19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það hefur nú verið gott samkomulag hjá okkur í stjórnarandstöðunni um sjávarútvegsmál í vetur í sjútvn. En það var nú þannig, að ég fór heim um páskana og var ekki þess vegna á fyrsta fundinum núna. Og ég er ekki alveg ánægður með sumt í málflutningi þeirra og langaði til að gera við það smávegis aths. En ég er nú ekki eins duglegur og hv. 4. þm. Austf., ekki eins þrekmikill að halda langar ræður án þess að það hafi neinn tilgang, þannig að ég skal nú ekki vera langorður.

En í fyrsta lagi vildi ég benda á þetta: Það er vitnað í einn útgerðarmann, sem hafi haldið ræðu í Ed. um þetta takmarkalausa svindl af hendi útgerðarmanna, skilst mér, að þeir séu að láta greiða allt mögulegt, sem ekki tilheyri tryggingunum. Þetta er bara ekki rétt. Þessi hv. þm. á nýjan bát og hann er ekki farinn að fá reynsluna. En kerfið er bara þannig, að við vinnum hreint ekkert við það að gera óeðlilegar tjónakröfur. (Gripið fram í: Hann átti nú annan bát þá.) Já, en hann seldi hann, þegar hann fór svolítið að eldast. En við vinnum bara ekkert við það, vegna þess að úr þessum sameiginlega sjóði er borguð ákveðin prósenta, við skulum segja 4% eða 4½%, það skiptir ekki máli. Ef það fer yfir þá prósentu, verður hann að borga það sjálfur.

Og ef það hækkar fram yfir það, hækka alltaf iðgjöldin, þannig að þú færð ekki eyri borgaðan í viðgerðum á bátnum. Það fer allt upp í skuldina, sem þú ert í við tryggingarfélagið, þannig að það er ekkert sem útgerðarmaðurinn þarf að forðast annað en það að verða fyrir tjónum. Það er þannig núna. Ég er búinn að ræða þetta mál við Jónas Haralz. Ég er búinn að ræða þetta mál við tryggingafélögin, og þetta er gerbreytt frá því fyrsta. Meðan enginn bátur var fyrir þetta, t. d. 4% í tjón, þá var það allt annað. Þá unnu menn við að koma því kannske upp að því, en þegar það fór upp fyrir það, urðu þeir að borga allt sjálfir, þannig að við skulum ekki vera að blekkja sjálfa okkur á þessu.

Í öðru lagi, það þýðir ekkert annað en líta raunhæft á hlutina. Við verðum að tryggja skipin, það þýðir ekkert að vera að tala um það, og það er bara á hvern hátt við eigum að gera það og það er alveg sjálfsagt að reyna að leita að sem allra hagkvæmustum leiðum, og ég get tekið undir það með þessum ræðumönnum, sem hér hafa talað, að þetta er stórmál. En það er bara dálítið flókið mál. Og þá er bara að deila um þetta, hvernig við eigum að taka það. Hv. 4. þm. — ég verð nú að athuga vel, hvort það er ekki áreiðanlegt, að hann sé 4. þm. Austf. hann var að tala um, að hver ætti að borga fyrir sig. Jú, þetta er alveg ágætt fyrir þá, sem eiga ný skip og hafa lág gjöld, en það er erfiðara fyrir hina, sem eiga eldri skip og dýrari tryggingu á ýmsan hátt. Og svo er ekki greiðslugeta allra jöfn. Og af því er nú samábyrgðin upphaflega tekin, að sumir gátu ekki greitt iðgjöldin af bátunum og hvað eiga þeir þá að gera? Að leggja bátunum bara eða selja þá? Það er ekki um annað að tala. Það má náttúrlega endalaust deila um þetta atriði. En einhvern veginn verðum við að fá féð. Ég hef allra manna mest talað á móti sköttum á útflutningsvörum, því að það er stórhættulegur hlutur og sannleikurinn er sá, að þegar kemur farmur af fiski á land, er náttúrlega þjóðin alveg í kringum þetta eins og hrafnar í kringum æti. Og frv. þetta er sniðið eftir því, að það er tekið mest af því, sem er hagstæðast verðið á eins og nú standa sakir. En það getur breytzt og þá verður þessu líka breytt. Við vitum það ósköp vel, að s. l. ár var hagstæðast verð á síld og saltfiski. Hitt er annað mál, að hér er náttúrlega tekið of mikið af síldarmjöli, því að verðið er lágt, á síldarlýsinu sérstaklega, en það virðist álitið, að síldarútvegurinn hafi borið sig betur og ég gæti vel gengið inn á, að hér sé gengið of langt gagnvart síldarútveginum. Ég taldi 25 skatta hér í fyrravetur, sem lagðir eru á útveginn. Ég skal hjálpa vini mínum, hv. 4. þm. Austf., til að losna við alla þessa skatta, nema burt sumt af þessum sköttum, því að þetta er það eina, sem er virkilega nauðsynlegt fyrir okkur og kemur okkur raunhæft til góða. En svo skal ég hjálpa honum til þess að þurrka út — eða ég skal styðja hann í því — hvern einasta skatt annan. Vill hann afnema launaskattinn? Vill hann afnema gjaldið til atvinnuleysistryggingasjóðsins? Vill hann afnema aðstöðugjöld til bæjarfélaganna, sem lögð eru á útgerðina þótt hún tapi o. s. frv.? Þetta eru óteljandi skattar. Sýslumennirnir heimta marga skatta. Náttúrlega er útgerðin hætt að borga þessa skatta, af því að hún getur það ekki. Og þá er bara spurningin, hver á að borga tryggingargjöldin og hvernig eigum við að taka það? Við erum ekkert að blekkja okkur á því, skipin verðum við að tryggja.

Þá er annað réttilega tekið fram sennilega, að af nágrannalöndum okkar eru hæst tryggingargjöld hér. Athugum, hvers vegna það er. Það er ekkert sambærileg aðstaða, sem Norðmenn hafa með hafnir og veðráttu eða við. Þetta er eitthvert allra ókyrrasta svæði, sem til er. Þegar þeir eru að veiða síldina í sumar norður undir ís, þá er bara stillt, hvessir einu sinni. En þegar þeir nálgast Ísland, þá er alltaf sífellt rok, enda vitum við það, að þegar ísinn er lagztur hér að norðurströndinni, þá koma stillur. En ég ætla nú ekki að fara út í veðurfræðina, því að það er of flókið mál. En þetta er bara svona. Hitt er það, að hafnirnar eru ákaflega misjafnar. Og svo komum við bara að aðalatriðinu, og það er það, að það er svona þriðjungi eða jafnvel helmingi ódýrara að fara með skipin til Færeyja eða Noregs og láta gera við þau þar. Vill Lúðvík Jósefsson vinna að því? Það er einfaldlega hér, að meðan eftirspurnin var mikil eftir vinnunni, þá var hreinlega um hrein vinnusvik að ræða og svindl hjá slippunum. Þegar boðin var út viðgerð á bát hjá mér í vetur, hann varð fyrir slysi, þá munaði það 5 millj., það var þrefalt gjald hjá einum slipp í samanburði við annan. Mér var sagt, að þegar mest var eftirspurnin eftir vinnunni hérna, þá hefðu þeir verið að spila. Þeir voru að spila á kvöldin og nóttunni, og svo var allur tíminn skrifaður. Sá, sem sagði mér þetta, var maður, sem var sjálfur í vinnu. Það var hann einn, sem kom og fór að vinna í skipinu, og það komu engir aðrir og hann skildi ekkert í þessu. Svo varð honum reikað þarna niður í borðsalinn, og þá voru félagar hans þar bara að spila og hundskömmuðu hann fyrir að vera að vinna. Það er nefnilega svoleiðis svínað á manni í vissum tilfellum, að það tekur engu tali. Og svo ef við sögðum eitthvað, þá væri okkur bara sagt að þegja: Við vinnum þá bara ekkert fyrir þig.

Annað er hreint skipulagsleysi, sem er í þessum slippum. Það er búið að hrúga upp ótal slippum núna, það er komið eitt slippfélagið enn, og ekkert er skipulagt í landi voru. Þegar þurfti að gera við bátinn hjá mér, bárust 21 tilboð. 21 voru þeir, símandi og galandi, vildu fá vinnuna, höfðu ekkert að gera. Eins og það sé nú vit í þessu.

Sama má segja um síldarsöltunarstöðvarnar. Það er nú dálítið spaugilegt náttúrlega, þegar síldarsaltendur mótmæla þessum skatti. Þingmenn eru nú gáfumenn yfirleitt og langt fyrir ofan meðallag, og það er ábyggilega enginn maður svo heimskur í þessu þingi, að hann haldi yfirleitt, að síldarsaltendur hugsi sér að borga fimmeyring af þessu. Ætli þeir hafi nú ekki einurð á, þegar þeir fara að verðleggja síldina, að koma með það að borga útflutningsgjöldin? Þeir hafa yfirleitt ekki gleymt því. Og þarna prútta þeir og prútta, þannig að ef síldarsöltun gengur sæmilega, er þetta stórgróði. Hitt er svo annað mál, að þeir éta hver annan upp, því að þegar þeir halda, að einhver græði, er þetta komið bara eins og aragrúi út um allt og allt skipulagslaust hjá stjórninni okkar, nema bara verkefnið hjá bankamálaráðherranum, það er vel skipulagt.

Ég tel, að hún sé í raun og veru ein fíflska, þessi framkvæmdaáætlun öll saman, og svo var það hörmulegasta, að þegar farið var að vinna fyrir ríkið, hætti fólkið að vinna, að hugsa um að vinna, bara að fá mikið kaup fyrir sem minnsta vinnu. Þetta er mikið farið að lagast, en þó er það engan veginn orðið gott. Og af hverju er það miklu ódýrara að fara með skipin? Þeir, sem geta það, fara bara með þau út og láta gera við þau þar. Það er bara, að annaðhvort kunnum við ekki vinnutæknina eða við höfum ekki áhuga á að gera þetta fljótt og vel. Og þetta er bara alveg að drepa okkur. Og enn annað. Þegar þeir eru að tala um, að alltaf séu að aukast þessi iðgjöld, er það bara það, að það er alltaf að fjölga tækjunum í skipunum. Jón Héðinsson eða hvaða númer hann er nú, 5. landsk., hann er að tala um þetta svindl og að menn ljúgi til um að tækin bili. Í fyrsta lagi er ég búinn að sýna fram á, að við bara græðum ekki fimmeyring á því, ef iðgjöldin hækka. Og það er bara, að Jón er ekki búinn að fá reynsluna og Lúðvík gerir ekki út neinn fiskibát. Það er hreint enginn, sem gerir út bát hér, nema ég og Jón, og ég hef bara haft eldri bát og veit þetta þess vegna. Þið vitið, að ég græði ekki fimmeyring á því, og af tjónabótunum hjá mér t. d. í fyrra verð ég að borga helminginn sjálfur, helminginn sjálfur, og þó borgaði ég tryggingunum meira en þeim bar, en ég verð að borga hluta af tryggingariðgjaldinu. Og hvað vinn ég í raun og veru þá við að reyna að gera þetta hærra? Borga það allt sjálfur. Það náttúrlega þýðir ekki að telja gáfuðum þm. trú um svona vitleysu. Þeir vita hvernig kerfið er. Þetta var svolítið hættulegt fyrst, en það er alveg búið að myndast móteitur gegn svindlinu.

Þá var hann að tala um slit á tækjum, sem væri svindlað inn. En það er bara þannig, að þegar tækin fara að slitna, og svo brotnar eitthvað, þá er ekki svo auðvelt að skera úr því, hvort það hefur brotnað vegna þess að það hafi verið slitið eða ekki. En það er bara staðreynd að þegar þetta hækkar, bótagreiðslurnar, þá verð ég að borga það allt sjálfur, þannig að ég vinn ekkert við það, þegar tækin fara að slitna, að koma því á tryggingarnar nema bara að vissu marki. Hitt verð ég að borga sjálfur, því að það er ekki borgað úr sameiginlegum sjóði. Nei, það þýðir ekkert annað en taka þetta raunhæft. Og ef ég fengi einhverju að ráða í þessu þingi, sem ég hef nú yfirleitt ekki fengið — ég hef bara gefið góð ráð einstaka sinnum og þau hafa verið lítils metin — teldi ég að eini liðurinn, sem við gætum tekið hér út úr, væri framlagið til fiskimálasjóðsins. Út af fyrir sig er þetta endalaus plága á atvinnuvegunum að leggja í þessa blessaða sjóði, því að það er lítið til að lána, eins og ég er nú nýlega búinn að skýra frá, í þessum bönkum og annað það, að þegar vel veiddist fóru þeir nú að bjóðast til þess að leggja svolítið í byggingu fiskirannsóknaskips. Það má deila um, hvort mætti taka það. Þó er það nú dálítið erfitt. En það væri hægt að fella niður svona 4.98% af heildarupphæðinni, það svarar til u. þ. b. 1/4 af útflutningsverðmæti, og lækka þá á síldinni aftur.

Ég skal nú játa það, að mér hálf ofbýður þetta með saltsíldina og ekki vitglóra í því að miða við þetta háa síldarverð, sem var í fyrra, heldur hagstætt verð. Annars væri nú ekki vitglóra í því og er kannske engin vitglóra í því, maður veit ekki, hvernig salan gengur. En við þurfum ekki að ímynda okkur, að síldarsaltendur fari að taka þetta á sitt bak, nei, ónei. Það kemur ábyggilega á bátana og þar með á sjómenn og útgerðarmenn. Nú, það má náttúrlega deila um þetta út af fyrir sig, að sjómenn borgi þetta. En þeir eru nú ekki allt of feitir, útgerðarmennirnir, og ef þetta er fellt niður og sjómenn eiga að fá sömu prósentu af brúttóaflanum, ja, hvar á útgerðarmaðurinn að taka þann hluta? Og ef þetta ættu að vera eitthvað óbreytt hlutföll, mundi bara prósenta sjómanna lækka, ef heildarverðið hækkaði á þann hátt, að þetta væri fellt niður, frv. væri fellt og þetta yrði fellt niður. Þá yrði bara að lækka prósentuna, sem sjómennirnir fá.

Það má endalaust deila um skiptinguna milli báta og sjómanna, og það náttúrlega verður eins og alltaf, þegar verið er að deila um fjármuni, að það vill hver ota sínum tota. Annars vil ég nú taka það fram um sjómenn, að ég hef ekki þekkt menn, sem eru skilningsbetri á kjör útgerðarmanna en einmitt sjómennirnir. Þeir fylgjast með, hvenær lítið veiðist og hvenær illa er borgað og eru ekki aðgangsharðari en þeir þurfa að vera, þegar erfiðleikarnir steðja að. Útgerðarmaðurinn fær ekki meiri samúð hjá neinum en sjómönnunum, því að þeir vita, hvað er að gerast. Og ég hef aldrei haft neina löngun til að halla á þá, en við skulum ekkert vera að blekkja okkur á þessu, að féð verður að taka einhvers staðar, og það er vel, ef við getum fundið einhverja hagkvæmari leið í þessum tryggingamálum og þó sérstaklega að bæta vinnutæknina, þegar gert er við eitthvað, taka fyrir svindlið. En einhvern veginn verður að borga tryggingagjöldin, annað er útilokað, þannig að ég get ekki greitt atkv. á móti þessu frv., ég get ekki lagt til, að það sé fellt. Við getum ekki samið nýtt frv. héðan af eða gert neitt í þessu. Og það er algert greiðsluþrot hjá tryggingafélögunum, þau geta alls ekki borgað tjónabætur. Það er svoleiðis, að þau hafa ekki ráð á 10–15 þús. kr. stundum. Þau eru alveg þrotin. Og það er þetta, að þau draga halann á eftir sér. Þau eru sem sagt óstarfhæf yfirleitt. Og það er ekki hægt að ganga að þeim, það er ekkert til að selja. Þess vegna verður með einhverju móti að bæta þetta, og þyrfti að taka stórlán líka. Það er í raun og veru engin mynd á öðru en borga tryggingagjöldin, að bátarnir borgi tryggingagjöldin þannig að sé ekki langur hali, þannig að bankarnir vinna bókstaflega ekkert við þetta, vegna þess að þetta skapar vanskil hjá þeim. Það er miklu betra að greiða fyrir því að fá lán, að þessi sameiginlegi sjóður, fái lán. Svo erum við látnir borga alveg toppvexti af þessu — ég veit ekki, hve hátt það er — af skuldinni, sem er bætt á útgerðarmennina og þeir verða að borga sjálfir. Svo þegar þeir koma með sínar tjónakröfur, jú, þetta gengur allt upp í skuldina.

Það er alveg óviðunandi ástand núna. Það vita þeir, sem vinna að tryggingunum, gersamlega. Stórskuldir eru færðar hjá útgerðarmönnunum og þeir eru látnir borga fulla vexti af þeim og tryggingafélögin algerlega óstarfhæf vegna fjárskorts, þannig að þó að við samþ. þetta frv. — og ég væri fús til að breyta því og fella niður framlagið til fiskimálasjóðs, vegna þess að það er engan veginn allt þarft, sem þar er lánað, það væri hægt að komast af án þess, svona smáfokk stundum, og lækka á saltsíldinni — þá væri kannske hægt að lækka það ofan í 8%. Það vildi ég gjarna, en ég kem ekki með neina brtt., því að ég veit, að hún verður felld, svo að það þýðir ekkert. Þessir flokkar geta ekki dreifzt, þeir eru búnir að taka afstöðu til mála, það þarf að halda nýjan flokksfund og þinga um það í fleiri klukkutíma eftir breytinguna. Ég nenni ekki að vera að því, en fyrir mitt leyti væri ég fús til þess, ef það væri vegur að lækka eitthvað saltsíld.

En þetta er óviðunandi ástand í tryggingafélögunum og það er brýn nauðsyn að taka mál til viðbótar við það, sem fæst úr gengismismuninum, og með þessari breytingu, ef það fæst eitthvað með henni, og greiða skuldirnar við tryggingafélögin og gera þau starfhæf og losa útgerðarmennina við þær vaxtabyrðar, sem þeir verða núna að greiða af skuldahalanum, eftir því sem mögulegt væri.