29.03.1968
Efri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

146. mál, ættaróðul

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Undir afgreiðslu þessa frv. í hv. Nd. leitaði landbn. þeirrar hv. d. umsagnar um málið hjá búnaðarþingi. Það var álit búnaðarþings, að frv. þetta væri spor í rétta átt og mælti það með samþykkt þess. Lög um ættaróðul munu vera frá 1943 eða 25 ára gömul, þó með breytingum, sem gerðar voru á l. 1962. Þessi löggjöf um ættaróðul, ættarjarðir og erfðaábúð mun m. a. hafa átt að koma í veg fyrir, að góðar bújarðir gengju kaupum og sölum og lentu þá einnig í höndum aðila, sem ágirntust jarðirnar í öðrum tilgangi en nytja þær til búreksturs. Flm. þessa frv. telja, að þrátt fyrir þá nauðsynlegu vernd, sem l. veita í þessum efnum, sé nauðsynlegt að gera á þeim þá breytingu, sem fram kemur í 2. gr. þessa frv., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar óðalsbóndi verður að bregða búi vegna elli, vanheilsu eða af öðrum þeim ástæðum, sem valda því, að honum er ókleift að halda áfram búskap, er landbrh. heimilt að leysa óðalið frá óðalsákvæðum, ef engir þeirra ættingja, sem rétt hafa til óðalsins, vilja taka við því til ábúðar, enda mæli sýslunefnd og Búnaðarfélag Íslands með þeirri ráðstöfun. Samþykki landbrh. lausn óðals frá óðalsákvæðum, er óðalsréttarhafa heimilt að selja það við því verði og þeim kaupanda, er hann kýs, enda hafi þeir, sem forkaupsrétt eiga að lögum, hafnað honum.“

Því hefur verið haldið fram, að gildandi lagaákvæði hafi í vissum tilfellum komið í veg fyrir, að jarðir héldust í byggð. Með þeirri breytingu, sem hér er lagt til, að gerð verði á l., opnast möguleikar fyrir því, að ráðh. geti að fullnægðum vissum skilyrðum leyst jarðir úr óðalsviðjum og þannig greitt fyrir ábúendaskiptum. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 455, mælir landbn. einróma með því, að frv. verði samþ.

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að leggja til, að frv. verði samþ. og því verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.