30.11.1967
Neðri deild: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

61. mál, Fiskimálaráð

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., um fiskimálaráð, var flutt á síðasta Alþ., en varð ekki útrætt. Þá fluttu frv. nokkrir þm. Sjálfstfl., en nú að þessu sinni flytja frv. auk mín þm. bæði úr Sjálfstfl. og Alþfl., þeir Pétur Sigurðsson, Birgir Finnsson, Benedikt Gröndal og Sverrir Júlíusson.

Frv. er að verulegu leyti eins og það var flutt á síðasta þingi, að því undanskildu þó, að í 2. gr. frv. eru nánari ákvæði um tilgang fiskimálaráðs og skýrari heldur en voru í frv., sem flutt var á fyrra þingi, og sömuleiðis er bætt við tveimur aðilum, sem gert er ráð fyrir, að eigi sæti í fiskimálaráði, frá tveimur félagasamtökum, þ. e. frá Samlagi skreiðarframleiðenda og Félagi fiskiðnfræðinga. En að öðru leyti er frv. það sama, og þá fylgdi því ýtarleg grg., sem er endurprentuð með þessu frv.

Maður heyrir það oft, að menn telja, að það sé nóg af ráðum í þjóðfélaginu og sé ekki ástæða til þess að fjölga þeim, en ég hygg, að það sé töluvert annað hvað snertir þetta mál. Það er að vísu rétt, að það eru mörg ráð og margar stofnanir, sem hafa með sjávarútvegsmál að gera, en það vantar algerlega að sameina þau fjölmörgu samtök, sem hér eiga hlut að máli, bæði þeirra, sem afla frumhráefnisins, þeirra, sem gera út skipin, bæði sjómanna og útgerðarmanna, fiskiðnfyrirtækjanna og sölusamtaka þeirra, helztu stofnana sjávarútvegsins. Þessir aðilar koma hvergi saman til þess að taka sameiginlegar ákvarðanir. Þess vegna tel ég og við flm. þessa frv. brýna nauðsyn bera til þess, að slíkum samtökum sé komið á eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., þar sem sá maður, sem er æðsti maður í sjávarútvegsmálum, skipar formennsku, sem er sjútvmrh., sem frv. gerir ráð fyrir að sé jafnframt formaður fiskimálaráðs.

Tilgangur þessa frv. er sá, að fiskimálaráð á að vera ráðgefandi um mótun heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins og í markaðsmálum, og skal það beita sér fyrir góðri samvinnu allra aðila, sem hlut eiga að máli, með gagnasöfnun, umræðufundum, skýrslugerð, útgáfu og fræðslustarfsemi og öðrum ráðum, sem líklegust eru talin til þess hverju sinni, að tilganginum með stofnun ráðsins verði náð.

Það má skipta verkefni þessa væntanlega ráðs í þrjá höfuðflokka. Það er í fyrsta lagi að sjá um uppbyggingu fiskiskipastólsins, í öðru lagi um uppbyggingu fiskvinnslu- og fiskiðnaðarfyrirtækja og í þriðja lagi, sem ekki er síður mikilvægt, að hafa forgöngu um markaðsrannsóknir og skipulegar aðgerðir til öflunar nýrra markaða fyrir sjávarafurðir, svo og að sjá um framleiðslu nýrra vörutegunda. Enn fremur geta verið fjölmörg önnur verkefni, sem nauðsynlegt er að sinna betur en gert hefur verið, og þá vil ég sérstaklega minna á, áður en ég fer að ræða um þessi þrjú höfuðverkefni um nauðsyn þess að hafa forgöngu um alla skýrslusöfnun fyrir sjávarútveginn, ég vil þá minna á það, að fyrir nokkrum árum var stofnað verðlagsráð sjávarútvegsins og þá brotið í blað í sambandi við verðlagningu sjávarafurða. Það form hefur reynzt vel að mínum dómi. En þó er eitt, sem skyggir á það, og það er, að allur undirbúningur, allir útreikningar og öll gögn, sem fyrir verðlagsráði liggja hverju sinni, eru unnin af sérhagsmunasamtökum innan útvegsins hverju fyrir sig, en engin heildarstofnun, sem vinnur úr þessum gögnum.

Það heyrist allt of oft og er gert mikið úr, að sjómenn og útvegsmenn eigi í deilum sín á milli um skiptingu þeirra verðmæta, sem skipin afla. Það er sannfæring mín, að þessar deilur þurfi ekki að vera og til þess að koma að mestu í veg fyrir þær þurfa þessir aðilar að hafa nánara samstarf en nú er og hefur verið í fjöldamörg ár, þ. e. að eiga starfandi samstarfsnefndir sjómanna og útvegsmanna árið um kring. Fulltrúar sjómanna þurfa að eiga þess kost að fylgjast með þróun útgerðar og öllum verðbreytingum, sem eiga sér stað í rekstri hennar, mynda sér skoðanir um orsakir þeirra og leitast við í samráði við útvegsmenn að koma í veg fyrir óeðlilegar hækkanir í rekstrarkostnaði útgerðarinnar. Sjávarútvegurinn þarf nauðsynlega að koma sér upp hagstofnun, og ekkert er eðlilegra en fulltrúar sjómanna eigi þar greiðan aðgang. Slík hagstofnun á að fylgjast á hlutlausan hátt með öllu því, sem lýtur að útgerð, fiskverkun, fisksölu og markaðsöflun og vera sú stofnun, sem allir geta treyst að fari eingöngu með rétt mat á hlutunum, en leitist ekki við að hagræða tölum og áliti fyrir einn aðilann á kostnað hinna innan þessarar sömu atvinnugreinar.

Þegar við grandskoðum, hvað sjómenn og útvegsmenn eiga mörg sameiginleg áhugamál og hversu hagsmunir þeirra fara óteljandi oft saman, kemur það í ljós, að deilur og metingur um kaup og kjör eru aðeins lítill hluti á móti því öllu, sem fer saman. Það er sameiginlegt velferðarmál sjómanna og útvegsmanna að fara sem bezt með þann afla, sem á skip kemur, til þess að fá sem mest verð fyrir hann.

Ég hygg, að með stofnun slíks fyrirtækis verði ekki um mikla kostnaðaraukningu að ræða, því að það er hægt að leggja niður margar aðrar stofnanir, sem nú starfa fyrir aðeins eina ákveðna grein. En það væri eðlilegt, að ráð eins og fiskimálaráð tæki þetta mál upp, og það er eðlilegt og sjálfsagt, að það opinbera eigi einnig aðild þar að, eins og t. d. Efnahagsstofnunin, en samkv. l. um verðlagsráð sjávarútvegsins er forstjóri Efnahagsstofnunarinnar sá maðurinn, sem er oddamaður, þegar samkomulag verður ekki um verðlagningu sjávarafurða og þeim málum er vísað til yfirnefndar. Þá hvílir auðvitað fyrst og fremst á þeim manni að leysa úr þeim deilum, og því er mjög eðlilegt, að í framtíðinni verði þessi skipan á þessum málum í heild tekin upp.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um skipastólinn. Það skýrir grg. frv. sjálf. En þó vil ég láta í ljós áhyggjur mínar út af þeirri þróun, sem hefur orðið í skipabyggingum á undanförnum árum, en hún hefur verið með þeim hætti, að fjármagni hefur fyrst og fremst og nær því eingöngu verið varið til að byggja upp stærri skipin, enda sýnir það, að tala skipa yfir 120 rúmlestir hefur aukizt úr 32 skipum frá árinu 1944 til 1. jan. 1967 í 184 skip. Og rúmlestatala skipa af þessari stærð hefur hækkað úr 5562 rúml. í 35559 rúml. En á sama tíma hefur sú þróun orðið í byggingu hinna minni skipa undir 120 smál., að þau voru árið 1944 560 eða 11725 rúml., en 1. jan. 1967 voru þau 577 eða 19014 rúml. Sömu sögu er að segja og þó enn átakanlegri í sambandi við botnvörpungana og botnvörpuútgerð, að þar hefur samdráttur orðið mjög mikill á síðari árum. Á þessu ári hafa bætzt við skipastólinn til 21. nóv. 27 skip. Þar af eru smíðuð utanlands 22 skip, samtals 6370 brúttórúmlestir, en innanlands hafa verið smíðuð 5 skip 1150 brúttórúml. Af þessum 5 skipum, sem hafa verið smíðuð innanlands, og verið skráð á þessu ári, eru 3 yfir 300 rúml., en aðeins 2 þeirra eru innan við 150 rúml., annað 140 og hitt 40 brúttórúml. Það má því segja, að það hafi ekki orðið nein breyting á í sambandi við uppbyggingu fiskiskipastólsins undir 120 rúml., en það eru þau skip, sem að mínu áliti skapa langmesta atvinnu í hinum ýmsu byggðarlögum á landinu og þá ekki síður hér við Faxaflóa heldur en annars staðar, því að þau eru að meira eða minna leyti bundin við veiðar fyrir sín byggðarlög og eru víðast hvar undirstaðan undir atvinnu í fjölmörgum byggðarlögum á landinu. En það er einhvern veginn þannig með okkur Íslendinga, að þegar uppgrip verða í einhverri grein, þurfa allir að fara sama veginn, þá þurfa allir að byggja það upp, sem þá er hægt að hafa mest upp úr, en hirða svo ekki aftur um að halda hinu við, sem hefur oft og tíðum reynzt happadrýgst, þegar til lengdar lætur, þó að sveiflur hafi þar verið minni.

Ég tel, að það sé nauðsynlegt að koma meira skipulagi á þessi mál en verið hefur, en það skipulag hefur ekkert verið betra eða verra nú á seinni árum heldur en það hefur verið s. l. tvo áratugi. Það er hægt að gera án þess að allir menn séu háðir leyfum og ráðum. Það er hægt að gera fyrst og fremst á þann hátt að haga fjármagninu og lánastarfseminni á þann veg að jafna hér á milli, til þess að sveiflurnar verði sem minnstar.

Sama er að segja um fiskiðnaðinn. Þar hefur uppbyggingin orðið langmest í síldariðnaðinum á undanförnum árum. Hitt má líka segja, að hraðfrystihúsin hafa byggt sig mjög upp og tekið upp aukna hagkvæmni í sínum rekstri. En því má einnig bæta við, að mörg þessara frystihúsa hefur skort fé til þessarar uppbyggingar vegna þess, hve þarfirnar fyrir fjármagn eru miklar í okkar þjóðfélagi og hraðinn er mikill á mönnum og hvað yfirleitt allir vilja byggja upp á sem skemmstum tíma. Ég hygg, að það þurfi að taka meira tillit til þess, hver hráefnaöflunin er á hverjum stað, og möguleikans til hráefnisöflunar og haga nokkuð uppbyggingu fiskvinnslufyrirtækjanna í samræmi við það. Opinberir sjóðir og stofnanir verða að taka í ríkara mæli tillit til þess, hvort er þörf á nýju fyrirtæki, þörf á fleiri fyrirtækjum á þessum stað eða hinum, hvernig er hráefnisöflunin, hvernig eru möguleikar til þess að afla hráefnis, en ekki fara út í skefjalausa samkeppni, sem á einstökum stöðum hefur sýnt okkur það, að hefur leitt til þess, að það hefur enginn haft nægilegt upp úr sínum fyrirtækjum á þeim stöðum, vegna þess að það hefur verið tilfinnanlegur skortur á hráefni víða á landinu. Þess vegna er nauðsynlegt að taka upp betra eftirlit með þessum málum, þannig að það sé fyrst og fremst hugsað um það, að atvinnufyrirtækin geti borið sig og hafi verkefni að vinna, en ekki að þeim sé fjölgað í sífellu, þannig að þau dragi hvert annað niður.

Þá ætla ég að koma nokkrum orðum að um markaðsmálin. Ég gat þess í upphafi máls míns, að það væru ekki sízt markaðsmálin, þar sem mikið væri að vinna, og í raun og veru er þar langmest ógert í þessum málum. Við erum með tiltölulega of einhæfa útflutningsframleiðslu, Íslendingar, og við höfðum ekki aukið viðskipti okkar neitt að ráði við mörg lönd á undanförnum árum. Það má í raun og veru skipta viðskiptum okkar Íslendinga í fjóra aðalhluta: fyrsta lagi viðskipti við löndin, sem nú teljast til Fríverzlunarbandalagsins, löndin, sem teljast til Efnahagsbandalagsins, Austur-Evrópulöndin, Bandaríkin og svo aftur í fimmta lagi önnur lönd. Viðskiptin við lönd utan þjóða þessara tveggja markaðshandalaga og Austur-Evrópuríkjanna og Bandaríkjanna eru ekki nema um 13.8% af heildarútflutningi okkar, og þetta hlutfall hefur sáralítið breytzt frá árinu 1963 við önnur ríki en þau, sem ég taldi hér áðan.

Stærstu viðskiptalönd okkar eru löndin innan Fríverzlunarbandalagsins, og þá er það auðvitað sérstaklega Bretland, sem er með veruleg viðskipti. 1948 var útflutningur okkar til landa, sem nú eru innan Fríverzlunarbandalagsins, 38.2% af útflutningnum, en á árinu 1953 hafði þessi útflutningur minnkað verulega eða niður í 25.6%, og á árinu 1958 minnkaði hann enn niður í 20.8%, en þá hafði eðlilega landhelgisdeilan mjög mikil áhrif á viðskiptin við þessi lönd, eða sérstaklega og eingöngu við Bretland. Síðan 1963 hefur verið minni hreyfing á þessum viðskiptum, því að útflutningurinn til þessara landa hefur verið frá 34.4% og upp í 39.8% á þessum árum, sem síðan eru liðin. Útflutningurinn til landa innan Efnahagsbandalagsins hefur aftur tekið mjög miklum breytingum. Það eru 34% af heildarútflutningi okkar, sem var til þessara landa árið 1948, en á síðustu árum eða allt frá árinu 1963 og til og með s. l. árs hefur þessi prósenta leikið frá 16.2% upp í 20.4%. Viðskiptin við Austur-Evrópu fóru að aukast fljótlega eftir stríðið, og þau voru 11.8% 1948, og þar voru auðvitað Sovétríkin langhæst. 1953 voru þau komin í 19.8%. En 1958 er það langhæsta, sem þau hafa komizt, en þá fóru þau upp í 35%. Síðan hafa þessi viðskipti dregizt verulega saman og einkum á síðustu árum, en frá 1963–1966 hafa þau verið frá 11.9% upp í 17.4% af heildarútflutningsmagni okkar.

Það má segja um viðskiptin við Austur-Evrópu og þá sérstaklega við Sovétríkin, að þar hefur orðið meiri uppbygging í sjávarútvegi en víðast hvar annars staðar eða sennilega alls staðar annars staðar í okkar viðskiptalöndum, og það hlýtur að hafa haft veruleg áhrif á viðskipti þeirra við okkur á seinni árum, enda hafa Rússar lagt fram áætlun um stórfellda aukningu í sjávarútvegi í sinni áætlun, sem er nú verið að framkvæma, frá 1965–1970. En þeir áætla, að 1970 muni þeir hafa aukið fiskiskipaflota sinn um 150%, og þeir áætla, að magn sjávarafurða muni hækka frá árinu 1965 úr 5.8 millj. tonna í 8.5–9 millj. tonn. Viðskiptin við Bandaríkin hafa verið mjög misjöfn, voru aðeins 6.7% 1948, en 1953 jukust þau nokkuð, upp í 15.3%, en á síðustu árum eða sérstaklega síðustu 4 árin má segja, að þessi viðskipti hafi verið hlutfallslega jöfnust af viðskiptum okkar við allar þjóðir, eða frá 15.8% til 16.5% af heildarútflutningi okkar. Um önnur lönd hef ég farið nokkrum orðum.

Ég tel, að slíkt ráð eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, sem á að samanstanda af fulltrúum í öllum greinum sjávarútvegs, þurfi fyrst og fremst og öllu öðru frekar að taka markaðsmálin til meðferðar. Það hefur verið gert töluvert í markaðsmálum, og ég ætla á engan hátt að rýra hlut þeirra manna og fyrirtækja, sem hafa unnið að þeim og fengið nokkurn styrk til auglýsingastarfsemi úr fiskimálasjóði. En ég vil fullyrða það og hika ekki við það að segja, að hér hefur engan veginn verið gert nóg, og við þurfum sannarlega að taka okkur á í þessum efnum og vinna betur að því að kynna okkar vörur í fleiri löndum og auka viðskipti okkar við þau lönd, þar sem viðskipti hafa verið hagstæðust. Við getum ekki, þegar til lengdar lætur, haft þá sömu stefnu, sem við höfum haft í sjávarútvegsmálum, að moka sífellt meiri og meiri afla upp úr fiskimiðum umhverfis landið og flytja hann á land eða óunninn úr landi, vinna meginhlutann af þessum afla mjög lítið, en auka alls ekki að sama skapi verðmæti útflutningsafurðanna sem við aukum fjármagn til þessarar atvinnugreinar. Þess vegna verðum við að gera þá stefnubreytingu og það sem allra fyrst að byggja meira á góðfiski, byggja meira á góðum afla, sem er vel með farinn, vinna meira úr honum í landinu og skapa fyrir hann markað meðal annarra þjóða, og þá auðvitað alveg sérstaklega, þegar við förum inn á þær brautir, verða auðvitað viðskiptin hagkvæmust við þau lönd, þar sem almenningur býr við bezt lífskjör og þar sem kaupgetan er mest, og þangað verðum við fyrst og fremst að reyna að selja þessar afurðir, en þó ekki slá slöku við viðskiptin við aðrar þjóðir.

Eins og ég benti hér á áðan, voru viðskipti við fríverzlunarbandalagslöndin og efnahagsbandalagslöndin á s. l. ári hvorki meira né minna en 57.8% af heildarútflutningi þjóðarinnar. Hvað sem líður viðhorfum manna til markaðsbandalaga, og sennilega væri það bezt fyrir okkur Íslendinga, að engin slík handalög hefðu verið stofnuð, verðum við í þeim efnum sem öðrum að játa staðreyndir, því að það er staðreynd, að svo að segja allar þjóðir Evrópu eru í markaðshandalögum, og þau stefna að því, sérstaklega Efnahagsbandalagið, að hækka í sífellu innflutningstolla á afurðum frá þjóðum, sem standa utan við þessi bandalög. Þess vegna mun svo fara, ef sú stefna heldur áfram, sem þetta bandalag hefur marglýst yfir og hefur verið að byrja að framkvæma, að við verðum innan ekki langs tíma fyrir utan með öll þau viðskipti, sem við þurfum á að halda við þessar fjölmennu þjóðir. Við stöndumst engan veginn, Íslendingar, við að auka eða halda þeim viðskiptum, við sem erum með jafnháan framleiðslukostnað og við erum, við sem gerum jafnháar kröfur til lífsins, við getum ekki staðizt það ofan á allt annað að verða að greiða af okkar afurðum til þessara landa mjög háa innflutningstolla. Þess vegna er orðin knýjandi nauðsyn þess, að Ísland fari að leitast eftir því í fullri alvöru að gerast aðili að þessum bandalögum, og fyrst og fremst er það Fríverzlunarbandalagið, sem hér verður að byrja á. Og í öðru lagi tel ég, að við verðum að hraða því að því loknu að leita aukaaðildar að Efnahagsbandalaginu. Um það er ekki að ræða, og er örugglega enginn Íslendingur á þeirri skoðun að Ísland geti nokkru sinni gerzt fullgildur aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu. Það dettur engum í hug. En við skulum líka taka það með í reikninginn, hvað sem líður viðhorfum einstakra manna og flokka til þessara mála, að það eru margar þjóðir aukaaðilar að Efnahagsbandalagi Evrópu og m. a. margar Afríkuþjóðir. Þessar þjóðir hafa náð samningum um aðlögunartíma fyrir aðrar atvinnugreinar allt upp í 20 ár, og það ætti ekki að verða neitt erfiðara fyrir okkur Íslendinga að gangast undir þær kvaðir en þessar þjóðir með því að hafa nógu langan aðlögunartíma.

Ég tel alveg rétt í sambandi við þetta mál, þó að það sé ekki beint því skylt, að koma inn á þessar skoðanir mínar í sambandi við markaðsbandalögin. En ég tek það jafnframt fram, sem ég gerði áðan, að við eigum á engan hátt að láta undir höfuð leggjast að viðhalda þeim góðu viðskiptum, sem við höfum átt við aðrar þjóðir, og við eigum jafnframt að vinna ötullega að því að taka upp viðskipti við fleiri þjóðir, því að hlutfallið í viðskiptum við þjóðir utan þessara fjögurra flokka, sem ég nefndi áðan, eru allt of lítil og þau þarf að leggja mikla áherzlu á.

Við verðum að fylgjast vel með öllum tækninýjungum, og það hefur verið gert að vissu marki og sérstaklega við uppbyggingu skipastólsins. En það fylgir aukinni tækni og dýrum tækjum, að það verður að gera jafnframt breytingu á vinnuaðferðum í öllum þessum greinum, og sú breyting verður aldrei framkvæmd í þessu landi nema í náinni samvinnu og samstarfi við verkalýðshreyfinguna, því að það verður auðvitað alltaf fyrst og fremst undirstaða þess að viðhalda góðum lífskjörum að skapa hagsýni í öllum rekstri, halda ekki dauðahaldi í gamlar vinnuaðferðir, eftir að við erum farnir að kaupa ný tæki og taka í þjónustu okkar tækninýjungar, því að möguleikarnir á Íslandi eru það miklir, að við þurfum ekki, þó að við hverfum frá þessu, að eiga neitt á hættu atvinnuleysi.

Það er sagt um Breta, að þeirra iðnþróun gangi hægt og er það fyrst og fremst, að því er talið er, fyrir það, hvað þeir eru fastheldnir á gamlar vinnuaðferðir og hafa ekki tekið tæknina nóg í þjónustu sína, eins og ýmsar aðrar þjóðir hafa gert. Þess vegna hefur iðnþróun þeirra orðið hægari en hjá mörgum öðrum þjóðum. Þetta verðum við sem lítil þjóð og framsækin að hafa mjög í huga. Og til þess að ná sem beztum árangri í allri slíkri uppbyggingu verðum við að mynda einhver heildarsamtök, bæði vinnandi fólks, sem vinnur í þessari atvinnugrein, þeirra sem gera út skipin, þeirra sem vinna úr fiskinum og þeirra sem selja, lánastofnana og ríkisvaldsins, þar sem hægt er að skiptast á skoðunum, þar sem hægt er að vekja skilning á milli hinna ýmsu greina og dylja ekki aðra greinina þess, sem hin er að gera. Þetta er öruggasta vissan fyrir því, að við náum lengra á næstu árum en við höfum gert, og þess vegna tel ég, að hvað sem líður viðhorfum manna til ráða og nefnda, sé mikið verk að vinna fyrir slíkt ráð eins og þetta frv. gerir ráð fyrir að verði stofnað.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.