19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. Ég tel, að hér sé hreyft miklu nauðsynjamáli, sanngirnismáli. Það er vitað, að það fjármagn, sem hér er um að ræða og hefur runnið að nokkrum hluta í Byggingarsjóð aldraðs fólks, kemur svo að segja frá öllum landsmönnum. Því er safnað saman í gegnum happdrættisstarfsemi um allt land, og það er því mjög eðlilegt, að allir landsmenn geti átt kost á því, þeir sem vilja ráðast í framkvæmdir á þessu sviði og byggja fyrir gamla fólkið, að fá þar nokkra fyrirgreiðslu úr þessum sjóði. Hins vegar er því ekki að neita, að löggjöfin um byggingu fyrir aldrað fólk er þannig, að það mun reynast mjög erfitt fyrir velflesta staði í landinu að byggja samkv. þeim lagaákvæðum sérstakar íbúðir fyrir gamla fólkið, en miklu meira mun verða um hitt, að byggingarnar fyrir það verði í formi elliheimila eða dvalarheimila. Mér er kunnugt um, að það eru ýmsir aðilar, t. d. á Austurlandi, sem sótt hafa um það á undanförnum árum að fá nokkra lánsfyrirgreiðslu til þess að koma upp elliheimilum, en þeir hafa ekki getað fengið það. Eins og kunnugt er, þá er okkar löggjöf þannig, að það er ekki gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram neinn hluta til byggingar elliheimila eða dvalarheimila. Ég teldi, að það væri mjög eðlilegt, að sú skylda hvíldi á ríkinu að leggja svipað framlag til slíkra bygginga og er nú til sjúkrahúsabygginga, og það mun ekki af veita, ef hægt á að vera að koma upp þeim elliheimilum, dvalarheimilum, sem virkilega er þörf á. En með því að breyta l. um Byggingarsjóð aldraðs fólks á þann hátt, sem lagt er til í þessu frv., mundi ýmsum stöðum gefast væntanlega kostur á því að fá allt að 20% að láni úr þessum sjóði til sinna framkvæmda. Þetta tel ég spor í rétta átt, þó að tvímælalaust þurfi hér meira til að koma. Í Neskaupstað hefur verið rekið elliheimili um allmörg ár og þar hafa verið uppi ráðagerðir um að ráðast í viðbótarbyggingu, en lánsmöguleikar hafa verið af svo skornum skammti, að menn hafa þar hikað við að ráðast í framkvæmdirnar.

Ég vil sem sagt lýsa yfir fylgi mínu við þetta frv. og tel, að þar sé stefnt í rétta átt, þó að ég vilji einnig láta það koma fram, að ég tel, að hér þurfi að gera talsvert mikið meira en lagt er til í þessu frv., til þess að hægt verði á viðunandi hátt að leysa þau mál, sem hér er fjallað um. En sem sagt, ég efast ekki um það, að við Alþb.-menn munum styðja þetta frv.