07.03.1968
Neðri deild: 70. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

61. mál, Fiskimálaráð

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal að sjálfsögðu verða við því að vera eins stuttorður og ég mögulega get. En ég vonast til, að menn sjái í gegnum fingur sér, þó að ég noti nokkurn tíma til að svara því, sem ég þarf beinlínis að svara.

Við umr. hér á þriðjudaginn lýsti ég afstöðu minni til málsins og hvers vegna ég væri andvígur frv. Ég gerði það vegna þess, að ég taldi það engum tilgangi þjóna, eins og það væri lagt hér fyrir d. og sett upp. Ég taldi, að þeir aðilar, sem með þessi mál færu, væru í gegnum áratuga reynslu miklu færari um það að sjá fyrir þessum málum heldur en þó að væri stofnað nýtt 18 manna eða 19 manna ráð, samsett úr mjög ólíkum hagsmunahópum og ólíkum aðilum, og ég hygg, að við a. m. k. þessir þrír þm., sem hér höfum talað í þessu máli, þekkjum nokkuð samkomulag og fundarhöld í slíkum fjölmennum ráðum, þar sem ólíkir hagsmunir mætast. Það, sem gerði, að ég var harðorður um þetta mál nú og dómharður, — það er alveg rétt, ég gerði það alveg viljandi, — það er vegna þess, að í ræðum flm. frv., sérstaklega 1. flm. þess, hafa komið upplýsingar um allt annan tilgang en frv. er ætlað, eins og það var lagt fyrir þessa hv. d. Það var það, sem gerði mig harðorðan og dómharðan um það, að tilgangurinn með því virðist vera allt annar en þar er gert ráð fyrir.

Hv. 4. þm. Vestf. sagði, að ég mundi hafa misskilið ummæli hans um það, að hann ætlaðist til, að þarna yrðu lagðar niður einhverjar stofnanir. Ég held, að það sé ákaflega erfitt að lesa annað út úr hans orðum, þegar hann telur, að eigi að leggja þessar fjölmörgu stofnanir niður, sem hafa á undanförnum árum verið að mála fjandann á vegginn. Er það reikniskrifstofa sjávarútvegsins, sem hefur verið að mála fjandann á vegginn? Er það ekki stjórn Landssambandsins, sem er ávallt ábyrg gagnvart ríkisvaldinu og flytur þessi skilaboð, sem þangað hafa verið flutt, um afkomu sjávarútvegsins? Þetta er rætt á aðalfundum L. Í. U., stefnan mótuð þar, og það er stofnunin í heild, og stjórnin, sem ber ábyrgð á þessu, en ekki reikniskrifstofan. Það hlýtur þess vegna að vera átt við hana, átt við stofnunina í heild, sem á að leggja niður en ekki þess einföldu reikniskrifstofu, sem ég held að sé nú hvorki fugl né fiskur, því að menn hafa almennt ekki sent henni sína reikninga. Hún hefur verið óvirk. Hún er kannske lögð niður af sjálfu sér.

Hver er sá sameiginlegi aðili fiskkaupenda? Hvaða reikniskrifstofu hafa fiskkaupendur til þess að tjá ríkisvaldinu sína afkomu? Það er hver stofnun fyrir sig, sem gerir það. Hraðfrystiiðnaðurinn gerir það, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda gerir það, Sölusamlag skreiðarframleiðenda gerir það, hver fyrir sig. Það er mér vitanlega ekki nein sameiginleg stofnun, sem markar línuna og er ábyrg gagnvart ríkisvaldinu, þannig að það er ekki hægt að skilja ummæli hv. þm. öðruvísi en það eigi að leggja niður þessar umræddu stofnanir, þannig að ég tel mig ekki hafa á nokkurn hátt hvorki rangtúlkað mál hans né misskilið það. Ég tel það liggja alveg ljóst fyrir.

Svo að ég fari út í það, sem hv. 1. flm. sagði hér við 1. umr. um það, þegar frv. gerir ráð fyrir, að fiskimálaráð, eins og ég hef sagt áður, sé ráðgefandi, eigi að gera ályktanir og till., þá sagði hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, um tilganginn: „Það er í fyrsta lagi að sjá um uppbyggingu fiskiskipastólsins, í öðru lagi um uppbyggingu fiskvinnslu- og fiskiðnaðarfyrirtækja“ — og í þriðja lagi kemur hann inn á markaðsmál. Það er ekki verið að tala um, að það eigi að vera ráðgefandi eða gera ályktanir og till. Það á bara að sjá um þetta fyrir menn. Þetta er prentað hér í þskj., og getur hver þm. kynnt sér það, sem vill. Þetta stakk mig ákaflega illa. Ég lét það kyrrt liggja áðan, vegna þess að ég taldi, að það, sem hér hefur komið fram, væri nægilegt til þess að gera greinarmun á efni frv. og því, sem það sjálft boðar. Og ég fer ekkert dult með það, ef ætti að fara að stofna fiskimálaráð með þessum tilgangi, eins og fram hefur komið, sérstaklega hjá hv. 1. flm., þá mundi ég telja hættulegt fyrir uppbyggingu sjávarútvegs, ef það ætti að skipa eitt ráð, sem ætti að stjórna öllu, hvað þá ef það ætti að sjá um þetta allt saman fyrir þá aðila, sem í það vilja leggja.

Það er mikið talað um, að það eigi að móta heildarstefnuna. Ég gerði grein fyrir skoðun minni á því máli hér s. l. þriðjudag. Ég tel, að það sé allt önnur aðstaða að móta nokkra ákveðna heildarstefnu í sjávarútvegsmálum heldur en í öðrum iðnaðarmálum. Ég minntist aldrei á iðnþróunarráð, eins og hv. 4. þm. Vestf. taldi að ég hefði gert. Ég sagði bara, að það væri allt önnur aðstaða hjá iðnaðinum almennt, hann vissi fyrir fram um það hráefni, sem þyrfti að vinna úr, miðaði sínar vélar og sinn rekstur allan við það, því að þar er hægt að gera áætlun. En enginn veit um áramót, hve mikill afli kemur á land, hvorki af bolfiski né síld. Það verður engin slík heildarstefna mótuð. Þetta verður að fá að þróast. Þetta er áhættuatvinnuvegur. Menn leggja í þetta bjartsýnir um áramót án þess að vita nokkurn tíma, hve mikið aflamagn þeir fá yfir árið eða hver afkoman verður, þannig að það að ætla að fara að móta heildarstefnu fyrir fram, ákveðna heildarstefnu, það er hlutur, sem ég hygg, að þeir, sem í þessu standa, telji sér ákaflega erfitt að gera.

Ég kom nokkuð inn á markaðsmálin hér s. l. þriðjudag og sagði þar alveg réttilega, eins og ég meina, að það væri að mínum dómi mál, sem þyrfti athugunar og endurskoðunar við. En ég tel, að það eigi að fara öðruvísi að því heldur en að stofna nýtt, stórt og fjölmennt ráð til þess. Ég tel, að þar eigi að standa að fiskútflytjendur með viðskmrn., utanrrn. og sendiráðin á bak við sig. Og ég tel, að það þurfi að auka þjónustuna í sambandi við útflutninginn frekar en draga hana saman, þannig að í mörgum markaðslöndum vantar viðskiptafulltrúa eða einhvern aðila, sem er þar staðsettur allt árið fylgist með málum og getur gefið upplýsingar. Ég tel, að þannig eigi að auka þjónustuna í sambandi við markaðsmálin og markaðsleitina, en ekki með stofnun ráðs, sem sæti hér í Reykjavík og væri á fjölmennum fundi einu sinni til tvisvar sinnum á ári að velta málunum fyrir sér. Ég tel, að út úr því mundi lítið koma.

Hv. 5. þm. Vestf. kom hér inn á í þessu sambandi, að öðruvísi mundi hafa farið með grásleppuhrogn og annað slíkt og beina hefði átt meira magni af hráefninu í saltfiskframleiðsluna heldur en gert var. Það er enginn vandi í dag að segja þessa hluti. En ég dreg það mjög í efa, að fiskimálaráð, þó að það hefði verið stofnað fyrir 2–3 árum, hefði séð fyrir hlutina eins og þeir hafa þróazt, — ég dreg það mjög í efa. Það er vitað, hvernig fór með grásleppuhrognin. Það varð offramleiðsla á þeim, ekki einungis hjá okkur, heldur hjá öðrum þjóðum, sem yfirfylltu markaðinn og felldu verðið á þessu, og kom þar einnig fleira til.

Varðandi saltfiskinn spyr ég: Þessir menn, sem hér hafa haldið því fram, að það eigi að vera nefnd og ráð hérna í Reykjavík, sem þar eigi að stjórna málunum, halda þeir virkilega, að þeir menn, sem í þessu standa, hafa hætt bæði fjármunum sínum og eignum í þennan atvinnurekstur, fylgist ekki með, hvenær er bezt að framleiða þessa vöruna og hina vöruna? Ég er sannfærður um, að menn sjá það núna vegna samdráttarerfiðleika, sem hafa orðið hjá hraðfrysta fiskinum og í framleiðslu á honum, að það verður meiri saltfiskframleiðsla nú í vetur, ef afli kemur á land, heldur en áður. Ég er alveg sannfærður um það. Það er hægt að selja meira magn en hefur verið gert. Það er búið að kanna það, að verðið er ekki fallandi, a. m. k. eins og er, og saltfiskurinn gefur sennilega meira nú í dag en hann hefur gefið áður. Og þessir menn, sem í þessu standa, vita það manna bezt, hvernig þeir eiga að haga sínum málum. Þeir þurfa ekki að sækja sín ráð til stjórnskipaðrar nefndar hér í Reykjavík. Það er ágætt að eiga aðgang að upplýsingum og öllu slíku. En ég tel, að það sé fyrir hendi hjá þeim sölusamtökum, sem með þessi mál fara, þannig að að því leyti er alveg óþarfi að stofna til þeirrar n. og þess ráðs, sem hér er lagt til að gert verði.

Ég skal svo ekki, herra forseti, misnota aðstöðuna meira, en láta máli mínu lokið.