18.03.1968
Neðri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

146. mál, ættaróðul

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Lagaákvæði þau um óðalsrétt, sem nú gilda, eru að mestu frá 1943, lög nr. 116 30. des. það ár, og endurnýjuð síðan með l. um ættaróðul og ættarjarðir og erfðaábúð og sölu þjóð- og kirkjujarða nr. 102/1962. Tilgangur þessara l. er m. a. sá að koma í veg fyrir, að góðar bújarðir gangi kaupum og sölum og lendi máske í höndum manna, sem meiri áhuga hafa fyrir öðru heldur en búskap. Þó er höfuðtilgangur þeirra sá að tryggja erfingjarétt til jarðar eftir tilteknum reglum og um leið að jarðarverð verði ekki hærra en það, þegar hann tekur við jörðinni, að honum sé tiltölulega auðvelt að standa undir því. Þá eiga l. að koma í veg fyrir það, að erfingjar geti gert kröfu um, að bújörð skiptist í fleiri staði, þegar eigendaskipti verða og erfðir eru gerðar upp. Þegar á þetta er litið, sést, að sá óðalsréttur, sem hér um ræðir, getur stuðlað að því, að sama ætt sitji bújörð langtímum saman. Er það á vissan hátt góðra gjalda vert og mundi valda nokkurri festu í búsetu manna á jörðum af sömu ætt. Hins vegar fylgir sá galli þessum l., að höfundar þeirra hafa ekki gert ráð fyrir eins miklum breytingum á öllum hlutum og orðið hafa nú um 20–30 ára skeið. Þess vegna horfa nú flestir hlutir nokkuð öðruvísi við heldur en var fyrir 20–30 árum. Bújörð, sem þá var talin fullgild til búsetu og eftirsóknarverð, er nú máske orðin allt önnur að því leyti. Hana getur vantað ræktunarmöguleika og hana getur vantað aðstöðu til þess að komast í samband við rafmagn og eins er að segja um samgöngukerfið. Þetta þekkja allir og þarf að sjálfsögðu ekki um það að ræða hér. Þó er annað, sem enn meiri örðugleikum veldur nú, ef óðalseigandinn verður að yfirgefa jörð sína. Fasteignamat það, sem er í gildi nú, mun vera a. m. k. 5–10 sinnum lægra að krónutölu heldur en það var að gildi, þegar l. voru samþykkt. En l. gera frávikalaust ráð fyrir því, að gildandi fasteignamat sé notað eða við það miðað, þegar eigendaskipti og ábúendaskipti verða á þessum jörðum. Eftir l. á fráfarandi að ráðstafa jörð sinni í samráði við sýslumann og undir mörgum kringumstæðum hefur fráfarandi m. a. s. ekkert um þetta að segja, heldur aðeins sýslumaður, ef hann hefur ekki fullnægt öllum skilyrðum, sem l. setja um búsetu á jörðinni.

Samkv. þessum l. eru jarðir gerðar að ættaróðulum með tvennu móti. Í fyrsta lagi þannig, að jarðareigandi ákveður það að gera jörð sína að ættaróðali með þeim skyldum og réttindum, sem því fylgja, og fer þá þá leið, að hann tilkynnir það sýslumanni og sýslumaður gengur síðan frá gjörningi um þetta og þinglýsingu. Í öðru lagi kveða þessi sömu lög svo á, sá kafli þeirra, sem fjallar um sölu þjóð- og kirkjujarða, að ekki megi selja ábúendum slíkar jarðir, nema því aðeins, að þeir skuldbindi sig um leið til að gera þær að ættaróðali. Ég hef ekki í höndum tölur um það, hversu mikið er af óðalsjörðum í landinu, en þær munu ekki vera margar, því að eftir fyrri aðferðinni munu fáir hafa kosið að afhenda jörð sína og gera hana að ættaróðali samkv. þeim böndum, sem þá mundu hvíla á henni. Hins vegar hefur margt af jörðum orðið að ættaróðulum um leið og Jarðeignadeild ríkisins hefur selt þær einstökum mönnum, því að það er bein skylda eftir l., að þeir undirgangist það að fá jarðirnar með því skilyrði að gera þær þegar að ættaróðulum. Eins og þegar er raunar að vikið, mun því óhætt að segja, að þessi lög hafa ekki enn náð þeim tilgangi, sem þeim var ætlað í upphafi, vegna breyttra búskaparhátta og einnig nokkurrar tregðu hjá jarðareigendum að undirgangast þau ákvæði laganna, sem eru óumdeilanlega nokkuð þröng. Þó tel ég ekki rétt á þessu stigi að leggja til, að þessi lög verði afnumin, þó að um það heyrist víða raddir, heldur tel ég nauðsynlegt að rýmka nokkuð þau ákvæði, sem gera það nú mjög örðugt og raunar tæplega mögulegt eftir laganna bókstaf að skipta um eigendur á þeim undir vissum kringumstæðum. En ef sú breyting, sem hér um ræðir, verður samþykkt, tel ég, að fram hjá þessu vandasama atriði verði hægt, að komast.

Í l. þeim, sem hér um ræðir, stendur orðrétt þetta ákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

„Söluverð jarðar má ekki fara yfir fasteignamatsverð hennar, en skal þó ekki vera lægra en áhvílandi skuldir og greiðist með jöfnum afborgunum á 10 árum.“

Þetta þýðir það, að bóndi, sem verður að hætta búskap vegna aldurs eða vanheilsu, fær ekki eyri fyrir sína jörð, ef einhverjar teljandi skuldir hvíla á henni. Hvíli hins vegar ekkert á jörðinni, getur hann fengið jafngildi fasteignamats þess, sem nú er, eða sem svarar 1/5 eða 1/10 af því, sem jörðin mundi væntanlega metin, ef fasteignamat væri nú í gildi eitthvað í eðlilegu horfi við breytta tíma. Þessir annmarkar hafa valdið því, að hin síðustu ár hefur orðið mjög örðugt að ráðstafa sumum jörðum á lagalegan hátt. Mér er sagt, að margar slíkar jarðir hafi þó verið seldar, án þess að til kæmu afskipti sýslumanna, og skal ég ekkert um það segja, en það sýnir þá bara aðeins það, að það hefur ekki verið talið framkvæmanlegt að fara eftir ákvæðunum, eins og þau eru nú og eins og tímarnir eru nú.

Landbn. sendi búnaðarþingi þetta frv. til umsagnar og búnaðarþing samþykkti einróma að mæla með, að þessi breyting yrði gerð á óðalsréttarlögunum. Landbn. var einnig sammála um það að mæla með, að frv. yrði samþ. og var alveg sammála um efni þess. Hins vegar kom lítils háttar til umr. í n., að einstaka nm. fannst eitt orð í frv. ekki vera heppilega valið, þ. e. orðið „óðalsviðjar“ eða „lausn úr óðalsviðjum“. Sumum fannst í því kenna einhvers konar andúðar á l. í heild. Þetta álít ég, að sé á misskilningi byggt. Samsettu nafnorðin „óðalsviðjar“ og „óðalsbönd“ þýða að mínu áliti nákvæmlega það sama. Tel ég því, að eigi skipti máli, hvort orðið er notað. Það mun liggja hér fyrir brtt., sem kom frá einstökum nm., sem skrifuðu undir álitið með fyrirvara, og sú brtt. hljóðar á þessa leið:

„Fyrirsögn V. kafla hljóði svo: Um lausn frá óðalsákvæðum, ráðstöfun ættaróðals og erfðir.“

Ég fyrir mitt leyti geri ekki mikið úr því, hvort þessara orða er notað. Ég tel, að það skipti í sjálfu sér engu, og það skiptir auðvitað engu að því er snertir efni frv. En ég fæ bara ekki skilið, hvað þessir hv. meðnm. mínir hafa út á orðið óðalsviðjar að setja. En ég ætla að láta það hlutlaust, hvort hv. þd. þóknast að breyta þessu eina orði, sem mundi þá hafa það í för með sér, að það þyrfti að breyta í samræmi við það aftur í 2. gr., eins og hér kemur fram í brtt. þeirri, sem ég nefndi. Mér finnst orðið viðjar eða viðjur vera mjög gott — en að sjálfsögðu heyrum við grg. þeirra, sem flytja þessar brtt., fyrir þeim og e. t. v. sé ég ástæðu til að óska eftir að taka til máls að þeirri grg. fenginni.