06.11.1967
Efri deild: 12. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

36. mál, umferðarlög

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 36 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á umferðarlögum nr. 26 frá 2. maí 1958. Breyt. er við 5. gr. l., þar sem talin eru upp þau öryggistæki, sem vera eigi í bifreiðum, og gengur frv. út á það, að í lok þeirrar upptalningar verði bætt við nýjum staflið svo hljóðandi: „Öryggisbelti fyrir ökumann og farþega í framsæti.“ Ég vil leyfa mér með örfáum orðum að gera grein fyrir þessu frv., hvers vegna það er flutt og hvað ætlazt er til, að náist með flutningi þess og samþykkt.

Það er vitað, að í mörgum nágrannalöndum okkar Íslendinga hefur það mjög farið í vöxt, að ákveðið sé með lögum, að í bifreiðum skuli vera öryggisbelti fyrir ökumann og farþega. Þetta er byggt á þeirri reynslu, að með vaxandi umferð og fjölda ökutækja hafi slysahætta stóraukizt, með vaxandi umferðarhraða hafi slysin enn fremur með ári hverju orðið alvarlegri og alvarlegri, þannig að menn sjá nauðsyn þess að gera ráðstafanir til þess að draga úr þeim hættum, sem þeim eru samfara. Ég hef hér undir höndum talsverð gögn, sem sanna þetta. Ég mun ekki þreyta hv. þdm. á því að gera grein fyrir nema mjög litlu af því, en er fús til þess að afla þeirri n., sem væntanlega fær frv. til meðferðar, allra þeirra hjálpargagna, sem hún telur þörf á, en mig langar til þess að minnast á, til þess að sýna þetta, aðeins eina rannsókn, sem mér er kunnugt um niðurstöður af. Það er rannsókn, sem Volvo-verksmiðjurnar létu fara fram í Svíþjóð á s. l. ári. Volvo-verksmiðjan hefur sérstakt tryggingafélag og það er á vegum þess tryggingafélags, sem þessi rannsókn hefur farið fram. Það voru rannsökuð 28 þús. bílslys í Svíþjóð. Þau voru rannsökuð við sérstaklega hagstæðar aðstæður, vegna þess að tryggingafélagið tók að öllu leyti þátt í rannsókninni og aðstoðaði á allan hátt við hana. Þess vegna verður að taka á henni mjög mikið mark.

Það kemur í ljós við þessa rannsókn, að flest slysin eða meðalslys gerist við aðeins 30 km hraða á klst. og kostnaðurinn við viðgerðir og slíkt er um 11 þús. ísl. kr. Í þessum 28.780 bílslysum lentu 42.813 manns, þ. e. a. s. 28.780 ökumenn, 8.731 farþegi í framsæti og 5.302 farþegar í aftursæti. Það kom fram við þessa rannsókn, sem menn höfðu raunar lengi vitað, að hættulegasta sæti í bifreiðinni er framsætið við hliðina á bifreiðarstjóranum. Það sýndi sig vera 50% hættulegra heldur en bílstjórasætið miðað við 50 km hraða á klst. og 22% hættulegra miðað við 100 km hraða á klst. Aftursætin eru ekki nærri eins hættuleg í þessu sambandi, þó að ég hirði ekki um að geta um þær tölur, sem þessi rannsókn sýndi. En skipting slysanna samkv. þessari rannsókn varð svona: Bifreiðarstjórarnir voru, eins og ég áður sagði, 28.780. Af þeim voru 76% án öryggisbeltis, en 24% með belti. Af þessum 76%, sem voru án öryggisbeltis, dóu 37, 263 meiddust mikið, 835 meiddust lítið, en í þeim tilfellum þar sem öryggisbelti var notað, sem voru 24% af heildartölunni, dóu 2, 51 meiddist mikið og 175 meiddust lítið. Má sjá af þessu, að notkun öryggisbeltanna hefur geysilega mikið dregið úr slysahættunni. Farþegar í framsæti voru 8.731. Af þeim voru 71% án öryggisbeltis og niðurstöður rannsóknarinnar eru þannig, að farþegar í framsæti létust 12, 160 meiddust mikið, 439 meiddust lítið, en í þeim tilfellum, þar sem öryggisbelti var notað, lézt 1, 22 meiddust mikið, en 109 meiddust lítið. Þessi rannsókn var einnig látin ná til skiptingar meiðslanna eða slysanna, og niðurstaðan af þeim rannsóknum sýnir það, að þegar um höfuðkúpubrot er að ræða, lækkar slysaprósentan um 69% fyrir ökumanninn en 88% fyrir farþegana í framsætinu. Alvarlegir andlitsáverkar minnkuðu um 43% hjá ökumanni, en 83% hjá farþega og alvarlegir brjóstáverkar minnkuðu um 29% fyrir ökumanninn og 59% fyrir farþega í framsætinu. Eins og ég sagði áðan, eru þetta þau tvö sæti, sem hættulegust hafa reynzt fyrir þá, sem lenda í umferðarslysum, bifreiðastjórasætið og framsætið, og það frv., sem hér er lagt fram, er í samræmi við það og með hliðsjón af þeirri niðurstöðu miðað við það, að þessi skylda nái í fyrstu lotu a. m. k. aðeins til þeirra, sem sitja í þessum sætum í bifreiðinni, þ. e. a. s. ökumanns og farþega í framsætinu.

Það mætti náttúrlega tilgreina margt fleira til rökstuðnings þessu. T.d. var það lögleitt þann 1. apríl s. I. í Bretlandi að slík öryggistæki skyldu vera í bifreiðum. Þeir fóru nokkuð öðruvísi að heldur en hér er lagt til. Þeir lögðu til að lögfesta öryggisbeltin í áföngum, þannig að skyldan næði aðeins til þess, að beltin væru í nýjum bifreiðum, sem teknar væru í notkun eftir gildistöku laganna. Þessi lagasetning í Bretlandi átti sér kannske ekki hvað sízt þær forsendur, að samtök bifreiðaeigenda í því landi, AA, lögðu mjög mikla áherzlu á að fá þennan öryggislið samþykktan, og í dreifibréfi, sem ég hef undir höndum frá þeim samtökum, segir svo um notkun þessara belta, með leyfi hæstv. forseta. Ég skal ekki lesa nema brot af því, sem þar segir:

„Hættan á því að lenda í umferðarslysi verður meiri með degi hverjum, eftir því sem fjöldi bifreiðanna á vegunum vex. Ýmsir ábyrgir aðilar hafa verið að rannsaka leiðir til að draga úr umferðarslysum, og því hefur nú verið slegið föstu, að öryggisbeltin eru það, sem bezt dugar í því efni. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar á vegum British Road Research Laboratory sýna, að beltin geta minnkað um 80% dauðaslys og önnur meiri háttar slys þeirra, sem í bifreiðinni eru. Önnur öryggistæki, eins og t. d. höfuðpúðar, geta verið þýðingarmikil, en geta þó aðeins verið hjálpargögn með sjálfum öryggisbeltunum.

Nú á dögum er auðvelt að koma fyrir öllum tegundum öryggisbelta á ódýran hátt, þar sem nærri því allir nýbyggðir bílar hafa innbyggðar festingar. Séu þær ekki fyrir hendi, tekur það auðvitað lengri tíma að bora nauðsynlegar holur og festa beltin, en það er þó á engan hátt erfitt. Nákvæmar leiðbeiningar fylgja með frá framleiðendum og allir geta farið eftir þeim. Það er sem sé hvorki dýrt né erfitt að koma þessum beltum fyrir“, segir þetta viðurkennda blað brezku bifreiðaeigendanna.

Það er vitað, að þeir læknar, sem helzt hafa orðið að taka við fórnardýrum umferðarslysanna, hafa lengi lagt ríka áherzlu á það, að þessi öryggistæki yrðu tekin í notkun. Ég hef ekki hér við hendina skriflegar yfirlýsingar frá íslenzkum læknum, sem ganga í þessa átt, en ég hef átt tal við nokkra þeirra og þeir hafa allir lýst sig mjög samþykka því, að þessi belti yrðu tekin í notkun. En ég hef hér undir höndum viðtal við danskan lækni, sem birtist í tímariti dönsku bifreiðaeigendanna, Motor, þann 28. f. m., það er sem sagt viku gamalt. Þetta viðtal er við prófessor dr. med. Jörgen Dalgård og hann er forstöðumaður Retsmedicinsk Institut í Århus. Með leyfi forseta ætla ég að geta um aðeins örlítið af því, sem hann segir í þessu sambandi:

Ég ek aldrei meira en 200 m án þess að spenna öryggisbeltið. Ég hef öðlazt sérstaka reynslu af þeim kringumstæðum, sem verða, þegar slys ber að höndum, vegna þess að starf mitt hér við stofnunina er einmitt að hluta fólgið í því að rannsaka dauðaslys vegna umferðaróhappa. Gegnum þetta starf mitt hef ég algerlega sannfærzt um það, að notkun öryggisbelta er það, sem allra bezt reynist til að draga úr slysahættunni. Ég hef séð ótal manneskjur láta lífið á meiningarlausan hátt, þar sem notkun öryggisbeltis hefði í sumum tilfellum án efa og í öðrum tilfellum a. m. k. mjög líklega getað komið í veg fyrir banaslys. Öryggisbeltin geta auðvitað ekki hindrað öll meiðsli, en þau geta komið í veg fyrir þau verstu og dregið úr öðrum. Öryggisbeltin tryggja fyrst og fremst að farþeginn hendist ekki til og hindra það yfirleitt, að ökumaður skelli fram á stýrið, en það hefur í mjög mörgum tilfellum haft hinar alvarlegustu afleiðingar. Þá getur notkun beltanna mjög oft orðið til þess, að fólk missi ekki meðvitund og verði þannig sjálft fært um að bjarga sér út úr samanklemmdum eða brennandi bíl, þannig að björgun er ekki alveg eins háð því, hversu fljótt utanaðkomandi hjálp kann að berast. Ég mæli eindregið með notkun beltanna í innanbæjarakstri einnig, vegna þess að árekstrar geta valdið óþægindum og meiðslum, jafnvel þótt hraði ökutækjanna sé ekki mikill.“

Og þetta staðfestir það, sem ég áðan vitnaði til í rannsókn Volvo-verksmiðjanna sænsku um það, að meðalhraðinn í umferðarslysunum er yfirleitt ekki mjög hár.

Í sama blaði er einnig vitnað í viðtal við forstöðumann augnsjúkdómadeildarinnar á ríkisspítalanum danska í Kaupmannahöfn. Hann segir að þangað komi vaxandi fjöldi sjúklinga með hræðilegar augnskemmdir, oft og tíðum bæði augun skorin af framrúðu bifreiðarinnar. Þessi slys segir hann að gerist oftast í borgunum og flest þeirra við minni háttar umferðaróhöpp. „Öllum þessum slysum hefði mátt afstýra, ef öryggisbelti hefðu verið notuð“, er haft eftir yfirlækninum á ríkisspítalanum danska, augnsjúkdómadeildinni, dr. med. Jens Edmund. Og hann bætir því við, að það séu sérstaklega farþegar í framsætum bifreiðanna, eins og að líkum lætur, sem fyrir þessum slysum hafi orðið.

Ég hygg því, að það sé fyllilega sannað, að í fyrsta lagi sé vaxandi hætta á umferðarslysum og í öðru lagi séu menn sammála um, að þau öryggisbelti, sem hér um ræðir, séu það heppilegasta, sem fram hafi komið til þess að draga úr alvarlegum afleiðingum þeirra. Þetta er ekkert nýtt mál fyrir okkur Íslendinga, notkun öryggisbelta. Félag ísl. bifreiðaeigenda hefur nokkrum sinnum a. m. k. ályktað um öryggismál og oft minnzt á þessi belti. Ég hirði ekki um að rekja þetta mjög langt aftur. Ég hef ekki upplýsingar um það. Það má vera, að ályktað hafi verið um þetta eitthvað fyrr, en ég ætla að leyfa mér að vitna til stefnuyfirlýsingar þessa félagsskapar frá 21. jan. 1966, en þar segir svo um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Unnið verði að því að taka öryggisbelti bifreiða í almenna notkun hér á landi. Í því skyni er eðlilegt, að tollur verði felldur niður á öryggisbeltum.“

Aftur er vikið að þessu atriði á landsfundi, sem stjórn FÍB hélt með umboðsmönnum félagsins 19.–20. nóv. 1966. Þar segir svo, að öryggisbelti verði almennt notuð í bíla. Fundurinn telur, að nauðsyn beri til þess að lækka toll á ýmsum hlutum tilheyrandi öryggisútbúnaði bifreiða og vill í því sambandi sérstaklega benda á nauðsyn þess, að naglar í snjódekk og öryggisbelti verði sett í lægsta tollflokk og að settar verði reglur um það, að fólksbifreiðar verði ekki fluttar til landsins öðruvísi en það séu festingar fyrir öryggisbelti og einnig e. t. v. öryggisbelti í þeim, þegar þær koma til landsins. Enn er þetta áhugamál félagsins áréttað í ályktun, sem gerð var á fyrsta landsþingi félagsskaparins í Borgarnesi 23.–24. sept. s. l. Þar segir:

„Þingið bendir á, að mikilvægt atriði til varnar slysum er það, að settar verði reglur um, að fólksbifreiðar, sem fluttar verða til landsins, verði með öryggisbeltum, öryggisstýri og tvöföldu hemlakerfi og að öryggisbelti verði sett í lægsta tollflokk.“

Þannig er það ljóst, að bifreiðaeigendum hefur verið það allríkt í huga undanfarið 1–1½ ár að koma þessari öryggisráðstöfun á framfæri. Þeir hafa að vísu viljað binda hana nokkrum skilyrðum. Þeir hafa viljað gera þessi öryggistæki ódýrari til þess væntanlega að vekja almennari áhuga fyrir þeim og gera uppsetningu þeirra auðveldari. Ég skal ekki um það segja, hversu mikið félaginu hafi orðið ágengt í því að fá menn til að taka upp notkun öryggisbeltanna af frjálsum vilja. Ég hygg þó, að það sé ekki mjög mikið enn, sem komið er. Að vísu mun vera talsvert um þessi tæki í nýjum bifreiðum hér, en ég hygg, að notkun þeirra sé næsta óalgeng enn sem komið er, og þó að sá áróður og kynning, sem haldið hefur verið uppi fyrir þessi öryggistæki, hafi ekki fengið hljómgrunn enn sem komið er a. m. k. og ég hygg, að það mundi taka alllangan tíma að vinna þessu öryggistæki fylgi, ef það ætti einungis að styðjast við frjálsa kynningu og áróður, ef það mætti kalla svo göfugt málefni því ljóta nafni. En það er þess vegna, sem ég hef ráðizt í það að flytja frv. um, að lögfest verði þetta öryggisform.

Það er auðvitað ekki nóg að hafa beltin í bílunum. Það þarf líka að kenna fólki að nota þau og tryggja það, að þau verði notuð, svoleiðis að eftir lagasetninguna sem áður, þó að hún kæmist á, er auðvitað mikið verk óunnið í þessu sambandi, verk, sem ég tel víst, að Félag ísl. bifreiðaeigenda mundi ganga vel fram í að vinna, þ. e. að kynna fólki þessi öryggistæki og útskýra fyrir því, hversu mikið öryggi er fólgið í notkun þeirra. En ég held, að án lagasetningar eða einhverra aðgerða af opinberri hálfu eigi það mjög langt í land, að notkun beltanna verði almenn og mér finnst, að það sé svo mikið í húfi fyrir okkur öll að koma í veg fyrir slysin og draga úr hinum hörmulegu afleiðingum þeirra, að einskis eigi að láta ófreistað í því skyni.

Það hefur verið nokkuð fjallað um kostnaðarhlið þessa máls, og þær ályktanir, sem ég vitnaði hér í áðan, virðast benda til þess, að hér væri um nokkurn kostnaðarauka að ræða, kostnaðarauka, sem kannske væri það mikill, að hann gæti haft áhrif á það, hvort menn hyrfu að þessu ráði eða ekki. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef nú getað aflað mér um kostnaðinn við þessi öryggisbelti, vil ég nú segja, að mér finnst hann næsta léttvægur í þessu sambandi. Vitanlega fylgir þessu þó nokkur kostnaður, því er ekki að neita. Ég hef ekki getað aflað upplýsinga um verð á slíkum öryggisbeltum víða. Ég hef þó hér við hendina upplýsingar um kostnað á enskum öryggisbeltum, sem ég hygg, að séu nokkuð góð. Þau eru a. m. k. af þeirri gerð, sem tímarit bifreiðaeigenda víða hafa talið heppilegust, þ. e. a. s. á þessum beltum, sem almennast er hallazt að núna, eru þrjár festingar í bifreiðunum, þriggja festinga belti mætti kalla þau eða eitthvað slíkt. Algengasta tegund þessara belta, sem nota má í flestar gerðir bifreiða, kostar 383.30 kr. stykkið með tolli og álagningu og sem sagt öllum kostnaði, og þá er gert ráð fyrir, að aðstaða fyrir festingu sé í bílnum. Vanti hana, verður náttúrlega verðið eitthvað hærra. Ef beltin eru hins vegar flutt inn með bílunum, kostar slíkt öryggisbelti í amerískum bíl skv. upplýsingum véladeildar SÍS 335.25 kr. stk. Hvort heldur sem er, 335.25 eða 383.30, hygg ég, að menn geti orðið sammála um, að hér sé ekki um að ræða verulegan kostnaðarauka við kaup bifreiða, sem kosta þetta frá 200–400 þús. kr. algengar tegundir. Ég hygg, að enginn, sem lætur sig þessi mál einhverju varða, geti talið það frágangssök að bæta kannske allt að 1000 kr. við verð bifreiðarinnar, ef með því fæst, eins og ég held fram, stórkostlega aukið öryggi fyrir alla þá, sem hana nota. Svo kostar það auðvitað eitthvað að setja þessi belti í. Ég hef nú ekki upplýsingar um það héðan að heiman, hvað það muni kosta, en ég hef séð áætlun frá dönsku fyrirtæki, sem framleiðir slík belti og lætur setja þau í, og ekki bara áætlun, heldur auglýsingu, þar sem þeir bjóðast til að setja beltin í fyrir 15 kr. danskar, ef aðstaðan er fyrir hendi, en 30 kr. ella. Ef við gætum unnið það á sambærilegan hátt, mundi þetta kosta frá 100–200 kr. á hvert belti, og þá kemur út úr þessu dæmi kostnaðarauki á hverja bifreið, miðað við það, sem frv. gerir ráð fyrir, vegna tveggja öryggisbelta á kr. 383 hvort, sem er eitthvað um 770 kr. og svo 200–400 kr. viðbótarkostnaður við að setja beltin í, og þá held ég, að dæmið sé nú auðreiknað. En hver sem kostnaðurinn væri, hvort sem hann væri nú þessi eða e. t. v. eitthvað minni, ef ríkisvaldið vildi kom til móts við þetta mál með því t. d. að lækka eitthvað tolla á þessari vöru, er það ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er auðvitað öryggið, sem hér er stefnt að.

Þegar ég var að reyna að koma þessu frv. saman, vaknaði auðvitað sú spurning, hversu langt ætti að ganga í þessa átt í fyrstu lotu. Víðast hvar í nágrannalöndum okkar munu þessi belti eiga að vera fyrir alla farþega, sem í bifreið eru. En ég hef lagt hérna til, með hliðsjón af því, hversu slysahættan eða meiðslahættan er stórkostlega meiri í framsætunum og með hliðsjón þá af því, að mönnum kynni kannske að vaxa kostnaðurinn nokkuð í augum, að aðeins yrði stefnt að því að koma beltunum fyrir í tveim sætum bifreiðarinnar til að byrja með — tveim framsætum bifreiðarinnar. Það mátti líka hugsa sér að fara að eins og gert var í Bretlandi, að taka þessi öryggistæki í notkun í áföngum. Ég vil segja það, að fyrir mér er það ekkert aðalatriði, hver af þessum leiðum farin verður, og sjái t. d. hv. n., sem fær málið til athugunar, ástæðu til að setja lög í einu formi frekar en öðru og breyta eitthvað frá því, sem ég hef lagt til, er ég að sjálfsögðu fyllilega til viðtals um það, því að um þetta má deila.

Ég skal svo láta þetta nægja, að sinni a. m. k., um þetta mál. Það má segja, að hér sé ekki um stórt mál að ræða. Hér er vafalaust um það að ræða, sem hv. Alþ. mundi kalla smámál, en þegar betur er skoðað, leynir málið dálítið á sér. Það snertir sjálfsagt flesta. Það veit enginn um það, hver næst lendir í bifreiðarslysi. Bifreiðin er hér orðin almenningseign, flestir heimilisfeður eiga bifreið og allir Íslendingar nota hana að meira eða minna leyti.

Ég hef lagt til, að gildistaka laganna yrði miðuð við breytinguna á umferðinni frá vinstri til hægri, þ. e. að lögin taki gildi þ. 26. maí n. k., en þá á, eins og kunnugt er, að fara hér fram sú mikla og nokkuð umdeilda umferðarlagabreyting. Það er auðvitað sjálfsagt að gera allar þær ráðstafanir, sem hægt er, til þess að sú breyting geti farið sem allra bezt fram og að óhöppin verði sem allra fæst. Ég hef orðið þess var og við allir, að ýmsir óttast nokkuð, að talsverð slysaalda muni rísa hér, þegar þessi breyting á sér stað. Ég er nú ekki þeirrar skoðunar. Ég hef þá trú, að ef breytingin verður vel og heppilega undirbúin, rækilega kynnt, muni hún ekki verða til þess að auka umferðarslysin, a. m. k. ekki í fyrstu lotu, og þessa trú styður náttúrlega óneitanlega reynslan frá Svíþjóð, þar sem umferðarslysunum fækkaði verulega við það, að breytingin varð. Þeim hefur vafalaust ekki fækkað vegna breytingarinnar, heldur vegna þeirrar miklu kynningar á umferð, sem átti sér stað í sambandi við breytinguna. Ég er á því, að það sé þörf á því fyrir okkur að fá slíka aukna kynningu um umferðarmál, alveg án tillits til þess, hvort henni fylgir breyting úr vinstri umferð í hægri. En hvaða álit, sem menn hafa á þessari breytingu, hvort sem menn eru hræddir við aukinn slysafaraldur af hennar völdum eða ekki, hygg ég, að menn geti sameinazt um það, að allar öryggisráðstafanir beri að viðhafa, og ég vil vona, að þetta atriði, notkun öryggisbelta, verði að dómi hv. alþm. eitt af þeim atriðum, sem til eigi að koma.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að málinu verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.