25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., er 164. mál hv. d., á þskj. 376, um breyt. á l. nr. 49 20. apríl 1963, um byggingarsjóð aldraðs fólks. Í heilbr.- og félmn., sem ég á sæti í, skrifaði ég undir nál. með fyrirvara, þar sem ég taldi, að með því að samþykkja þetta frv. óbreytt, væri upprunalegur tilgangur l. að engu eða litlu gerður, sé litið á það fjármagn, sem sjóðurinn hefur til umráða. Að hinu leytinu tel ég það eðlilegt, að í l. felist heimild til að lána til byggingar dvalarheimila, sé ekki eftirspurn eftir því fjármagni, sem sjóðurinn hefur á hverjum tíma til útlána til bygginga. 2. gr. l. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hlutverk sjóðsins er að stuðla með lánveitingum að því, að byggðar verði hentugar íbúðir fyrir aldrað fólk.“

Og í grg., sem þessu frv. fylgir, segir svo, með leyfi forseta:

„Með l. um Byggingarsjóð aldraðs fólks var stefnt að því að koma á fót sjóði, sem lánað gæti til byggingar hentugra íbúða fyrir aldrað fólk. Var m. a. haft í huga, að með byggingu slíkra íbúða yrði gamla fólkið síður slitið úr tengslum við það umhverfi, sem það hefði lifað og starfað í meginhluta starfsævi sinnar.

Er óhætt að fullyrða, að með setningu laga þessara hafi verið stigið stórt spor fram á við, til mótunar nútímalegri þjónustu en áður þekktist hér á landi fyrir aldrað fólk.“

En með þessari breytingu, sem hér er lagt til að verði á l., mundi sem sagt þessum upprunalega tilgangi l. vera alveg breytt og þess vegna þótti mér rétt að koma með þá brtt., sem er á þskj. 418 og er á þessa leið:

Við 2. gr. bætist og á eftir orðunum „öldruðu fólki“ í sömu gr. komi: enda skulu lánveitingar til íbúða sitja fyrir lánveitingum til dvalarheimila, geti sjóðurinn ekki fullnægt eftirspurn eftir lánum.

Ég verð nú að játa það, að þegar þetta var rætt í félmn. hafði ég ekki athugað þetta mál sem skyldi, og þegar ég fór að velta þessu fyrir mér í morgun og lesa betur grg., sá ég það, að í raun og veru hefði þurft og verið eðlilegt að breyta þessu enn og kann að vera, að ég freistist til þess að koma með aðra brtt. við 3. umr. En í grg., sem fylgir þessu frv., segir með leyfi forseta:

„Mótuðu sjómannasamtökin sjálf þá stefnu að óska eftir áframhaldandi leyfi til rekstrar happdrættis DAS næstu 10 árin a. m. k. Enn fremur, að ágóðanum yrði skipt, þannig að þær tekjur, sem öfluðust á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, um það bil 70% rynni til áframhaldandi byggingar Hrafnistu, og er þeim áfanga yrði lokið, væri hafizt handa að nýju á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar. Hins vegar skyldu 30% tekna happdrættisins fara sem óafturkræft framlag til styrktar byggingu dvalarheimila í þéttbýliskjörnum víðs vegar um landið.“

Það kemur fram í þessari grg., að viðskipti DAS við landsbyggðina utan aðalþéttbýliskjarnans gefa í raun og veru um 30% af heildartekjum happdrættisins. En í þennan sjóð fara 40% af þeim tekjum, sem af happdrættinu koma hvert ár. Þess vegna væri ekkert óeðlilegt, ef sjóðurinn fær ekki fjármagn eftir öðrum leiðum en þessari einni, að landsbyggðin utan þessa svæðis sæti fyrir 3/4 hlutum af þessum tekjum, og það kann að vera, að ég freistist til þess að koma með þá brtt. hér við 3. umr.