28.11.1967
Efri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

66. mál, verðlagsmál

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil nú þakka hæstv. viðskmrh. fyrir svörin, svo langt sem þau náðu. Hann lýsti því sem sinni skoðun, að það væri nánast orðaleikur úr því sem komið væri, hvort talað væri um, að verðstöðvun væri í gildi eða ekki. Það verður þá hans svar við því, hvort verðstöðvun sé í gildi eða ekki. Hins vegar bætti hann þó um að því leyti til, að hann lýsti því sem sinni persónulegu skoðun, að það væri ekki lengur skynsamlegt að tala um verðstöðvunarstefnu. Það mundu — og í því var hann raunsær alveg og mælti réttilega — í kjölfar gengisfellingarinnar fylgja svo miklar hækkanir, að það væri ekki lengur skynsamlegt eða eðlilegt að tala um verðstöðvunarstefnu. Ég er honum sammála um þetta. Nú, náttúrlega gleður það mig að heyra, að ríkisstj. skuli lýsa því yfir, að hún muni taka verðlagseftirlitið alvarlega. Ég vona, að efndir fylgi orðum þar.

En ýmislegt fleira spurði ég um, þ. á m. um framkvæmd verðlagseftirlitsins, sem hæstv. ráðh. fór nú ekki út í. Vegna þess að tíminn er naumur, þá fyrirgef ég honum það og geng þá ekki frekar eftir svörum í því efni nú, en ég tel að það sé málefni, sem ástæða er til að ræða og hæstv. ráðh. ætti við tækifæri að gefa sér tóm til að ræða hér og gefa þinginu skýrslu um. Hins vegar get ég nú ekki alveg fallizt á skýringar hans viðvíkjandi verðstöðvunarlögunum og sambandi þeirra við þessi lög nú. Hann vildi halda því fram enn, að verðstöðvunarlögin hefðu verið nauðsynleg, þessi l. um verðlagsmál hefðu ekki geymt allar nauðsynlegar heimildir til verðstöðvunar og taldi upp í því sambandi verðlag á innlendum vörum og opinber gjöld. Nú tók ég það skýrt fram og hef alltaf tekið það fram, að gömlu verðlagslögin geymdu ekki bann við hækkun opinberra gjalda. Það var nýtt í verðstöðvunarlögunum, en það var líka það eina, sem var nýtt, því að um verðlagningu á landbúnaðarafurðum breyttu t.d. verðstöðvunarl. engu. Verðlagning á þeim var eftir verðstöðvunarl. alveg eins og fyrir þau í höndum alveg sérstakrar n. Og verðlagning sjávarafurða var eftir sem áður í höndum alveg sérstakrar n., verðlagsráðs sjávarútvegsins. Um þetta atriði breyttu verðstöðvunarlögin engu til né frá. Eftir sem áður voru öll þessi mál í höndum hálf- eða alopinberra nefnda. Það eina, sem skal játað að var nýtt í verðstöðvunarl., var það, að samþykki ríkisstj. þyrfti til tiltekinna hækkana. Það var nýtt. En það er þá fallið niður með niðurfalli verðstöðvunarl. Ég vil nú ekki þreyta hv. þm. á því að fara að lesa hér upp l. um verðlagsmál, en ef það væri gert, þá mundi það koma á daginn, að þar hefur verðlagsn. heimild til hvers konar ákvörðunar um verðlagsmál. Hún ákveður hámarksverð á vöru og verðmæti, þ. á m. hámark álagningar, umboðslauna og annarrar þóknunar, er máli skiptir um verðlag í landinu. Verðlagsn. getur úrskurðað hverja þá kostnaðarliði, sem máli skipta um verðlagningu í landinu. Verðlagsákvarðanir allar skulu miðaðar við þörf þeirra fyrirtækja, sem hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur. Þá getur verðlagsn. og ákveðið gjöld fyrir flutninga á landi, sjó og í lofti og þar með talin farmgjöld, afgreiðslugjöld og enn fremur greiðslur til verkstæða og annarra verktaka fyrir alls konar verk, svo sem pípu- og raflagnir, smíðar, málningu, veggfóðrun, saumaskap, prentun og því um líkt. Enn fremur getur verðlagsn. ákveðið hámarksverð á greiðasölu, veitingum, fæði, snyrtingu, fatapressun, aðgöngumiðum, almennum skemmtunum og öðru slíku. Þannig mætti halda áfram. En sem sagt, ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Þau voru í styttra lagi, en það sagði líka sína sögu.