31.10.1967
Neðri deild: 11. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

29. mál, sala Hóls í Ölfusi

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var flutt á síðasta þingi, en var þá seint fram komið og varð ekki útrætt og er nú endurflutt að efni til óbreytt. Efni þess er samkv. 1. gr., að farið er fram á heimild til handa ríkisstj. til að selja frú Markúsínu Jónsdóttur, ábúanda jarðarinnar Egilsstaða í Ölfusi, eyðijörðina Hól í sama hreppi. Meðmæli hreppsnefndar Ölfushrepps liggja fyrir og eru prentuð með frv. sem fskj. og hljóða þannig, með leyfi forseta:

„Hreppsnefnd Ölfushrepps mælir með því, að eiganda og ábúanda á Egilsstöðum í Ölfusi, Markúsínu Jónsdóttur, verði seld eyðijörðin Hóll, sem, er eign ríkisins og ein af jörðum Arnarbælistorfunnar.

Jörðin hefur ekki verið í ábúð um langan tíma, en nokkur hluti hennar (túnið) hefur verið nytjað frá Egilsstöðum. Tún jarðanna eru samliggjandi. Er því eðlilegt, að jörðin sameinist Egilsstöðum, enda Egilsstaðir seldir úr Arnarbælistorfunni á sínum tíma.“

Þetta er undirritað af Hermanni Eyjólfssyni, oddvita Ölfushrepps.

Ég gerði grein fyrir frv., þegar það var lagt fram á síðasta þingi og sé ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri, en leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.