17.04.1968
Neðri deild: 100. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er flutt vegna hins alvarlega fjárhagsástands, sem ríkir hjá tryggingasjóði fiskiskipa vegna minnkandi tekna sjóðsins á s. l. 2 árum og þá alveg sérstaklega á árinu, sem leið, svo að við borð hefur legið, að fiskibátaflotinn stöðvaðist af þessum sökum. Frv. gerir ráð fyrir tekjuauka til handa sjóðnum, sem nemur 42 millj. kr. og er ætlunin að auka útflutningsgjald á þremur sjávarafurðum, þ. e. a. s. saltfiski humar og saltsíld, sem þessu nemur, og fá aðrir liðir, sem hingað til hafa notið tekna af útflutningsgjöldum, ekki þessa viðbótarhækkun til sín, heldur skal hún renna óskert til vátryggingasjóðsins. Ég hirði ekki um, nema sérstakt tilefni gefist til, að rekja þá sorgarsögu, sem orðin er um þennan sjóð, og ég hygg, að út af fyrir sig sé það ekki ágreiningsefni, að hann þurfi aukinna tekna við, heldur hitt, að mönnum kann að sýnast sitt hverjum um það, með hvaða hætti það er gert.

Þetta er sem sagt megintilgangur frv. Ég vil þó taka það skýrt fram, að þrátt fyrir þann tekjuauka, sem hér er um að ræða, er ekki leystur nema einn hluti þess vanda, sem hér er við að etja, og sýnt, að fleiri leiðir þarf að fara til úrbóta í þessum efnum, sem nú eru í athugun af þar til kvöddum mönnum, og væntanlega verður hægt að skýra frá því við síðari umr. málsins, hvaða hugmyndir koma helzt til greina.

Eðlilega hafa borizt mótmæli gegn þessu frv., svo sem öðrum tekjuaukafrv., en ég skal ekki heldur fara út í að ræða það við þessa umr. málsins, nema sérstakt tilefni gefist til, en ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.