19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

36. mál, umferðarlög

Frsm. (Magnús H. Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 287, fjallar um breyt. á umferðarl. nr. 26 frá 2. maí 1958. Þetta frv. er upphaflega flutt í Ed. af hv. 11. þm. Reykv., Einari Ágústssyni, og það er, eins og það var í byrjun borið fram, ákaflega stutt og laggott eða þannig, að á eftir stafl. j í 5. gr. l. komi nýr stafl., k, svo hljóðandi: Öryggisbelti fyrir ökumann og farþega í framsæti. Og 2. gr.: Lög þessi öðlast gildi hinn 26. maí 1968.

Allshn. Ed., sem fékk þetta mál til meðferðar, breytti því nú lítils háttar, færði það kannske eins og eitthvað frekar út og víkkaði það svolítið, en efnislega held ég, að ekki sé hægt að segja, að breyt. hafi í sjálfu sér verið nein, og allshn. Nd., sem fjallaði um þetta mál hér í þessari hv. d., hefur lagt frv. hér fram eins og það kom frá hv. Ed., óbreytt.

Frv. er, eins og ég sagði áðan, um það, að sett verði í bifreiðar öryggisbelti fyrir ökumann og farþega í framsæti, og það er ætlazt til þess, að undir þetta falli allar fólksbifreiðar, jeppar, sendiferðabifreiðar, kennslubifreiðar og bifreiðar, sem leigðar eru út, án þess að ökumaður fylgi. Það er ætlazt til þess, að þau öryggisbelti ein verði tekin gild í þessum tilteknu tilfellum, sem Bifreiðaeftirlit ríkisins veitir sína viðurkenningu.

Upphaflega var svo til ætlazt, eins og ég gat um áðan, að þessi lög öðluðust gildi 26. maí n.k. eða hinn margumtalaða H-dag, en þeim n., sem um þetta hafa fjallað, þótti þessi frestur til gildistökutímans vera of skammur, þannig að niðurstaðan varð sú, að l. skyldu ekki öðlast gildi fyrr en 1. jan. 1969, eða sem sagt um n. k. áramót. Og enn fremur það, að þær bifreiðar einar, sem skráðar væru eftir þann tíma, eftir n. k. áramót, féllu undir þessi ákvæði, þannig að bifreiðar, sem skráðar eru áður koma ekki til með að þurfa að vera með öryggisbelti fremur heldur en þá, að mér skilst, þeim bílstjórum, sem þær eiga og þeim aka, sjálfum gott þykir.

Það er talað um, að þetta sé aðeins bundið við ökumenn og farþega í framsæti. Það þótti ekki rétt að hafa það víðtækara. Hins vegar mun það svo erlendis, þar sem þetta hefur verið tekið upp — og það er töluvert víða og sífellt í vaxandi mæli — að þá mun þetta yfirleitt gilda um alla þá sem í bifreiðinni eru, bæði ökumann og alla farþega, og að sjálfsögðu er það öruggara. En það þótti hins vegar ekki rétt að fara lengra út í þetta hér heldur en láta það taka til ökumanns og farþega í framsæti, enda má víst segja með töluverðum rétti, að þessir aðilar séu í enn þá meiri hættu en aðrir farþegar í bifreiðinni, þegar árekstrar verða á annað borð.

Það var leitað umsagnar ýmissa þeirra félaga, sem ætla mátti, að hefðu eitthvað til þessara mála að leggja og fengið álit þeirra á þessu frv. Það var leitað umsagnar Félags ísl. bifreiðaeigenda, Framkvæmdanefndar hægri umferðar, Slysavarðstofu Reykjavíkur, Bifreiðaeftirlits ríkisins, Slysavarnafélags Íslands, Sjóvátryggingafélags Íslands, Samvinnutrygginga, Hagtryggingar og umferðarlaganefndar. Engin svör bárust frá tveimur þessum aðilum, Hagtryggingu og umferðarlaganefnd, en á hinn bóginn bárust svör frá öllum hinum og þau hnigu öll í þá átt að mæla með þessari breytingu.

Það mun nú þegar vera búið að taka þetta upp í ýmsum bifreiðum hér á landi, þó að þær séu að sjálfsögðu miklu færri en hinar, enn sem komið er. En það er fullkomin ástæða til að hvetja bifreiðarstjóra til þess samt sem áður, þó að þeir séu ekki bundnir af neinni lagaskyldu í þessum efnum, að taka upp notkun öryggisbelta, því að það hefur sýnt sig, þar sem reynsla er fengin á þessu erlendis, að það hefur mjög dregið úr slysahættu að taka upp þessi öryggisbelti. Þau eru líka tiltölulega ódýr, þannig að kostnaðurinn ætti ekki að fæla neinn frá því að taka þau upp, enda er það nú svo sem betur fer, að við Íslendingar erum ekki enn komnir á það menningarstig, að okkur þyki hæfa að fjargviðrast út af fjármunum eða kostnaði, þegar um er að ræða að bjarga mannslífum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vil aðeins að lokum taka það fram, að allshn. er einhuga um samþykki sitt við þetta frv.