútveginn á öðrum sviðum, enda engin von til þess vegna síhækkandi útgerðarkostnaðar, að slíkt væri unnt. Hagur útgerðarinnar þolir þetta ekki, þegar þess er enn fremur gætt, að hagur stærri síldarskipanna er svo bágur, að fæst þeirra munu komast á síld, nema þau fái stórkostlega fyrirgreiðslu í einhverri mynd. Ég gæti trúað því, að það hefði þurft að hækka upphæðina, sem gert er ráð fyrir að leggja í stofnfjársjóðinn, um eða yfir 80 millj., til þess að síldarbátarnir fengju einhverja aðstoð, svo að von væri, að þeir kæmust á síld. Samt sem áður er nú lagt hér til í frv. að stórauka vanda bátanna. Það eykur útgjöld þeirra að miklum mun.

Tryggingasjóðurinn mun skulda hinum ýmsu vátryggingafélögum vegna ársins 1967 um 63 millj. í dag. Áfallin skuld vegna liðinna 3—4 mánaða 1968 mun vera um eða yfir 90 millj., því að það munu vera um það bil 23 millj. á mánuði, sem vátryggingariðgjöldin eru. Tekjur af útflutningssjóðnum samkv. þessu frv. munu ekki koma inn fyrr en seint á þessu ári, sbr. tekjur af saltsíldinni, útfluttri saltsíld. Þess vegna verður erfitt fyrir bátaútvegsmenn að fá greitt tjón hjá tryggingafélögunum, vegna þess að þau verða ekki búin að fá greitt úr þessum sjóði og jafnvel skulda einstakir

útgerðarmenn þar allverulegar upphæðir. Ég fæ ekki séð, hvernig eigendur bátanna eiga að rísa undir þessu eins og hag útvegsins er komið, og erfiðleikarnir magnast sífellt. Hér er því ekki um neina lausn, enga viðunandi lausn á vandamálum tryggingasjóðsins að ræða nema síður sé. Á þessu þingi hafa verið lögð fram ýmis frv. um stuðning við sjávarútveginn. En jafnframt hafa verið lögð fram mörg frv., sem valda þessum atvinnuvegi stórauknum útgjöldum. Það er verið að taka með vinstri hendinni aftur það, sem rétt var fram með hægri hendinni. Það verður varla talið annað en skrípaleikur, þegar þannig er staðið að undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.

Saltsíldin á samkv. þessu frv. að skila bróðurpartinum af þeim tekjuauka, eða um 28 millj., sem gert er ráð fyrir að fá. Nú er það vitað mál og öllum ljóst, að stóraukinn kostnaður verður við síldveiðar á komandi sumri á fjarlægum miðum, og verður þetta ekki til þess að auðvelda þann atvinnurekstur eða gera hann arðbærari. Það er því í fyllsta máta ólíklegt, að þessi atvinnurekstur verði aflögufær og þoli hækkaðar álögur, þvert á móti. Þess vegna er engin hrifning að mæla með þessu frv. óbreyttu, eins og fram kom hér áðan í framsögu meirihlutaálitsins. Ég er ekki hissa á því.

Það hafa borizt harðorð mótmæli gegn samþykkt þessa frv., bæði frá síldarsaltendum og sjómönnum. Hlýtur það að vera háskalegt að fara nú að auka álögur á afurðir þessar, álögur, sem vafalaust torvelda og draga úr líkum fyrir því, að síldveiðar verði stundaðar að einhverju verulegu ráði á komandi sumri. Ég skil það vel, að það sé engin ánægja að samþykkja þetta frv. hjá þeim, sem þó leggja það til. Það er varla von. Sannleikurinn er sá, að allar greinar sjávarútvegsins eru í miklum erfiðleikum, og það verður alls ekki komizt hjá því að taka þennan atvinnuveg til gagngerðrar endurskoðunar og gera þær ráðstafanir, sem koma honum á reksturshæfan grundvöll. Allt annað er kák og með því er verið að ýta á undan sér vanda, sem verður að leysa, vanda, sem vex með hverjum mánuðinum, sem honum er ýtt á undan sér. Ég hefði nú haldið, að það væri eitthvert mark takandi á þeim mótmælum, sem borizt hafa og frsm. minni hl. sjútvn. vitnaði hér í áðan, bæði frá síldarútvegsnefnd og fleirum. Ég hef ekki átt þess kost að lesa þetta nema frá síldarútvegsnefndinni. Mér finnst þau mótmæli svo harðorð, að ég undrast það, að þrátt fyrir þessi mótmæli skuli samt sem áður vera lagt til að reyna að fá samþykki fyrir þessu frv., vegna þess að í frv. felst alls engin lausn.

Þó að ég hafi ekki verið á þessum fundi í sjútvn., þá vil ég taka það fram, að ég styð nál. minni hl. og legg eindregið til með þeim, að frv. verði fellt.