11.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið í þessar umr., en vil þó segja þetta: Hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, lagði höfuðáherzlu á það í ræðu sinni hér áðan, að Morgunblaðið og fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. í útvarpsráði hefðu lýst því yfir, að listi Hannibals Valdimarssonar í Reykjavík væri framboðslisti kommúnista, og fráleitt væri því að greiða honum atkv. í þeim tilgangi að hnekkja gengi Alþb. Þessi ummæli hafa nú rækilega sannazt. Alþb., sem afneitaði I-lista Hannibals Valdimarssonar fyrir kosningarnar, heimtar nú að fá uppbótarþingsæti út á þennan voðalega lista.

Kjarni þessa máls er svo auðvitað það, sem forustumenn Alþb. sögðu sjálfir um I-listann. Þeir sóru fyrir hann og báðu þá, sem á honum voru, aldrei þrífast. Þeir færðu rök að því, að Ilistinn gæti ekki talizt framboðslisti Alþb., hvorki samkv. flokksreglum þess, Alþb., né heldur samkv. landslögum.

Nú heldur hv. 6. þm. Reykv. því fram, að þessi sami listi geti vel hafa verið listi Alþb. samkv. landslögum, þótt hann væri það ekki samkv. flokkslögum Alþb.! Það er auðséð af þessum ummælum hv. 6. þm. Reykv., að mikið stríð hefur geisað milli holdsins og andans innan Alþb. undanfarna mánuði síðan alþingiskosningunum lauk.

Það, sem gaf mér fyrst og fremst tilefni til þess að taka hér til máls, var sú staðhæfing hv. 6. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar, að við fulltrúar Sjálfstfl. í útvarpsráði hefðum viðurkennt l-listann sem framboðslista Alþb. Af þessu tilefni vil ég aðeins taka þetta fram:

Í fyrsta lagi lá engin ósk fyrir útvarpsráði frá Hannibal Valdimarssyni og I-listanum 19. maí s.l., þegar útvarpsráð tók afstöðu til þátttöku I-listans í sjónvarpsumræðum.

Í öðru lagi: Björn Th. Björnsson, fulltrúi Alþb. í útvarpsráði, lagði hins vegar til á þessum fundi 19. maí í útvarpsráði, að lista Vésteins Ólasonar o.fl. verði veitt aðild að framboðsfundi í sjónvarpssal.

Í þriðja lagi: Þessi till. Björns Th. Björnssonar var afgreidd með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Með því að Hannibal Valdimarsson telur sig í framboði fyrir Alþb. og það er viðurkennt af landskjörstjórn, enda hefur Hannibal Valdimarsson ekki farið fram á sértíma í kosningaútvarpinu, tekur útvarpsráð fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessi till. til rökst. dagskrár var samþ. í útvarpsráði með 6:1 atkv., þ.e.a.s. fulltrúa Alþb., Björns Th. Björnssonar.

Í fjórða lagi: Í tilefni af ummælum hv. 6. þm. Reykv. hér áðan skal það tekið fram, að bæði formaður útvarpsráðs, Benedikt Gröndal, og varaformaður útvarpsráðs, Sigurður Bjarnason, voru fjarstaddir þennan fund og börðust hinni góðu baráttu í kjördæmum sínum vestur á Fjörðum og á Snæfellsnesi, þannig að við tókum ekki þátt í þeim fundi, sem hv. þm. vitnaði til.

Þetta vildi ég, að kæmi fram í tilefni af ummælum hv. þm., Magnúsar Kjartanssonar.

Að lokum vil ég segja þetta: Hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, lét líta svo út í síðustu kosningum, að hann berðist hetjulegri baráttu gegn áhrifum kommúnista, sem hann kallaði „litlu, ljótu klíkuna“. Nú virðist mörgum sem hetjusvipurinn sé að mestu af honum runninn. Hannibal Valdimarsson er hins vegar sjálfur runninn inn í þessa „litlu, ljótu klíku“ og hvílir nú í náðarfaðmi Magnúsar Kjartanssonar. Verður í bili ekki séð, hvorum þeirra tveggja líður betur eða verr í þeim faðmlögum. En allir ættu að geta verið sammála um það, að hvorugur leikur þar hetjuhlutverk.