04.03.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

61. mál, Fiskimálaráð

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. sjútvn., lýsti ég mig andvígan frv. við lokaafgreiðslu þess í þeirri n. Ég hef þó ekki séð ástæðu til að gefa út um það sérstakt nál., en tel rétt, að ég geri hér nokkra grein fyrir afstöðu minni til málsins við þessa 2. umr. um það.

Í framsöguræðu sinni við l. umr. um frv. í þessari hv. d. sagði 1. flm. þess, hv. 4. þm. Vestf., orðrétt, með leyfi forseta:

„Maður heyrir það oft, að menn telja, að það sé nóg af ráðum í þjóðfélaginu og sé ekki ástæða til að fjölga þeim. En ég hygg, að það sé töluvert annað hvað þetta mál snertir.“

Ég er 1. flm. frv. alveg sammála hvað það snertir, að það sé nóg af alls konar ráðum í þjóðfélagi okkar, og ég tel, að frekar mætti fækka þeim en fjölga. Og mér er alveg ómögulegt að sjá, að það yrði útgerðinni eða fiskvinnslunni nokkuð til framdráttar, þó að 19 manna ráð, sem frv. gerir ráð fyrir, yrði stofnað, nema þá kannske síður væri. Og ég verð að segja, að undirtektir þeirra aðila, sem tilgreindir eru í 7. gr. frv., þeir eru 18 að tölu, — hv. frsm. sagði, að þeim hefði öllum verið sent málið til umsagnar, en umsagnir frá aðeins 5 aðilum hafa borizt, — ég verð að segja, að þetta er nokkur staðfesting á því, að einnig þessir aðilar hljóta að líta þannig á, að það sé komið nóg af ráðum og nefndum í sambandi við sjávarútveginn og hann vanti kannske annað miklu frekar en slíkar stórnefndir og stórráð, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Samkv. 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að hið fyrirhugaða fiskimálaráð eigi að vera ráðgefandi um mótun heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins, en samkv. 3. og 4. gr. þess á hlutverk fiskimálaráðs einnig að vera að gera ályktanir og till. um uppbyggingu fiskiskipastólsins og fiskvinnslu- og fiskiðnaðarfyrirtæki. Allt eru þetta fögur orð og sýna góðan vilja. En frv. gerir hvergi ráð fyrir, að nokkur þurfi að taka mark á ákvæðum þess, ábendingum eða till. Mætti þess vegna e. t. v. segja, að það skipti ekki máli, þó að það yrði samþ., en slíkt getur varla þjónað nokkrum tilgangi.

Hv. frsm. sagði áðan, að aðaltilgangur frv. samkv. 2. gr. þess væri upplýsinga- og gagnasöfnun. Ég stend í þeirri meiningu, að í sambandi við sjávarútveginn sé alveg nóg til af upplýsinga- og gagnasöfnun og þar vanti frekar nauðsynlegar aðgerðir heldur en að setja nýja, stóra skrifstofu, 19 manna ráð með þriggja manna framkvæmdastjórn, á stofn til þess að annast þá hluti. Opinberir aðilar, ég þarf ekki að tilgreina það, það er Fiskifélagið og margar aðrar opinberar stofnanir, hafa og fá yfirleitt þær upplýsingar um sjávarútveginn, sem talið er eðlilegt og nauðsynlegt.

Annað aðalatriði frv. telja flm., að því er kom fram í ræðu hv. frsm., að móta heildarstefnu, eins og fiskimálaráði er ætlað, við uppbyggingu fiskiskipastólsins og fiskvinnslu- og fiskiðjufyrirtækja. Það getur látið ákaflega vel í eyrum. En ég efast um, að það sé eins auðvelt og hv. flm. þessa frv. gera ráð fyrir, og ég efast enn meira um, að 19 manna ráð sé þar rétti aðilinn. Um annan iðnað er nokkuð öðruvísi farið. Þar eiga menn hægara með að gera fastmótaðar áætlanir og skipuleggja hlutina fyrirfram. Þar er oftast nær vitað fyrir fram um það hráefni, sem vinna á úr, og stærð véla og annað rekstrarfyrirkomulag við það miðað. Og sveiflur í verðlagi framleiðslu annarra fyrirtækja en sjávarútvegs eru ekki þannig, að þær geti beinlínis raskað rekstrargrundvelli iðnaðarins. Í útgerð og fiskiðnaði er þessu allt öðruvísi farið. Það veit enginn í ársbyrjun, þegar vertíð hefst, hversu afli verður mikill á árinu, og á það við, hvort heldur um er að ræða hráefni til fiskiðjuveranna eða síld til bræðslu eða söltunar. Auk þess hefur reynsla undanfarinna ára kennt okkur, að sveiflur eru það miklar á verðlagi á erlendum markaði á sjávarafurðum, hvort heldur er á fullunnum eða hálfunnum vörum, að um beina röskun á rekstrargrundvelli getur verið að ræða. Það eru þessar staðreyndir, sem gera það að verkum, að miklu erfiðara er að gera fastmótaðar, fyrir fram ákveðnar áætlanir um útgerð okkar og fiskvinnslu heldur en um annan iðnað í landinu. Ég hygg, að þrátt fyrir mistök, sem orðið hafa í útgerðar- og fiskvinnslumálum okkar, verði affarasælast, að þau fái að þróast áfram og aðlaga sig breyttum aðstæðum á hverjum tíma, bæði hvað öflun hráefnis og sölu vörunnar á erlendum markaði viðkemur. Og ég tel óhikað, að bezt fari á því, að öll framkvæmd þessara mála sé í höndum þeirra aðila, sem á hverjum tíma eru beinir og virkir þátttakendur í útgerð og fiskvinnslu og að þeir hafi sem mest óbundnar hendur af stjórnskipuðum nefndum og ráðum og að sú skipulagning þessara mála, sem talin kann að vera nauðsynleg, verði í höndum frjálsra samtaka þeirra.

Í sambandi við sjávarútveg og fiskvinnslu er oft talað um mistök, eins og ég sagði áðan, sem talið er að átt hafi sér stað. Vel má vera, að eitthvað sé til í þessu. En ég mundi telja það hættulega sjálfsblekkingu, ef menn halda, að stofnun nefndar eins og fiskimálaráðs mundi í framtíðinni koma í veg fyrir mistök eða misfellur í þessu sambandi. Ég hef áður bent á, að svo miklar sveiflur eru í sambandi við útgerð og fiskvinnslu, að enginn er þess umkominn að segja til um fyrir fram, hvað sé hið eina örugga og rétta í þessu sambandi. Og þegar við tölum um misfellur og mistök og miklum það kannske fyrir okkur, megum við ekki undir neinum kringumstæðum gleyma þeirri framþróun, sem orðið hefur í þessu.m málum, og því, sem vel hefur verið gert, og ekki vanmeta framlag einstakra stétta eða einstaklinga, sem sumir hverjir hafa að mínum dómi unnið þrekvirki, sjálfum sér og þjóðarheildinni til gagns og hagsældar. Ég vil í þessu sambandi benda á, að íslenzkir sjómenn og útgerðarmenn hafa orðið fyrri til en aðrir að notfæra sér þær tæknilegu framfarir, sem orðið hafa í sambandi við fiskveiðarnar og þó aðallega síldveiðarnar. Mun stærri fiskveiðiþjóðir og margfalt mannfleiri, eins og bæði Norðmenn og Rússar, telja sig beinlínis geta mikið af Íslendingum lært í þessum efnum, og er það vel farið. Þessi framþróun mála hefur átt sér stað, þrátt fyrir að þar var a. m. k. ekkert 19 manna fiskimálaráð komið til sögunnar til þess að marka stefnuna eða leiðbeina útgerðarmönnum og sjómönnum, hvernig þeir ættu að haga sér í þessu sambandi.

Ég hef dregið þetta fram hér til þess að benda á, að reynsla og hyggjuvit einstaklinga er ekki síður til þess fallið en stjórnskipaðar nefndir að skapa hagstæða framþróun mála þjóðarheildinni til velfarnaðar. Og þegar talað er um fyrir fram fastmótað skipulag þessara mála, hlýtur að rifjast upp, að misjafnar skoðanir voru á því á sínum tíma, ég hygg á árunum 1963 og 1964 og er kannske að einhverju leyti enn í dag, — hvort bygging hinna stóru síldveiðiskipa væri þjóðhagslega séð hagstæð eða ekki. Ég hygg þó, að flestir séu orðnir sammála um, að þrátt fyrir að ýmsir erfiðleikar steðji að útgerð og fiskvinnslu, væri efnahagsmálum þjóðarinnar nú í dag mun verr komið, ef ekki hefðu komið til hin stóru og afkastamiklu síldveiðiskip. A. m. k. held ég, að eitt liggi alveg ljóst fyrir, en það er, að síldveiðarnar hefðu að verulegu leyti farið forgörðum á s. l. ári, hefðu ekki þessi skip verið fyrir hendi, sem gerðu Íslendingum það mögulegt að sækja á fjarlægari mið en áður og óþekkt, sem fæstum mun sennilega nokkurn tíma hafa komið til hugar, að Íslendingar þyrftu að nytja.

Eins og ég sagði áðan, er eitt af grundvallaratriðunum í þessu frv., að fyrirhugað fiskimálaráð á að vera ráðgefandi um uppbyggingu fiskiskipastóls og fiskvinnslufyrirtækja. Ég tel, að alveg sé óþarfi að stofna til jafnfjölmenns ráðs og þarna er gert ráð fyrir af þessum sökum. Ég hygg, að bæði stjórn fiskveiðasjóðs, stofnlánadeild sjávarútvegsins, Efnahagsstofnuninni og Alþingi sjálfu sé nægilega ljóst, hvar við stöndum í þessum efnum nú í dag og hvað fram undan er. Fáir munu ætla, að eins og á stendur sé fram undan mikil aukning á síldveiðiflotanum umfram það, sem eðlilegt viðhald hans hlýtur að krefjast á hverjum tíma. Af því leiðir, að ekki mun verða mikil ásókn í byggingu nýrra vinnslufyrirtækja í landi, hvort heldur eru síldarbræðslur eða söltunarstöðvar. Aðaláhyggjuefni manna í þessu sambandi mun vera, hvort nægjanlega tryggur rekstrargrundvöllur sé fyrir hendi fyrir síldveiðiflotann, ef aðstaða versnar frá því, sem var á s. l. ári og er kannske að einhverju leyti enn. Ef breyta þarf að einhverju leyti um rekstrargrundvöll síldveiðiskipanna, er ég sannfærður um, að þeir menn, sem þar eiga hlut að máli, þ. e. sjómenn og útgerðarmenn þessa glæsilega flota, verði færastir um að ráða fram úr þeim vanda, þ. e. að segja til um, hvaða aðrar veiðar væri hugsanlegt að stunda á þessum skipum, ef síldveiðarnar einar verða ekki nægjanlegur rekstrargrundvöllur. Ég hef miklu meiri trú á því, að þessir aðilar, sem árum saman hafa byggt upp sín samtök, hafa áratugareynslu í þessum málum, verði færari og sterkari að ráða fram úr þeim vanda, sem að höndum kann að bera, heldur en stjórnskipuð 18 eða 19 manna n. Hvað hráefnisöflun til fiskvinnslustöðvanna viðvíkur, tel ég, að einnig liggi ljóst fyrir, hverra úrbóta þar er þörf. Versnandi afkoma hraðfrystiiðnaðarins í heild hyggist ekki einungis á verðfalli afurðanna erlendis og hækkuðum tilkostnaði innanlands, heldur einnig og ekki sízt á síminnkandi hráefni, sem hraðfrystihúsin hafa fengið til úrvinnslu.

Hér á Alþ. hefur það greinilega komið fram, bæði nú í vetur og einnig á síðasta ári, að nauðsyn bæri til, að til kæmi sérstök fyrirgreiðsla stjórnvalda í sambandi við endurnýjun hinna smærri fiskibáta, sem standa undir hráefnisöflun til fiskiðnaðarins. Og þó að fjárhagslegur rekstrargrundvöllur þessara báta hafi óneitanlega verið bættur verulega nú á þessu ári, tel ég, að jafnhliða verði að auka starfsskilyrði hans. Þegar útfærsla landhelginnar átti sér stað í 12 mílur, hygg ég, að þeir, sem að því stóðu, hafi haft tvennt í huga: í fyrsta lagi að bægja erlendum skipum frá veiðisvæðum innan 12 mílna markanna og í öðru lagi, að Íslendingar sjálfir nytjuðu þau veiðisvæði, sem innan þessara marka eru, á þann hátt og með þeim veiðarfærum, sem hagkvæmast og arðvænlegast getur talizt á hverjum stað og á hverjum tíma, þó að sjálfsögðu þannig, að ekki yrði um ofveiði eða rányrkju á miðunum að ræða eða eyðileggingu þeirra.

Á undanförnum árum hefur þessi mál nokkrum sinnum borið á góma hér á Alþ. En því miður hefur þar sýnzt sitt hverjum. Ég tel, að hv. Alþ. verði nú þegar, áður en þessu þingi lýkur, að komast að niðurstöðu um, hvernig fiskimiðin verði bezt nýtt og hvaða veiðarfæri sé arðvænlegast að nota til öflunar nauðsynlegs hráefnis fyrir fiskiðnaðinn. Náist ekki samstaða um þetta, tel ég mikla hættu á, að enn frekari samdráttur sé fram undan í fiskiðnaðinum, sem óneitanlega mun hafa í för með sér minnkandi gjaldeyrisöflun og verulegan samdrátt í atvinnu bæði sjómanna og verkafólks víða um land. En ég ætla ekki að ræða þetta frekar hér við þetta tækifæri, þar sem ég á von á, að málið komi til umr. hér í þessari hv. d., áður en langt um líður.

Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir, að fiskimálaráð hafi forgöngu um markaðsrannsóknir og skipulegar aðgerðir til öflunar nýrra, markaða fyrir sjávarafurðir. Ég er alveg sammála hv. flm. um, að þarna er sérstakra aðgerða þörf. En ég er þeim ekki sammála um, að beztum árangri muni verða náð í þessum efnum með stofnun nýrrar, fjölmennrar og stórrar nefndar. Mér sýnist, að hinir réttu aðilar til að vinna að þessum málum séu forustumenn hinna ýmsu hagsmunasamtaka og útflutningsfyrirtækja sjávarafurða, hver á sínu sviði. Margir þeir menn, sem veita þessum fyrirtækjum forstöðu, hafa áratugareynslu að baki sér í þessum efnum, en eru að sjálfsögðu einhæfðir hver við sitt starfssvið. Auk þess tel ég, og á það legg ég áherzlu, að þótt nú sé talað um fækkun sendiráða, beri að stefna að því að staðsetja viðskiptafulltrúa í öllum helztu viðskiptalöndum okkar, þar sem íslenzkar sjávarafurðir eru seldar, og verði verksvið þessara erindreka fyrst og fremst að fylgjast með markaðsmálum hver á sínu svæði og vinna að öflun nýrra markaða fyrir íslenzkar sjávarafurðir og annan útflutning okkar. Hlýtur það að liggja í hlutarins eðli, að þessir fulltrúar mundu á hverjum tíma hafa náið samband bæði við utanr.- og viðskmrn. og einnig og ekki síður við þau sérhagsmunasamtök, sem annast útflutning íslenzkra afurða. Ég er alveg sannfærður um, að mun árangursríkara væri að fara einhverja slíka leið heldur en stofnun nefndar. En eins og ég sagði áður, er ég einnig sammála hv. flm. frv. um það, að þarna þurfi nokkurt átak til, þó að ég telji ekki þetta væntanlega ráð vera þann aðila, sem við því máli á að taka.

Herra forseti. Ég tel mig í stórum dráttum hafa gert grein fyrir, hvers vegna ég er andvígur því frv., sem hér liggur fyrir. Ég hef enga sannfæringu fyrir, að það mundi verða sjávarútveginum eða fiskiðnaðinum til framdráttar, nema kannske síður væri, og árangri í þessum efnum megi ná að öðrum leiðum og það sé margt frekar, sem gera þurfi útgerðinni í landinu og fiskvinnslustöðvum til hagsbóta, heldur en stofna til nýrrar, stórrar nefndar eða ráðs, sem á að verða aðallega, eftir því sem hv. frsm. sagði hér áðan, til gagnasöfnunar í sambandi við afkomu útvegs og afkomu útflutningsins. Ég mun af þessari ástæðu greiða atkv. gegn málinu hér við 2. umr.