16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað að lengja þessar umr., þar sem kvöldfundur er, en ég gat nú ekki stillt mig um að taka til máls, einmitt vegna mótmæla síldarútvegsnefndar. Það hefur ekki komið hér fram nógu skýrt, finnst mér, að allt þetta kerfi er komið til vegna beiðni bátaflotans. Það voru útvegsmenn, sem báðu um kerfið og settu það af stað, og ríkissjóður hefur ekki neina tekjuvon í þessu kerfi. Ríkissjóður hefur gjaldakvöð í gegnum kerfið, og eðlilegast finnst mér persónulega, að breyting á þessu kerfi til hækkunar eða millifærslu gjalda, en ég kem síðar að því, hvað eru álögur og hvað eru ekki álögur, en það er alltaf verið að tala um hér í kvöld, að hér séu einhverjar stórkostlegar álögur á ferðinni, sem er misskilningur. Menn hafa ekki skilið enn þá, í hverju kerfið er fólgið, og það er einmitt höfuðmisskilningur hjá síldarútvegsnefnd, hún skilur ekki enn í hverju kerfið er fólgið. Hér er ekki um annað að ræða en það, að bátaflotinn hafði á sínum tíma fengið undir kerfi vinstri stjórnarinnar greiðslur ásamt ýmsu fleiru úr vátryggingasjóði og vildi halda því áfram, vegna þess m. a., að skiptakerfi á íslenzka flotanum var byggt upp með hliðsjón af því, að þetta kerfi væri við lýði. Þetta er mér mjög vel kunnugt, því ég tók þátt í öllum þeim umræðum 1960–1961, þegar skiptakerfinu var breytt og sat hér dögum saman niðri í Alþ., þá sem einn af nm. og um það þarf ekki að deila. Þetta er ljóst. Hitt má svo um deila, hversu háa hlutaprósentu eða verðmætaprósentu af fob-verðmæti á að taka af hverri vörueiningu til þess að mæta þessum gjöldum. En á það vil ég leggja ríka áherzlu, að verðið til útvegsins og verðið til sjómannsins er lækkað sem þessari tölu nemur. Þau einu mótmæli, sem ég tek alvarlega og óttast og sagði á sínum tíma að kynnu að vera hættuleg, eru mótmælin frá sjómönnum, því hér er gengið á hlut sjómanna. Innbyrðis kurr frá útgerðarmanni, sem líka er síldarsaltandi, geri ég ekki neitt með persónulega, alls ekki neitt, það má fara hvert sem vera skal.

Síldarútvegsnefnd er með geysilegar fullyrðingar hér í sínu bréfi, svo ótrúlegar, að maður er alveg undrandi að sjá þetta frá þessari ágætu n., og hefði hún fyrr betur brugðið við í ýmsum málum með röskleik til þess að bæta okkar aðstöðu í síldarsöltun, og má þar minna á tunnuverksmiðjuna o.fl. í því sambandi. Ekki er okkur útvegsmönnum greint frá, lið fyrir lið, rekstri á tunnuverksmiðju ríkisins, sem hún rekur og hefur allan veg og vanda af. Fer það þó ekki leynt, að kostnaður á síldartunnu er tugum kr. meiri á tunnu framleiddri á hennar vegum heldur en á innfluttri tunnu og hún bliknar ekkert við að halda því áfram. Hvort hún gerir það í þágu einhverra manna veit ég ekki, vissulega er þetta atvinnubótavinna, en hún er þá ekkert klökk við það að verðleggja tunnurnar eins og nauðsynlegt er. Þá er hún ekkert klökk yfir því verði, sem sjómenn og útgerðarmenn eru látnir borga. Þeim er svo mikið niðri fyrir, að ég má til að lesa það fyrir hv. þm., sem hún segir hér:

„Nefndin telur, að þessi hækkun geti leitt til þess, að þessi atvinnuvegur, sem hingað til hefur bjargazt án opinberra styrkja, lamist svo, að hann falli niður að mestu.“

Hver trúir nú svona fullyrðingum? Þeir ekki einu sinni sjálfir, því viðbótarálagið, sem kemur fram eru nokkrar krónur og að það ríði þessari atvinnugrein að fullu, sem vitað er, að hefur þénað tugi millj. s. l. ár, því trúir enginn maður. Ekki einn einasti síldarsaltandi hefur mér vitanlega séð sóma sinn í því að rétta útvegsmönnum eða sjómönnum aukna krónu af þessum ágóða. Samt eru þeir svo hræddir núna, fulltrúar þessara manna, að þeir óttast, að nokkurra króna álögur, til þess að bátaflotinn geti gengið, til þess að bátaflotinn geti veitt síld, það muni setja atvinnugreinina í rúst. Ég held, að mönnunum sé ekki sjálfrátt. Nei, mótmæli, sem við getum tekið alvarlega og sem vissulega er ástæða til að bera kvíðboga fyrir, það eru mótmæli frá sjómönnum, vegna þess að þeirra tekjuvon er rýrð nokkuð. Það er ekki hægt að komast hjá því. Hér á sér stað millifærsla á tekjum, sem skerðir hlut þeirra. Langflestir útvegsmenn eiga meiri og minni þátt í síldarsöltun og það verða innbyrðis víxl á gjöldum og tekjum hjá þeim og nettóstaðan verður ekki svo stórkostlega breytileg, þetta hef ég rætt við útvegsmenn, sem eru sanngjarnir, og eru líka verkendur. Þeir viðurkenna þetta, því það er nú einu sinni svo að við, sem erum hreinir útvegsmenn hér á Íslandi, við erum aðeins örfáir. Það eru langflestir, sem eiga beinan þátt í fiskverkun eða eru nátengdir henni, að þeir eiga hagsmuna að gæta í vinnslunni líka, og ég vildi aðeins láta það koma fram, að þetta kerfi er byggt upp í þágu útgerðarmanna, sem í langflestum tilfellum eru verkendur um leið.

Hitt er svo annað mál, að vátryggingakerfið er komið á það stig, að það býður upp á misnotkun, leiðinlega misnotkun, sem óprúttnir aðilar notfæra sér og draga til sín fjármagn, óeðlilega stórar upphæðir í gegnum vátryggingakerfið og koma því undir svokallað sjótjón og fá viðgerðarreikninga greidda undir því yfirskini, að hér sé um tjón að ræða, þó að í mörgum tilfellum sé um viðhald að ræða. Hins vegar er það svo, að þegar menn hafa getað notað þessa aðstöðu og svo á að skerða hana, þá auðvitað kveinka menn sér undan því, það er ekkert óeðlilegt. Þegar misrétti hefur átt sér stað í þjóðfélaginu og það er verið að leiðrétta misréttið, þá vilja menn ekki sleppa misréttinu, samkv. eðli málsins. Það væri þess vegna alveg eins eðlilegt, að ýmsir útvegsmenn mundu jafnvel mótmæla því, að það yrðu settar strangari reglur um bótagreiðslur til útvegsmanna, vegna þess að menn eru að missa köku, sem þeir hafa fengið vegna misnotkunar á vátryggingakerfinu, en það væri hróplegt ranglæti og a. m. k. óeðlilegt, að Alþ. vildi stuðla að því að viðhalda slíku.

Ég held, að ég eyði ekki fleiri orðum um þetta, en ég gat ekki stillt mig um að mótmæla þeim tón, sem síldarútvegsnefndin sendi frá sér í þessu efni, vegna þess að hann er á þessu stigi, eins og málið er vaxið, óeðlilegur.