19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér til 1. umr. urðu svo að segja engar umr. um málið af annarra hálfu en hæstv. ráðh., sem talaði fyrir málinu örfá orð. Þessi háttur var á hafður með sérstöku tilliti til þess, að það var mjög þröngt um og þótti rétt að greiða fyrir því, að málið færi fyrir n. til athugunar. Það er því alls ekki óeðlilegt að nú, þegar málið kemur úr n., séu hér talsverðar umr. um þetta mál, því að hér er vissulega um allmikilsvert mál að ræða. En sé það svo, eins og oft vill verða, þegar þannig er staðið að málum, eins og gert er í þessu tilfelli, að aðalumræðan um málið getur eklci farið fram fyrr en komið er fram undir miðnætti og komið er að þinglokum, þá er erfitt að koma við eðlilegum umr. um málið. Þá vill það vera svo, að það er m. a. s. erfitt að halda hv. alþm. hér inni í þingsalnum til þess að hlýða á mál manna og þá ekki síður hæstv. ráðh., þó undan því sé ekki að kvarta nú, því að hæstv. sjútvmrh. er hér viðstaddur og hlýðir á mál manna.

Samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til að hækka útflutningsgjöld á sjávarafurðum allverulega frá því, sem verið hefur. Það er gert ráð fyrir því, að þessi hækkun mundi nema í kringum 42 millj. kr. á þessu ári. Út af fyrir sig gætu ýmsir álitið það, að þetta gæti ekki skipt öllu máli, þó að þessar álögur kæmu til viðbótar því, sem fyrir er, og auðvitað dettur mér ekki til hugar að halda því fram, að þessar álögur skipti hér öllu máli, þær ráði úrslitum um það, hvernig fer með rekstur sjávarútvegsins. En þessar till., sem felast í þessu frv., verða að athugast með hliðsjón af því, sem gert hefur verið í þessum málum áður og hvers eðlis þessar álögur eru, sem hér er um að ræða. Eins og allir hv. alþm. vita, þá er nú í nokkur ár búið að halda hér uppi því fyrirkomulagi að leggja á tiltölulega há útflutningsgjöld á sjávarafurðir í meginatriðum til þess að afla svonefndum vátryggingasjóði fiskiskipa tekna, og svo hefur verið tekið upp það skipulag að greiða meginhlutann af vátryggingariðgjöldum fiskiskipaflotans úr þessum sjóði. Það er sem sagt búið að koma þessu þannig fyrir, að hinar eiginlegu iðgjaldagreiðslur af vátryggingum eru teknar með sameiginlegu útflutningsgjaldi á öllum útfluttum sjávarafurðum, látnar renna í einn sjóð, og síðan eru vátryggingariðgjöld hinna ýmsu fiskiskipa greidd úr þessum sjóði. Það þurfti auðvitað ekki mikla spekinga til þess að sjá það, að þetta var stórhættulegt fyrirkomulag, og þetta fyrirkomulag braut í rauninni allar grundvallarreglur vátryggingakerfis, þær reglur, sem almennt hefur verið stuðzt við í vátryggingamálum. Ég hef margsinnis bent á þetta í umr. Alþ. á undanförnum árum og varað sterklega við þessu, því ég hef veitt því athygli, að þetta kerfi hefur þróazt með þeim hætti, að hér voru þessi mál að færast út í óefni. Nú játa allir að vísu, að þetta sé komið í óefni, en menn, sem þessum málum hafa ráðið á undanförnum árum, fyrst og fremst hæstv. sjútvmrh., hafa ekki sinnt aðvörunum í þessum efnum. Þeir hafa haldið kerfinu áfram. Þetta kerfi hefur leitt til þess alveg tvímælalaust, að vátryggingarkostnaður á fiskiskip á Íslandi er mun meira en helmingi meiri en í hliðstæðum tilfellum t. d. í Noregi, mun meira en helmingi hærri.

Ég ætla ekki að fara út í það í einstökum atriðum að skýra fyrir mönnum, hvernig á þessu stendur, en þó aðeins að drepa á það, m. a. vegna þess, að það hefur verið komið inn á það hér í þessum umr. fyrr, að vísu með nokkuð einkennilegum hætti. Hér var skýrt frá því í þeirri ræðu, sem hér var flutt næst á undan mér, að einn af þm. Alþfl. í Ed. hefði flutt þar allmerka ræðu um þessi mál. Sá þm. er útgerðarmaður og þekkir því talsvert til þessara mála af eigin reynd. Þó að mér væri ekki alveg ljóst eftir þennan lestur úr ræðu þessa hv. þm., hvað hann átti við með því, sem hann sagði, í öllum greinum, fór það þó ekki fram hjá mér, að þessi þm. var að skýra frá því, að mikil spilling hefði þróazt í sambandi við þetta vátryggingarkerfi á undanförnum árum. Hann var að skýra frá því, að þeir útgerðarmenn, sem fengið hafa vátryggingariðgjöld sín greidd úr þessum sjóði, hafi m. a. haft þann hátt á, að þeir hafi ekki aðeins framvísað við þann tryggingasjóð tjónbótareikningum, sem þeir áttu að fá greidda eðlilega samkv. tryggingaskilmálum, þ. e. a. s. að fá greiddar úr sjóðnum bætur fyrir raunveruleg sjótjón, heldur hafi þeir einnig látið þarna fylgja með ýmsa reikninga, sem raunverulega áttu að tilheyra viðhaldi og öðrum reksturskostnaði bátanna. Þetta kom fram í ræðu þessa þm. Alþfl., og ég skal bæta því við, að ég efast ekkert um það fyrir mitt leyti, að þetta er rétt. Þetta hefur verið að gerast. Ég skal svo bæta því einnig við, þannig að menn fái þá enn þá frekari skýringu á því, hvað þarna hefur verið að gerast, að það eru til mörg vátryggingafélög í þessu landi, sem öll hafa gjarnan viljað ná bátunum í landinu eða fiskiskipunum í landinu til sín, viljað fá einhvern viðskiptalegan hagnað af því að hafa skipin í tryggingu hjá sér. Og í þessari eðlilegu og frjálsu samkeppni við að reyna að ná í skipin til sín hefur það kannske komið fyrir í vissum vátryggingarfélögum, að aðilar þeirra hafa sagt við bátaeigendur: Ef þú kemur með skipið til mín, skal ég a. m. k. sjá um það, að það verði farið vel með þig í uppgjöri á tjónareikningum, því við sækjum greiðsluna fyrir tjónið í þennan sameiginlega sjóð hvort sem er. Og þegar eitt tryggingafélagið þykist hafa orðið vart við það, að annað gerði þetta, hefur hitt sagt sem svo: Til þess að ég haldi einhverjum viðskiptamönnum verð ég að hafa mig eitthvað í frammi líka.

Afleiðingarnar af þessu öllu saman hafa svo auðvitað orðið þær, að hinir erlendu aðilar, sem hafa endurtryggt tryggingar skipanna og hafa orðið að mæta hinum raunverulegu greiðslum, sem um var að ræða fyrir tjónabætur, þeir hafa smám saman hækkað vátryggingariðgjöld skipanna, eftir því sem tjónin höfðu hækkað á þeim. Og nú er svo komið, að fjöldamörg íslenzk fiskiskip þurfa orðið að greiða tryggingariðgjald, sem er yfir 10%. (Gripið fram í.) Já, og miklu hærra í sumum tilfellum, ég þekki einnig dæmi um það. Þetta er vitanlega með öllu óeðlilegt, að svona geti átt sér stað. Í einu tilfelli nú fyrir stuttu síðan vissi ég til þess, að eitt af vátryggingarfélögunum sagði upp vátryggingum á 11 skipum, vegna þess að þau voru öll komin, þessi skip, með vátryggingariðgjald, sem var komið nokkuð yfir 10%. En þegar málin voru komin út á þessar villigötur, var þetta sameiginlega tryggingarfélag farið að setja nokkra bremsu á það að borga ekki alla upphæðina. Og þá var vitanlega komið að því, að viðkomandi skipseigandi varð að borga til vátryggingarfélagsins nokkurn hluta af þessu háa tryggingargjaldi. Og þá stóð auðvitað á því, að útvegsmennirnir gætu borgað þennan hluta, og þá var bara sagt upp tryggingunni hjá þeim, þá vildu vátryggingafélögin ekki hafa þau lengur í viðskiptum.

Ég skal ekki fara lengra út í að útskýra þetta hér við þessa umr., en aðeins benda á þetta: Það var alveg augljóst mál, að þetta tryggingarfyrirkomulag, sem þarna var byggt upp með reglunum frá 1961, átti ekki rétt á sér. Það gat í mesta lagi komið til mála að hafa það í eitt eða tvö ár til bráðabirgða, en það varð að reyna að koma þessum málum fyrir á annan hátt til frambúðar. Á þetta benti ég margsinnis.

Það, sem er nauðsynlegt í tryggingarmálum, er m. a. það, að hver einstakur tryggingaraðili sé svo ábyrgður aðili, að hann finni það, að ef hann lætur tjón verða á eignum sínum æ ofan í æ, og það jafnvel að ástæðulausu eða ástæðulitlu, eða framvísar alveg óeðlilegum reikningum, þá bitnar það á honum sjálfum í hækkuðum iðgjöldum. Þetta lögmál hefur verið viðurkennt fyrir löngu síðan, og það verður að taka tillit til þess arna. En það, sem gerðist í þessum efnum, var það, að útgerðarmennirnir komust upp með það með aðstoð ríkisstj., þegar þetta kerfi var tekið upp, að koma raunverulega helmingnum af tryggingariðgjöldunum, sem þeir áttu að borga samkv. réttum hlutaskiptasamningum, koma helmingnum af kostnaðinum yfir á sjómennina sína, því að útflutningsgjaldið var tekið af óskiptu og þar með voru sjómennirnir, sem áttu helminginn af aflaandvirðinu, raunverulega látnir borga helminginn af vátryggingariðgjaldinu. Þetta þótti ýmsum útgerðarmönnum mjög girnilegt og þeir féllu fyrir þessu í upphafi og vildu gjarnan, að þetta yrði tekið upp, þetta kerfi, og ríkisstj. aðstoðaði þá til þess, þó að þetta væri í eðli sínu bæði ranglátt og heimskulegt. Og svo var einnig hitt, að forstöðumönnum vátryggingarfélaga þótti í byrjun ekki afleitt að hafa þetta kerfi, vegna þess að þá þurftu þeir ekki lengur að eltast við hvern einstakan útgerðarmann og rukka hann um iðgjöldin, en gátu gengið í þennan sameiginlega sjóð og töldu sig nokkurn veginn örugga með að fá öll iðgjöldin inn með þessum hætti. En auðvitað verða tryggingarnar að ganga þannig fyrir sig, að ef það eru mörg vátryggingarfélög, þá verða þau að hafa fyrir því að innheimta iðgjöldin hjá hinum ýmsu aðilum, sem þeir tryggja fyrir, þó að þeir hafi nokkurt erfiði af því. Þeir verða vitanlega að taka það á sig eins og aðrir, sem viðskipti eiga við fyrirtæki, enda ætla ég það, að þeir hafi ætlað sér kostnað sem þessu nemur í sambandi við sinn rekstur. En auðvitað vissu forystumenn vátryggingarfélaganna, að þetta kerfi var meingallað, og þeir hafa ekki dregið neina dul á það, og sérstaklega nú í seinni tíð láta þeir það alveg hiklaust uppi, að þetta kerfi fái ekki staðizt, það eigi ekki rétt á sér.

En þegar svo er komið, að þetta kerfi hefur reynzt svona illa og það gerir sig ekki upp sjálft, tekjurnar eru ekki nægar fyrir sífellt vaxandi gjöldum, þá hefur ríkisstj. sig ekki í það að breyta kerfinu, leggja það niður og taka upp nýtt. Hún sér ekki aðra leið en þá að hækka útflutningsgjöldin, halda lengra áfram út í fenið, en játar að vísu, a. m. k. ýmsir stuðningsmenn ríkisstj. játa, að nú verði „absolut“ að fara að taka málin til athugunar og endurskipulagningar. Þetta kerfi er auðvitað mjög óréttlátt í mörgum öðrum greinum en þeim, sem ég hef minnzt hér á. Þetta kerfi mismunar stórkostlega einstökum rekstrargreinum sjávarútvegsins. Það fer t. d. ekkert á milli mála, að togaraflotinn, sem er tryggður gegnum þetta kerfi, borgar miklu minna í þetta vátryggingarkerfi á hverju ári en hann tekur aftur út úr því. Þetta hafa allir vitað, sem hafa komið nærri þessu frá byrjun. Með því að sýnilegt var, að þau gjöld, sem togaraútgerðin greiddi í sjóðinn, hlutu að vera miklu minni en útgjöldunum fyrir togarana nam, þá voru menn alveg vísvitandi að reyna að færa fjármuni frá bátaútvegi landsmanna yfir til togaraútgerðarinnar. Ég fyrir mitt leyti viðurkenni það, að það þurfti á sérstökum stuðningi að halda við togaraútgerðina. En sá stuðningur átti alls ekki að fara fram með þessum hætti. Þessi leið var alröng. Og það er ekki aðeins, að þarna hafi verið um mismunun á milli bátaútgerðar annars vegar og togara hins vegar að ræða, heldur er hér einnig um stórkostlega mismunun að ræða á milli einstakra rekstrargreina sjávarútvegsins í öðrum tilfellum. Það er t. d. ekkert um það að villast, að síldarútvegurinn er nú látinn borga í þetta tryggingarkerfi margfalt hærri gjöld en aðrar greinar sjávarútvegsins. Útflutningsgjaldið af bræðslusíldarafurðum, af síldarlýsi og síldarmjöli er 8%. En það er eflaust innan við 2% t. d. af ýmsum þorskafurðum. Þar er um fastagjald að ræða. Nú er gert ráð fyrir því, að útflutningsgjaldið, sem að mestum hluta til rennur í þennan vátryggingarsjóð, það eigi að vera 10% á saltsíld.

Þannig hefur sem sagt verið byggt upp kerfi á undanförnum árum og er verið áfram að byggja upp mismununarkerfi þannig, að það er verið að leggja hér miklu hærri gjöld á vissar greinar sjávarútvegsins en aðrar. Þannig er verið að færa fjármuni hér á milli. Alveg tillitslaust. Einnig alveg tillitslaust til greiðslugetunnar á hverjum tíma. Aðeins sem dæmi núna t. d. vil ég nefna það, að það er gert ráð fyrir því í þessum l., að ekki skuli greiða núna í svipinn neitt útflutningsgjald af loðnuafurðum, þ. e. a. s. af loðnumjöli og því lýsi, sem kemur úr loðnunni. En hins vegar á að greiða 8% útflutningsgjald af síldarmjöli. Miðað við þá verðlagningu, sem nú er á loðnunni, gefur það svo margfalt meiri pening fyrir þær verksmiðjur, sem vinna úr loðnu, heldur en fyrir hinar, sem vinna úr síldinni, að það er ekkert sambærilegt. Það eru bara hreinir aular, sem halda, að það sé þörf á því að fella niður þetta gjald á loðnunni, borið saman við aðstöðu síldarinnar. Gjaldið er sem sagt ekki í neinu hlutfalli við greiðslugetu eða aðstöðu til rekstrar.

Þetta er líka mjög háskalegt, ef það á að halda þessu við í langan tíma.

Fyrir u. þ. b. tveimur árum síðan eða tæplega það var starfandi hér sérstök þn. skipuð mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum til þess að athuga nokkuð um rekstrarerfiðleika vélbátaútvegsins. Eitt af því, sem þessi nefnd athugaði, var m. a. þetta vátryggingarkerfi, og skal ég tilfæra hér nokkur atriði úr niðurstöðum þessarar n., en þarna var um að ræða 5 alþm. úr öllum stjórnmálaflokkum. Þeir urðu allir sammála um að senda frá sér þetta nál. Það kemur fram í þessu nál., að n. hafi látið athuga tekjur þessa vátryggingasjóðs á því tímabili, sem reikningar lágu þá fyrir um og hægt var að átta sig á, þ. e. a. s. á tímabilinu 1961–1965. Og síðan var þetta sundurliðað eftir því sem tök voru á af n. á nokkra helztu þætti útgerðarmála. Og n. komst að þeirri niðurstöðu, að á þessu tímabili hefði vátryggingarsjóðurinn fengið í tekjur frá togaraútgerðinni rétt rúmlega 55 millj. kr., en borgað vegna togaraútgerðarinnar á sama tíma ekki 55 millj., heldur 152,5 millj. Þá var athugað um hvalveiðiskipin. Tekjur, sem komu í þennan sjóð frá hvalveiðiskipunum, námu um 8,9 millj., en gjöld vegna þeirra voru aðeins 2,9 millj. Það er greinilegt, að þau lögðu nokkuð með sér í kerfið, og bátaflotinn sem heild hafði greitt af sínu flutningsgjaldi á þessu tímabili í kerfið 570 millj. kr. rúmlega, en allar greiðslur vegna bátaflotans úr kerfinu voru á sama tíma 562 millj. eða nokkru lægri en tekjurnar af bátaflotanum sem heild.

Þegar hitt er svo haft í huga, sem ég hef verið að greina frá, að sumar greinar bátaflotans borga greinilega miklu meira í kerfið en þeim her að réttum hluta, eru þær vitanlega að greiða þar með öðrum greinum. En aðalefni þessa frv. er sem sagt það, að nú er gert ráð fyrir því að hækka útflutningsgjaldið af saltsíld úr 6% upp í 10%, en í rauninni er það nú svo, að af saltsíldinni þarf að borga meira í útflutningsgjöld en sem nemur þessum 10%, sem þarna er rætt um. Hér er aðeins rætt um þetta hreina útflutningsgjald, sem svo er kallað, en svo eru bara önnur útflutningsgjöld af sömu vöru, sem renna í aðra sjóði, jafnvel alveg óviðkomandi viðkomandi grein. Þegar saman eru lögð þau raunverulegu útflutningsgjöld, sem greiða þarf af útfluttri saltsíld, t. d. að taka miðað við það gjald, sem reiknað er með í þessu frv., nema öll útflutningsgjöldin — þar með talið að vísu gjaldið til síldarútvegsnefndar, sem um leið er að nokkru leyti söluþóknun, en er fast gjald, sem tekið er af útflutningnum, — nema gjöldin af saltsíld rétt um það bil 14%. Hvar halda menn nú, að þeir finni fyrir á byggðu bóli slík útflutningsgjöld af framleiðslu eins og þetta? Hvergi nokkurs staðar. Hér er um svo fjarstæðukennda tölu að ræða, að það fer út yfir öll endamörk.

Miðað við þær upplýsingar, sem fram hafa komið hér í þessum umr., má orðið reikna með því, að greiða þurfi af hverri saltsíldartunnu — miðað við það verð, sem kom fram hjá þeim nm. úr síldarútvegsnefnd, sem hér talaði næstur á undan mér og þekkir þessi mál efalaust mjög vel, miðað við það verð, sem hann gat hér um á útfluttri saltsíld og reiknaði með sem meðaltalsverði — um það bil 217 kr. Síldarverðið til útgerðarmanna og sjómanna var á s. l. sumri 390 kr. miðað við uppsaltaða tunnu, sem er nú líklega heldur meira en útflutningstunnan er í reynd. Það er hæpið að tala um það að hráefnið í hverja tunnu sé þá mikið meira en 370–380 kr., en við skulum bara segja, að það séu 390 kr. Það er það verð, sem báturinn fær fyrir að sækja síldina, jafnvel svo hundruðum mílna skiptir út í haf, allur rekstur bátsins og öll launagreiðslan til allrar skipshafnarinnar. Ef maður einfaldar dæmið svolítið fyrir sér, kemur fljótlega í ljós, að miðað við það, að þetta frv. verði samþ., verða útflutningsgjöldin öll saman á hverja saltsíldartunnu a. m. k. jafnhá og aflahlutur allrar skipshafnarinnar er úr hráefnisverðinu. Það er orðið dálaglegt. Það hefur hingað til verið talið, að síldveiðisjómenn hefðu sæmilegt kaup. Þeir höfðu það á meðan bezt aflaðist. 12–14 menn eru á hverju síldveiðiskipi. Þeir eiga allir að fá álíka kaup fyrir það að veiða aflann og skila honum frá sér eins og tekið er af hverri saltsíldartunnu í samanlögð útflutningsgjöld. Svona geta engir menn haldið áfram að haga sér með skattlagningu aðrir en þeir, sem ekkert vita, hvað þeir eru að gera. Það er alveg óhugsandi. Þeir geta á örskömmum tíma drepið niður framleiðsluna með svona áframhaldi.

Nei, það var auðvitað orðið um það að ræða, að útflutningsgjöldin í þessum efnum voru orðin allt of há hjá okkur. Þau voru orðin allt of há, og það var ekkert vit í því að bæta þar við. Það var vitað, að sjómannastéttin í landinu var mjög óánægð með það fyrirkomulag að þurfa á þennan hátt að standa raunverulega undir vátryggingarkostnaði skipanna, vitandi það einnig, að það var verið að leggja á hana gjöld til að standa einnig að nokkrum hluta undir viðhaldskostnaði. Og að ofan á það allt saman skuli síðan bætt viðbótargjaldi til þess að gera aflahlut sjómannanna enn þá lakari en hann hefur verið, ganga enn á skiptakjörin sjómönnunum í óhag, þetta var auðvitað fádæma illa til fundið. Það þarf því engan að undra, þótt Samtök síldveiðisjómanna sendi hér til Alþ. hörð mótmæli gegn skattlagningu eins og þessari og vari sterklega við afleiðingunum af þessu. Og ég vil minna hæstv. sjútvmrh. á það í þessu sambandi og þá ríkisstjórnarmenn alla, sem að þessu ætla að standa, að þeir skulu kenna sjálfum sér um og engum öðrum, ef slys hlýzt af í sambandi við þessa skattlagningu. Það er enginn vafi á því, að sjómenn munu fylgjast vel með því í sumar, hvað verður ákveðið um síldarverðið, og það eru víst ekki miklar líkur til þess, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir, og allra sízt eftir þá hækkun á gjöldum, sem hér er verið að ákveða, að hægt verði að hækka verðið á hráefninu til söltunar, svo sem þó hefði verið nauðsynlegt að gera.

Nú vita allir það, að horfur með síldveiðar á komandi sumri eru mjög óvissar. Það sem menn vita er það, að horfur á því, að hægt sé að borga það bræðslusíldarverð, sem síldveiðiflotinn gerir kröfur um, eru mjög slæmar. Það er gefið upp af forystumönnum Síldarverksmiðja ríkisins, að miðað við það verðlag, sem við eigum nú við að búa á bræðslusíldarafurðum sé hægt að greiða í allra hæsta lagi 1.04 kr. fyrir kg af síld til bræðslu, þó miðað við það að síldarverksmiðjurnar fái ekkert í sinn hlut upp í afskriftir. En síldarverðið til bræðslu var á s. l. sumri 1.21 kr. pr. kg fyrir gengisbreytinguna. Getur nokkur maður búizt við því, að eigendur síldveiðibáta sætti sig við lægra verð fyrir síld til bræðslu eftir gengislækkunina heldur en það var fyrir gengislækkun? Og það því fremur þegar menn hafa nú það í huga, að á þessu tímabili hefur olíuverðið hækkað um 48%. Nei, það er alveg vitað mál, að eigendur síldveiðiskipa gera kröfur um að fá mun hærra verð en var gildandi í fyrra fyrir bræðslusíldina og hæstv. sjútvmrh. hlýtur að vita að það er enginn grundvöllur til í dag fyrir að borga þetta verð. Sá grundvöllur er ekki til. Það liggur einnig fyrir, að það hefur ekki verið samið við síldveiðiútgerðina, eins og um hafði verið talað, á hliðstæðum grundvelli eins og samið hafði verið við þorskveiðiútgerðina í byrjun vetrarvertíðar. Það framlag til stofnfjársjóðs, sem myndað hefur verið við fiskveiðasjóð með 124 millj. kr. framlagi, var miðað aðeins við þann afla, sem til fellur á þorskveiðum, en ekki þann afla, sem verður á síldveiðum. Það hafði nefnilega verið gert ráð fyrir því, að það yrði samið sérstaklega um rekstrargrundvöll fyrir síldveiðar, og það er ekki búið að semja um þann grundvöll, og útlitið er svona. En aftur á móti höfðu menn nokkrar vonir um það, að verðlagið á saltsíldinni væri þannig, að þar gæti verið um nokkra hækkun að ræða frá því, sem var á s. l. ári, í kr. talið, eftir gengisbreytinguna. Nú eru auðvitað talsverð afföll af því, þegar dæmið er reiknað til fulls, eins og kom m. a. fram í ræðu þess ræðumanns, sem talaði hér næstur á undan mér, en hann taldi nú, að sá hagnaður, sem yrði á saltsíldinni við gengisbreytinguna, færi að verulegu leyti aftur í aukin útgjöld. Ég skal ekki leggja dóm á það, hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér það nægilega. En það er enginn vafi á því, að það var mikil þörf á því að reyna að koma þessum málum þannig fyrir, að hægt yrði á næsta sumri og næsta hausti að hækka talsvert síldarverðið til söltunar, af því að þá var helzt möguleiki til þess frá því, sem áður hafði verið. Möguleikarnir til þess að hækka síldarverðið til bræðslu virtust ekki vera fyrir hendi, og það er ekki hægt að sjá, að þeir séu fyrir hendi. Við þetta bætist svo einnig það, að allar líkur benda til þess, að það þurfi að leggja í miklu meiri kostnað á næsta sumri til þess að ná í síld til söltunar á þeim tíma, sem æskilegast er að síldarsöltun fari fram, þ. e. a. s. í júlí- og ágústmánuði og í fyrri hluta septembermánaðar. Það eru allar líkur til þess, að ekki sé hægt að ná í hæfa síld til söltunar á þessum tíma, nema með ærnum tilkostnaði með því að sækja síldina langt norður í höf, og það verður ekki gert, nema fyrir það sé greitt. Það er með öllu vonlaust að ætlast til þess, að eigendur síldveiðiskipa eða skipshafnirnar á síldveiðiskipunum sæki síldina alla leið þangað norður, sem varð að sækja hana á s. l. sumri og komi henni söltunarhæfri til lands í einu eða öðru formi, án þess að fá eitthvað fyrir það umfram það verð, sem þeir hafa fengið fyrir þá síld, sem þeir hafa veitt tiltölulega nærri landinu. Það er alveg vonlaust að koma slíku fram. Og menn voru að gera sér vonir um það, að einmitt þá hækkun í krónutali á saltsíldinni sem gæti fengizt með gengisbreytingunni mætti nota að einhverju leyti í þennan aukna kostnað og örva þannig útgerð til þess að afla síldarinnar með þessum hætti, en þá kemur þetta gjald í veg fyrir það. Þá á að fara að skattleggja þetta sérstaklega — þessa síld sérstaklega — og spilla þannig þessum möguleika, sem gæti hæglega orðið til þess, að þessi síld yrði alls ekki veidd, þessi söltun færi alls ekki fram og að þjóðarbúið sem heild tapaði þarna miklu meiri fjárhæðum en þessi skattur nemur, sem hér er um að tala.

En ég veit það, að þeir eru til, sem segja — ég heyrði það á frammíkalli hjá hæstv. ráðh. hér fyrr í kvöld og heyrði það nú reyndar af vörum eins útgerðarmanns, sem hér á sæti á þinginu líka — segja sem svo: Ja, hvað átti að gera? Var betra að hafa síldarbátana alla saman bundna eða liggjandi í slipp, af því að þeir fengust ekki vátryggðir? Vátryggingakerfið var sprungið. Hvað átti að gera? Hæstv. ráðh. virðist ekki hafa séð neina leið aðra en þá að gefast upp, láta bátana liggja óvátryggða, af því að vátryggingakerfið var komið í þrot, eða þá að velja hinn kostinn að leggja skattinn á þessar útflutningsvörur. Jú, ég býst við því, að einhverjir útgerðarmenn hugsi einnig sem svo: Er nú ekki þetta þó skömminni skárra að fá vátryggingariðgjöldin greidd og þetta kerfi þá til þess að druslast eitthvað áfram, þó að maður þurfi þá að bæta þessum skatti ofan á? En svona eru auðvitað málin ekki, svona getur enginn talað um þessi mál, sem eitthvað þekkir til þeirra og til lausnar á þýðingarmeiri málefnum. Einfaldasta leiðin var auðvitað sú að mínum dómi að leggja þetta kerfi hreinlega niður, láta síðan aflaverðið hækka, því að það veitti ekki af því, og láta menn sjá um vátryggingariðgjöldin sín sjálfa. Það var langeinfaldasta leiðin. Hin leiðin er auðvitað sú að umskipuleggja kerfið, byggja hér upp nýtt vátryggingakerfi á heilbrigðum grundvelli, sem kemur í veg fyrir alla misnotkun og verður rekið á tiltölulega hagkvæmum grundvelli. Og þar á m. a. að fara eftir ráðleggingum tryggingarsérfræðinga, sem hafa gefið upp álit sitt á því, hvernig eigi að fara að í þessum málum. Eitt af því, sem er alveg tvímælalaust nauðsynlegt í þessum efnum, er að koma því þannig fyrir, að minni háttar tjón, sem mjög oft verða fyrir vanrækslu eða ónóga aðgát, eigi að greiðast af viðkomandi útgerðarmönnum sjálfum. Þannig er hægt að létta stórkostlegum gjöldum af því tryggingakerfi, sem upp er byggt. Og það er ekki að mínum dómi verið að færa þennan vanda beint yfir á útgerðarmennina sjálfa, nema í því formi, að þeir eru að hugsa betur en þeir gera um hina vátryggðu hluti í þessum efnum. Þetta er það, sem t. d. útgerðin í Noregi á við að búa. Það er nákvæmlega svona kerfi. En þeir fá heldur ekki út úr sinni athugun í þessum málum það, að tjónamesti staðurinn á öllu landinu og hættulegasti staðurinn fyrir flotann sé bezta höfnin í landinu, eins og hefur verið hjá okkur. Það er lygilegt, en svona er það. Hér hafa vátryggingafélögin reynt að spara sér fé með því að setja upp sérstakt aðgæzlufyrirkomulag til þess að reyna að passa þá báta, sem ekki var gætt að í beztu höfnum landsins. Og auk þess verður vitanlega að skapa það eðlilega aðhald, sem ég hef minnzt hér á áður, til þess að halda þessum málum í sæmilegum skefjum, þannig að þau verði ekki alveg óeðlilega dýr. Við eigum ekki að þurfa að búa við miklum mun hærri útgjöld af vátryggingu heldur en keppinautar okkar hér í nálægum löndum, ef sæmilega er að málunum staðið. Og sé ekki hægt eða treysti ríkisstj. sér ekki til að breyta þessu í þessa átt, er vitanlega um það að ræða, að það er ekkert kraftaverk fyrir ríkisstj. að útvega þessar 42 millj. kr. með öðrum hætti. Annað eins hefur hún gert. Vitanlega hefði ríkisstj. ekki síður getað lagt fram þessa upphæð með því að innheimta hana af einhverjum öðrum aðilum í þjóðfélaginu heldur en af útgerðinni sjálfri engu síður en hún hefur getað aflað fjár til fjölda margra annarra hluta, sem hún m. a. hefur verið að afla fjár til með sérstökum aðgerðum nú á þessu þingi. Ein leiðin var m. a. s. sú, að ríkisstj. tæki nokkurt lán til þess að dekka mestu vandræði sjóðsins, og ég sé ekki fyrir mitt leyti, að það hefði verið verra, þó að hún hefði gert það og lagt hér fram nokkurt lán í þessu skyni í bili, á meðan var verið að umskipuleggja þetta kerfi, heldur en hún tæki lán t.d. til byggingar á lögreglustöð hér í Reykjavík og til ýmiss konar annarra framkvæmda, sem hún hefur ekki talið eftir sér að afla lána til að ráðast í. Það þarf vitanlega ekki að segja mér það, að ríkisstj. hefði ekki fundið einhverjar aðrar og frambærilegri leiðir til þess að afla þessa fjár heldur en að fara þessa leið, ef hún hefði virkilega viljað. Nei, bátarnir þurftu ekkert að vera ótryggðir, þó að þessi hækkun ætti sér ekki stað. Það var vitanlega hægt að halda okkar fiskiskipaflota í fullri tryggingu, ef ríkisstj. hefði aðeins viljað afla teknanna með öðrum hætti. En nú hefur hún sem sagt valið þennan háttinn að leggja til, að sjómenn í landinu skuli leggja enn þá meira af sínu í vátryggingakerfið en þeir hafa gert og leggja svo til viðbótar nokkurn aukaskatt á útgerðina sjálfa.

Það er enginn vafi á því, að það er þegar komin upp mikil hætta á því, að það gangi illa á komandi sumri að fá sjómenn á síldveiðiflotann. Þetta vita allir þeir, sem eru kunnugir þessum málum. Tekjur síldveiðisjómanna féllu svo stórkostlega á s. l. ári, að fjöldinn allur, sem stundaði síldveiðar þá, fæst ekki til þess að fara á hliðstæðar veiðar aftur upp á óbreytt kjör. Sjómenn hafa því verið að gera ráðstafanir til þess að koma sér fyrir annars staðar og við aðra útgerð. Það er því veruleg hætta á ferðum í þessum efnum, og af þeim ástæðum tel ég líka mjög óhyggilegt að koma fram með till. eins og þessa, sem gerir þarna ráð fyrir því að raska þeim launagrundvelli, sem um hefur verið samið á milli útgerðarmanna og sjómanna áður. Og ég verð að segja, að ég lýsi undrun minni yfir því, að það skuli vera ráðh. Alþfl., sem stendur að því að flytja frv. um þetta efni, eins og þessum málum er fyrir komið.

En það er auðvitað alveg augljóst mál, að ríkisstj. hefur litið talsvert mikið öðruvísi á málefni útgerðarinnar í landinu heldur en málefni ýmissa annarra aðila, sbr. þær till., sem fram hafa komið frá henni á þessu þingi. Rétt eftir að gengislækkunin var samþ., kom hér fram frv. um það að ráðstafa áætluðum gengishagnaði, sem til félli vegna þeirra birgða, sem í landinu voru af sjávarafurðum, upphæð, sem talið var að mundi nema í kringum 400 millj. kr. Ætli hefði nú ekki mátt taka eitthvað af þessum 400 millj. og láta fremur þá í þetta vátryggingakerfi, sem hér er um að ræða, í staðinn fyrir það að láta þetta sem hreina gjöf til fiskveiðasjóðs, ríkasta sjóðsins, sem til er í landinu? Nei, þá leit bara ríkisstj. þannig á, að það þyrfti að taka þessa upphæð af útgerðinni í landinu, þessar 400 millj. kr. Hún gæti séð af þessari upphæð og ríkisstj. gæti ráðstafað henni til ýmissa hluta. Eða var kannske hæstv. sjútvmrh. þá ekki búinn að gera sér grein fyrir því, hvernig þessi sjóður stóð? Setti hann ekki þessar kröfur fram um þetta leyti? En það er ekki aðeins í þessu tilfelli. Þegar ríkisstj. nú fyrir stuttu síðan flutti hér frv. um það að spara nokkuð í útgjöldum ríkissjóðs á yfirstandandi ári, þegar ríkisstj. fór að sjá nokkuð að sér, gleymdi hún auðvitað ekki sjávarútveginum í þeim efnum. Hún var bundin samkv. lögum til að leggja fram úr ríkissjóði til fiskveiðasjóðs a. m. k. 40–50 millj. kr. Hafði nú verið áætlað á fjárl. að leggja fram 30 millj. kr. Þá fann ríkisstj. það út, að það væri nú hægt að spara á þessu. Hún felldi niður þessar 30 millj. kr., sem voru á fjárl. upp í þessa lögbundnu greiðslu til fiskveiðasjóðs, en tók svo hins vegar gegnum gengishagnaðinn ákveðna fjárhæð af útgerðinni og gaf fiskveiðasjóði hana. Hvað þýðir þetta í reyndinni? Þetta þýðir í reyndinni það, það má alveg eins segja það þannig, að ákveðinn hluti af gengishagnaðinum hafi á þennan hátt runnið í ríkissjóð. Ríkissjóður átti einnig að greiða samkv. lögum 11 millj. kr. til aflatryggingasjóðs, sem útgerðin greiðir fast árlegt framlag í, og það var auðvitað eitt af fyrstu ráðum ríkisstj. að spara á því að greiða þessa upphæð, spara á því að greiða hana. Þar átti sjávarútvegurinn í hlut. Þar var hægt að spara. Og nú fyrr á þessu kvöldi vorum við hér að fjalla um annað frv. frá ríkisstj., sem var breytingar á fiskmati ríkisins. Þar var um það að ræða, að ríkisstj. hafði fundið út, að það mundi vera hægt að spara á ferskfiskeftirlitinu. Þar væri hægt að spara nokkuð. Nú var málum þannig fyrir komið, að það hafði verið lagt sérstakt gjald á allar útfluttar sjávarafurðir til þess að standa undir kostnaði ferskfiskmatsins. Útgerðin borgaði kostnaðinn. En þá er flutt hér frv., sem segir: Við ætlum að spara á ferskfiskeftirlitinu, en ríkissjóður ætlar að taka gjaldið til sín og nota síðan gjaldið til þess að standa að verulegu leyti undir þeim kostnaði, sem ríkissjóður hefur staðið undir á undanförnum árum af sínum almennu tekjum. Þetta er það, sem hefur verið að gerast. Þetta er það, sem hefur verið að gerast hér í málefnum sjávarútvegsins. Og svo setja menn hér upp þann svip, að þeir séu í hreinustu vandræðum með það, hvernig hefði átt að útvega fjármuni upp á 42 millj. kr. handa þessu vátryggingakerfi. Auðvitað hefði ríkissjóður hæglega getað lagt þetta fram, en það er bara sama sagan í öllum tilfellum, það er raunverulega á beinan og óbeinan hátt verið að þyngja í sífellu álögurnar á þessari framleiðslu. Það er það, sem verið er að gera. Og það er verið að gera grundvöllinn veikari undir útgerðinni. Það er verið að gera það hæpnara, að hægt verði að fá sjómenn til starfa, það er verið að gera það hæpnara, að hægt verði að koma í verkun þeirri framleiðslu, sem veltur þó á öllu fyrir okkur að fá.

En það er, eins og hér hefur verið sagt, auðvitað með öllu gagnslaust fyrir mig og aðra að standa hér og ræða þessi mál. Það er búið að ákveða þetta, að þetta skuli fara í gegn. Maður er auðvitað að eyða hér kröftum sínum alveg hreint að óþörfu. Það skiptir hér engu máli, þó að maður gæti í rauninni sannfært með eðlilegum hætti alla þá stjórnarþm., sem hér sitja inni nú. Jafnvel þó að hægt væri að fá þá, svona a. m. k. í hliðarherbergjunum, til þess að viðurkenna það, að þetta væri allt saman heilagur sannleikur og svona sé þetta, þá verður engu breytt. Það er búið að ákveða allt. Þetta skal í gegn, hversu vitlaust sem það er. Það, sem menn gera þá aðeins á eftir, er það, að þegar þeir eru búnir að leggja gjaldið á, koma öllu í strand, setjast þeir að samningum við síldarútvegsnefnd. Þá kemur m.a. frsm. meiri hl., sem hér lagði það til nauðugur, að þetta gjald yrði nú samþ., form. Landssambands ísl. útvegsmanna, þá kemur hann í broddi fylkingar til ríkisstj., heimtar samninga af sjútvmrh. og segir: Það verður að vera einhver grundvöllur undir rekstri fiskiskipa á síldveiðunum í sumar. Jú, það er rétt, og ég veit, að hann verður að gera það. Og þá segir ríkisstj.: Það er alveg sýnilegt, að ástandið er þannig, að það verður að styrkja síldarútveginn. Þetta hét nú einu sinni að moka sandi í botnlausa tunnu. En það er, eins og ég segi, það er nokkurn veginn þýðingarlaust að vera að benda á þetta. Þessu verður auðvitað ekki breytt. Menn vilja halda áfram þessari hringavitleysu og þeir gera það eflaust. En ekki eru þetta hyggileg vinnubrögð.

Við erum tveir úr sjútvn., sem leggjum hér til, að þetta frv. verði fellt. Það þýðir að sjálfsögðu ekki það, að við viljum ekki leita með öðrum þm, að ráðum til þess að leysa þann vanda, sem við er að glíma í sambandi við þetta vátryggingakerfi eða vátryggingarmálefni fiskiskipaflotans. Ég fyrir mitt leyti er tilbúinn til þess að benda á ýmsar leiðir til þess að leysa þann vanda og þykist hafa gert það hér í þessum umr. Það er enginn vafi á því, að það er hægt. Og það er hægt að finna hér betri leið en þá, sem hér er stungið upp á. Það, sem hér skiptir þó mestu máli að mínum dómi, er það, að menn átti sig á því, að það er orðin knýjandi nauðsyn að breyta þessu vátryggingakerfi, taka þar upp nýtt skipulag. Dráttur á því má ekki verða mikill úr því, sem nú er komið. Mér er sagt, að orðið hafi á þessu ári hækkun, meðaltalshækkun á vátryggingariðgjöldum fiskiskipaflotans, sem nemur 39.5%. Þar í er að vísu innifalin hækkun, sem leiðir af gengislækkuninni, en svo til viðbótar hin árlega sífellda hækkun, sem hefur orðið á þessu kerfi. Hækkunin, sem ég nefni hér, 39.5%, er allt svo hækkun á iðgjöldum eða iðgjaldi hvers og eins. Hér er sem sagt ekki innifalin sú hækkun, sem kann að leiða af því, að um stærri flota er að ræða heldur en áður. Hér er aðeins um hækkun á iðgjöldum að ræða. Ég tel, að það skipti mestu máli, að menn átti sig á því, en haldi ekki lengur áfram út á þessar villigötur, sem þeir hafa verið á varðandi þessi mál á undanförnum árum. Og svo það, að það verði komið í veg fyrir stórfelldar hættur, sem geta vissulega leitt af því, að þetta gjald er lagt á með þeim hætti, sem hér er lagt til, því að vissulega er veruleg hætta á því, að til þess geti komið, að sjómenn rísi upp gegn þessum álögum og þoli ekki lengur þetta fyrirkomulag. Mín afstaða til málsins er sem sagt sú, að ég legg til ásamt hv. 2. þm. Reykn., að þetta frv. verði fellt.