18.03.1968
Neðri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

146. mál, ættaróðul

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Eins og frsm. vék að, liggur fyrir á þskj. 380 brtt. frá mér ásamt Vilhjálmi Hjálmarssyni um orðalag á greinum þessa frv., sem er, eins og hann sagði, ekki efnisbreyting, en það er í raun og veru, — ég mundi segja blæbrigðabreyting. Í augum ykkar flestra er hér kannske um verulega smámuni að ræða, en þó er það nú svo, að það skiptir ofurlitlu máli, hvernig orðalag er á löggjöf. Það er vafalaust rétt, að viðjar þýða alveg það sama eins og hönd. Þó mundi okkur nú þykja einkennilegt,ef það væri allt í einu farið að orða það, að við værum að ganga í hjónaviðjar, ef við værum að gifta okkur, í staðinn fyrir hjónabönd. En aðalatriðið er, að í mínum huga minnir þetta orð svolítið á hlekki. Og það er kannske meðfram vegna þess að ég veit, að sá andi, sem lá að baki þessari löggjöf á sínum tíma, var áreiðanlega mjög fjarri því, að hér væri verið að skapa nokkra hlekki, og þar sem við leggjum til að komi óðalsákvæði í stað óðalsviðja, er það byggt á því, að það er einmitt orðalagið, sem notað er yfirleitt í l. annars staðar eins og þau eru nú. Þetta er sem sagt, eins og þið sjáið, ekki stórmál. Það er kannske dálítið tilfinningaatriði, ofurlítil tilfinningarök að baki þessu og það er blæbrigðamunur á þessum orðum, og ég vildi nú í allri vinsemd vænta þess, að hv. d. vildi fallast á orðalag það, sem í brtt. felst.