19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til 2. umr., hefur verið til athugunar í sjútvn. þessarar virðulegu d., og leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ. með einni lítils háttar breytingu. Minni hl. hefur skilað sérstöku nál. og mun gera grein fyrir sínu máli.

Brtt. sú, sem fram er komin, er á þskj. 652 og er nánast orðalagsbreyting, því þar segir:

„Við 2. gr. 5. tl. orðist svo: Til rannsóknarstofnana sjávarútvegsins 0.99%“, en í frv. er sagt: Til byggingar rannsóknarstofnana sjávarútvegsins.

Hér áður var sérstakt útflutningsgjald, sem greitt var í byggingarsjóð rannsóknarstofnana sjávarútvegsins, en í gildandi l. er þetta orðalag, sem sjútvn. tekur upp og telur það nauðsynlegt, vegna þess að hér er um heimild að ræða til þess að greiða rekstrarkostnað, tækjakostnað o. þ. h., en á ekki að fara í sérstakan byggingarsjóð. Frá gildandi l. er sú breyt. í þessu frv. á 2. málsl. 1. gr. um viðmiðun á magngjaldi af freðfiskflökum, skreið o. fl. að það er lækkað úr 4.2% af hámarksútflutningsverðmæti í 3,5%. Önnur breyt. frá gildandi l. er sú, að lagt er til eftir frv., að 3,5% verði tekið af fob-andvirði af frystum humar og óverkuðum saltfiski, loðnumjöli og loðnulýsi. Samkvæmt gildandi l. er frystur humar og óverkaður saltfiskur með magngjald, en loðnumjöl og loðnulýsi er í 6%o flokki. Á árinu 1967 var veitt undanþága frá því, að þetta yrði greitt, og svo er einnig gert ráð fyrir í þessu frv. samkv. bráðabirgðaákvæði, að ekki verði innheimt gjald af loðnumjöli og loðnulýsi á árinu 1968. Hér er um nokkra hækkun að ræða frá því, sem er í gildandi l., því það var, eins og ég sagði áðan, magngjald bæði af frystum humar og óverkuðum saltfiski. Af frystum humar mun það vera 0,3% af aflaverðmæti, en af óverkuðum saltfiski hef ég talið, að það mundi vera nálægt 2%, þó það komi fram hjá kunnugum aðila, að það sé um 2½%, en að því kem ég síðar. Svo er samkv. 6. lið 1. gr. gert ráð fyrir, að útflutningsgjald af saltsíld hækki í 10% af fob-verði, en samkv. gildandi l. er það 6%.

Þá gerir frv. einnig ráð fyrir því, að þær tekjur, sem koma af þessum hækkunum, renni til vátryggingasjóðsins, til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa, samkv. reglum, sem sjútvmrh. setur, og er þetta umreiknað hér í frv. Það eru að sjálfsögðu lægri tölur til hinna ýmsu aðila heldur en í gildandi lögum, en þá er gengið út frá hærra útflutningsverði, sem er eðlilegt.

Það er nú þannig, að þótt meiri hl. n. mæli með því, að frv. verði samþ. eins og það kemur frá Ed. með þeirri breytingu, sem ég minntist á áðan, þá verður að segja það eins og satt er, að yfirleitt er náttúrlega ekki allt of mikil ánægja með hækkanir, en nauðsyn brýtur lög, ef svo mætti segja. Það er einmitt vegna þess, hversu miklum áföllum íslenzka þjóðarbúið hefur orðið fyrir í sambandi við sinn útflutning, að til þess þarf að koma, að útflutningsgjöld hækki í þeim tilgangi, sem ég minntist á áðan, þ. e. a. s. til þess að sjá vátryggingasjóði fyrir auknum tekjum. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, miðað við svipaðan afla og aflaverðmæti og var á s. l. ári, að þessi breyting gefi um 42 millj. kr. í auknar tekjur.

Vátryggingasjóður íslenzku fiskiskipanna var settur á stofn í þeirri mynd, sem hann er nú, á árinu 1961, og er það þannig, að iðgjöld hafa verið greidd af honum frá þeim tíma, en oftast nær hefur vantað nokkuð upp á, að hægt væri að greiða öll iðgjöldin, og hefur sérstaklega sigið á ógæfuhliðina nú á s. l. ári, þegar vantaði 95 millj. kr., til þess að tekjur og gjöld gætu staðizt á. Hv. Alþ. afgreiddi á s. l. hausti l. um ráðstöfun á gengishagnaði og þar var gert ráð fyrir, að 50–60 millj. kr. færu til vátryggingasjóðsins, en eins og sést af því sem ég sagði áður og einnig kemur fram í grg., þá vantar talsvert á, að séð sé fyrir nægum tekjum í sambandi við þetta fyrir s. l. ár. Ég vil hér til glöggvunar hv. þm. gefa stutt yfirlit yfir útkomu vátryggingasjóðsins frá því hann byrjaði 1961 og til þess tíma, og enn fremur áætlun fyrir 1968 og reyndar að nokkru leyti áætlun fyrir 1967. Á árinu 1961 námu gjöld 104,8 millj. kr., en tekjur það ár námu aðeins 44 millj., sem stafaði af því, að það var ekki fyrr en síðari hluta ársins, sem byrjað var að innheimta útflutningsgjöldin í þessu sambandi. Og árið 1962 námu gjöldin tæpum 123 millj. kr., en tekjur sjóðsins voru það ár 116,4 millj. Árið 1963 námu gjöldin 172,8 millj. kr., en tekjur það ár 132,2 millj. 1964 námu gjöldin 159,1 millj., en tekjur það ár 164,9 millj. Á árinu 1965 nam þetta 194,2 millj. kr. Það ár voru tekjurnar 194,5 millj., þannig að tekjur og gjöld stóðust á, og er það eina undantekningin á þessu yfirliti. 1966 námu gjöldin 208,4 millj., en tekjurnar 195,5 millj. Á árinu 1967 er áætlað, að gjöldin muni nema 220,7 millj., og eins og ég sagði áðan, eru tekjurnar aðeins 125 millj., svo að þarna vantar 95 millj. Og þrátt fyrir þá úrbót, sem fékkst í sambandi við ráðstöfun gengishagnaðarins, vantar þarna talsvert mikið á, að tekjur og gjöld standist á. Það er gert ráð fyrir því, að á árinu 1968, að öllu óbreyttu, muni gjöld hjá sjóðnum nema 273,9 millj. Það sjá því allir, að hér er við mikinn vanda að stríða og að ráðstafanir þarf að gera. Um það að farið var að innheimta útflutningsgjöld í sambandi við greiðslu á vátryggingagjöldum getur vissulega orðið ágreiningur, og hefur þegar orðið, en þetta hefur þó orðið til þess, að útvegur hefur gengið svona með minni umbótum heldur en hann ella hefði þurft að fá, ef þessi leið hefði ekki verið farin. Ég tel, að þótt það sé vissulega engin hrifning yfir þessu, sem ég vil koma að á eftir, þá sé þetta raunverulega svo stórt og veigamikið mál, og svo nauðsynlegt, mál sem ekki eingöngu snýr að eigendum fiskiskipanna, heldur einnig að sjómönnum og öðrum þeim, sem vinna að sjávarútvegsframleiðslu, bæði verkamönnum og öðrum, að þess vegna sé hér um hagsmunamál þessara allra að ræða, því að vissulega er það í þágu verkunarstöðvanna, að flotinn geti gengið og að hann sé tryggður. En ef unnið yrði áfram að þessum málum þannig, að alltaf breikkaði greiðslubilið hjá útflutningssjóði, mundi það ekki leiða til annars en að tryggingunum mundi verða sagt upp, enda hefur ósjaldan verið á það minnzt af tryggingarfélögum nú upp á síðkastið. Þegar á fyrstu árunum, sem þetta kerfi var við lýði, komu greiðslurnar venjulega svona sex mánuðum eftir á, nú eru þær orðnar upp í 10–11 mánuðum á eftir, og hefur þetta orðið til mikilla óþæginda fyrir útvegsmenn í sambandi við uppgjör á tjónum og öðru slíku, því að það hefur oft verið um það talað, og jafnvel komið til framkvæmda, að það yrði skuldajafnað í sambandi við iðgjöldin, þó að gert sé ráð fyrir, að vátryggingasjóðurinn greiði þau.

Ég vil benda á, að meiri hl. sjútvn. leggur áherzlu á það, að endurskoðun fari fram á þessu tryggingakerfi og reynt verði að lækka þennan útgerðarkostnað og er það áreiðanlega mikil nauðsyn, og hefur oft verið um það rætt, t. d. í sambandi við samningana um starfsgrundvöll fyrir vélbátaflotann eða fiskiskipaflotann á s. l. ári. Þá var sú breyting gerð, að hætt var að innheimta söluskatt, sem hefur verið innheimtur af þessu og nam á því ári 16–18 millj. kr., svo þar kemur strax til greina lækkun.

En það er fleira, sem þarf að gera, og væri einmitt æskilegt að mál, sem gæti orðið mjög til lækkunar á iðgjöldum bátanna, þ. e. í sambandi við björgunarlaunin, kæmi til kasta Alþ. Það er þannig, að á tveim þingum a. m. k., ef ekki þremur hefur verið borið fram frv. um það, að íslenzku varðskipin væru skylduð til að veita aðstoð fyrir hæfilega þóknun, án þess að þau tækju björgunarlaun, en hv. Alþ. hefur ekki afgreitt þessi frv., þó að þau hafi komið fyrir a. m. k. tvisvar sinnum. Það er mitt álit, að það sé nauðsynlegt að hafa þetta enn þá víðtækara og skylda öll íslenzk skip til þess að veita aðstoð fyrir hæfilega þóknun við björgun íslenzka skipaflotans, en að því verður að sjálfsögðu komið síðar.

Það er enn fremur fleira, sem þarf að gera en setja l. um björgunarlaun, og það er að endurskoða tjónagreiðslur og iðgjöld fiskiskipanna. Það er nú þannig, eins og ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. viti, að Samábyrgð Íslands ber skylda til þess að tryggja skip að 100 lestum, en það er ekki skyldutrygging á skipum yfir 100 lestir og eru þau yfirleitt tryggð hjá svokölluðum frjálsum félögum. Það verður að segjast eins og það er, að það er meira samræmi í þessum málum hjá Samábyrgðinni en öðrum. Skv. l. um Samábyrgðina verða skipin að vera virt a. m. k. annað hvert ár, en á skipunum, sem eru hjá frjálsu félögunum, fer ekki fram mat í hvert skipti. Svo hafa þau enn fremur greitt svokallaða kaskótryggingu, yfirhleðslutryggingu, og vélatryggingu, einnig á stærri skipunum, svo raunverulega er það þannig, að stærri skip hafi setið við betra borð en þau minni. Það hlýtur að koma til kasta Alþ. áður en langt um líður að endurskoða þessi mál í heild, og ég veit það, að það eru skiptar skoðanir um tryggingamálin yfirleitt, en mín skoðun er sú, að það mundi fara bezt á því, að það væri skyldutrygging á öllum skipum, öllum fiskiskipum að undanskildum togurunum, á sama stað. Svo gætu frjálsu félögin endurtryggt skipin að einhverjum hluta, og það mundi áreiðanlega vera mikið til bóta, að stefnt yrði að því, að tryggingin yrði sem mest hér innanlands, því að það er nú þannig, a. m. k. í sambandi við viðgerðir o. þ. h., að nokkuð mikið af því er náttúrlega vinna. En eins og er a. m. k. hjá frjálsu félögunum, mun mjög stór hluti af tryggingaráhættunni vera endurtryggður.

Ég skal ekki vera að hafa þetta mjög mikið lengra, en ég get þó ekki komizt hjá að skýra frá því, að mótmæli hafa borizt í sambandi við frv. þetta, þó að umsagna hafi ekki verið leitað. Það er nú svo, að það er yfirleitt auðvelt að mótmæla og þarf ekki alltaf að leita umsagna í sambandi við það. Ég ætla ekki að fara að lesa það upp, heldur aðeins minnast á það, að í fyrsta lagi mótmælir síldarútvegsnefnd harðlega þessu gjaldi, þessari hækkun á saltsíldinni, en eins og ég sagði áðan, nemur hækkunin um 4% af fob-andvirði saltsíldarinnar. Ég verð nú að segja það með fullri virðingu fyrir síldarútvegsnefnd, sem var nú verið að ræða um hérna áðan og verður væntanlega rætt um á eftir, að það er náttúrlega góðra gjalda vert, en það er ekki hlutverk síldarútvegsnefndar, finnst mér, í sambandi við þetta mál að taka þetta svona upp, því það er hlutverk síldarútvegsnefndar að sjá um sölu og fylgjast með framleiðslu á saltsíld o. s. frv. og einnig að sjá um það hvar aðalskrifstofan og skrifstofur n. eru o. þ. h., en þeir virðast hafa skrifað sjútvmrh. 29. nóv. í sambandi við málefni síldarútvegsins almennt og er þetta eiginlega í framhaldi af því, að þeir nota þetta tækifæri til þess að koma þessu á framfæri. Aftur á móti eru hér mótmæli frá báðum síldarsaltendafélögunum, sem má til sanns vegar færa, að séu náttúrlega meira á rökum reist, því að það eru hrein hagsmunafélög, þ. e. félag síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi og félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi. Þeir mótmæla þessu harðlega og telja, að framleiðslu saltsíldar sé stefnt í voða með því að setja svona hátt útflutningsgjald á saltsíldina.

Ég vil vona það, að þessi mótmæli félags síldarsaltenda, bæði Norður- og Austurlands og Suður- og Vesturlands, þýði það, að þeir geri ráð fyrir því, að saltendur þurfi að taka á sig hluta af hækkun á útflutningsgjaldi, því annars, ef þeir reiknuðu ekki með því, að það yrði þannig, hefðu þeir náttúrlega minni ástæðu til að mótmæla, ef það væri eingöngu um innheimtustarf að ræða hjá þeim frá sjómönnum og útvegsmönnum.

Það eru vissulega mótmæli, sem eru meira á rökum reist, finnst mér, mótmælin frá stjórn Samtaka síldveiðisjómanna, en þeir mótmæla þessu harðlega og telja, að framleiðslu saltsíldar sé stefnt mjög í voða og benda einnig á, hvernig afstaða Norðmanna er í þessu sambandi og hvað þeir gera, sem styrkja þetta í staðinn fyrir að við skattleggjum. Það sést á þessu, að sjómenn gera sér fulla grein fyrir því, eða þeirra forsvarsmenn í þessu félagi, að útflutningsgjaldið kemur við þá, svo og útvegsmennina sjálfa. Og er það að mínu viti alveg rétt. En þrátt fyrir það hefur n. ekki getað séð sér fært að breyta frv.

Að síðustu vil ég skýra frá mótmælum, sem hafa borizt frá stjórn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, en það var eins og ég skýrði frá áðan, að það er að mínu viti svona um 1½% hækkun miðað við fob-verð, en þeir telja, að það sé um 1%, því að áður var þetta magngjald, eins og ég sagði áðan.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín mikið fleiri. Sjútvn. þessarar virðulegu d. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem ég hef lýst, og þó að hér sé um mjög verulega hækkun á útflutningsgjöldum að ræða, sem eins og ég sagði, er engin ánægja með, er nú talið, að kunnugustu manna yfirsýn, að þessar þrjár greinar, sem hér eru sérstaklega skattlagðar, geti frekar öðrum staðið undir þessu. Það má benda á það í sambandi við saltsíldina og einnig humarinn, að það á eftir að verðleggja það fyrir sumarið, en aftur á móti var salfiskurinn verðlagður um s. l. áramót og þar kemur það náttúrlega dálítið verr við, og má segja, að það komi nokkuð í bakið á þeim mönnum, sem þar er um að ræða. En þrátt fyrir þetta er það nú þannig, að í okkar fjármagnslitla landi höfum við oft orðið að breyta útflutningsgjöldum og hækka þau. Það væri vissulega gott, ef fleiri stoðir rynnu undir efnahagslífið, sem gætu styrkt þær atvinnugreinar, sem þurfa á aðstoð að halda hverju sinni, en það er áreiðanlega öllum ljóst, sem hér eru inni, að vátryggingariðgjöldin verða að greiðast,svo að fiskiskipaflotinn geti gegnt sínu hlutverki. Ég vil einnig að síðustu leggja mikla áherzlu á það, að allt verði gert, sem mögulegt er, til þess að endurskoða tryggingarmálin og lækka þennan útgjaldalið, eftir því sem föng eru á.

Að síðustu vil ég svo segja það, sem ég byrjaði á, að meiri hl. sjútvn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem ég nefndi.