29.01.1968
Efri deild: 47. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

29. mál, sala Hóls í Ölfusi

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja eyðijörðina Hól í Ölfusi í Árnessýslu, sem hér liggur fyrir til umr., er komið frá Nd. og fékk þar þá afgreiðslu, sem frv. ber með sér, var samþ. þar. Landbn. hv. Ed. hefur athugað þetta mál, og eins og nál. á þskj. 229 ber með sér, mælir n. með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta frv. Það hefur fengið athugun í báðum deildum, en þó er vert að geta þess, að Arnarbæli í Ölfusi hefur, sem kunnugt er, verið mikil og góð bújörð í langan aldur, þó að nú sé skipt um þar á þeim stað, þar sem búrekstur á jörðinni hefur fallið að mestu niður, en búseta og búskapur hefur haldizt á nokkrum þeirra jarða, sem undir staðinn lágu. Meðal þeirra er jörðin Egilsstaðir í Ölfusi. Þar er búið núna snotru búi á ekki stórri jörð, og eins og yfirlýsing hreppsnefndarinnar í Ölfushreppi ber með sér, sem prentuð er sem fskj. með frv., hefur á allmörgum undangengnum árum tún eyðijarðarinnar Hóls verið nytjað frá Egilsstöðum til stuðnings við búskapinn á þeirri jörð. Hóll hefur um langan aldur verið í eyði og er lítil jörð. Það þykir því einsætt þeim, sem þetta mál skoða, að það beri að styrkja búskaparaðstöðuna á Egilsstöðum með því að verða við beiðni ábúandans um það að fá eyðijörðina Hól keypta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta nál. eða lagafrv. í heild, en eins og nál. ber með sér, leggur landbn. til, að frv. verði samþ. óbreytt.