25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að þakka hv. heilbr.- og félmn. fyrir góðar undirtektir við þetta frv., sömuleiðis þeim hv. þm., sem tóku til máls við 1. umr. málsins og lýstu yfir stuðningi sínum við það. Ég vil einnig taka undir orð hv. síðasta ræðumanns, er hann var að gagnrýna þá brtt., sem hér hefur komið fram. Að vísu má segja sem svo, að hlutverkum okkar sé nokkuð skipt, hlutverki mínu og hv. 5. þm. Norðurl. e., þegar hann leggur á móti því, að ég sem þm. Reykv. legg til, að ákveðið fjármagn, sem aðeins kæmi til nota fyrir Reykjavík á næstu árum, verði flutt, til þess að það nýtist betur úti um land, en hann leggur aftur á móti til, að það verði flutt til Reykjavíkur og nýtt þar. Ég er nú samt ekki að væna hann um það, að þetta hafi vakað fyrir honum, heldur sé einhver misskilningur fólginn í skilningi hans á frv. Ég held, að hv. síðasti ræðumaður hafi skýrt þetta ákaflega vel, og ég þóttist hafa gert það líka við framsögu málsins, en ég hef hins vegar skilið það á hv. 5. þm. Norðurl. e., að hann hafi ekki þá getað verið við þessar umr. Það kom fram þá í framsögu minni, að þetta fé, sem hefði þegar runnið til Byggingarsjóðs aldraðs fólks, hefði verið og væri bundið þar enn og það væri aðeins einn umsækjandi um lán úr þessum sjóði og það væri Reykjavíkurborg. Við tökum það skýrt fram í okkar frv., að við erum ekkert að leggja til, að úr þeim möguleikum verði dregið, að Reykjavíkurborg og e. t. v. Akureyri, — ég sé ekki fram á, að það verði fleiri aðilar á næstu árum, sem geti það, — reisi hentugar íbúðir einstakar fyrir aldrað fólk og fái lán úr sjóði þessum. Við erum ekki að leggja það til. Hins vegar tók ég það skýrt fram, að við teldum, að þetta fé mundi nýtast betur með því að veita því til lána til byggingar dvalarheimila, sem nú þegar eru á mörgum stöðum í undirbúningi. Við heyrðum það hjá hv. frsm. heilbr.- og félmn., að það er mikill áhugi í Borgarfirði og nærhéruðum fyrir slíkri byggingu. Og ég get líka skýrt frá því, að á Akranesi hafa systursamtök þeirra, sem standa að happdrætti DAS og Hrafnistu, dvalarheimilinu sjálfu, þegar hafið undirbúning að byggingu slíks heimilis, og ég hef einmitt bæði þeirra vegna og Akureyringa og Siglfirðinga bent á það, að það væri nauðsynlegt fyrir þá að tengja sína framkvæmd okkar framkvæmdum og nafninu, vegna þess að þessi samtök eiga kannske vegna nafnsins sjálfs möguleika á lánum, sem engir aðrir aðilar eiga, en það er úr einkasjóðum sjómannastéttarinnar sjálfrar, lífeyrissjóði togarasjómanna og undirmanna á farskipum, en sá sjóður hefur komið mjög verulega til hjálpar samtökunum hér í Reykjavík við byggingu Hrafnistu.

Ég hefði álitið það og tók reyndar fram í minni framsöguræðu við 1. umr. málsins, að það, sem að var stefnt með upprunalegu l. um Byggingarsjóð aldraðs fólks, væri auðvitað mjög æskilegt og ég styð það heils hugar. Við eigum að reyna að halda því fólki, sem eldist, í því umhverfi, sem það hefur alizt upp í og starfað í, eins lengi og við getum, og við erum ekki að leggja neinn hemil á, að svo verði. Hins vegar er þörfin svo brýn hjá okkur. Okkur vantar í dag, miðað við þá þörf, sem við vitum um, 500 ellivistarpláss víðs vegar um landið og við þurfum að gera stórt átak í þessum málum, og m. a. með því að gefa ákveðnum stöðum, samtökum, einstaklingum, sveitarfélögum kost á því að fá þessi lán úr þessum sjóði, þá leysum við gífurlegt fjármagn hjá þessum sömu aðilum. Við þekkjum þetta orðið nú þegar í Reykjavík í sambandi við byggingu Dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Við þekkjum það líka af þessum stöðum úti um land, sem ég minntist þegar á, t. d. Húsavík, Akureyri, Akranesi og reyndar, eins og kom fram í framsöguræðu hv. frsm. heilbr.- og félmn., úr Borgarfirði líka, og ég vil einmitt að bæði geta einstaklinganna og félaganna, sem þarna eru fyrir hendi, verði virkjuð og að þetta nafn verði nýtt ásamt þeim styrk, sem þessir aðilar fá úr þessum sjóði. M. a. og kannske ekki sízt af þessari ástæðu er frv. flutt, a. m. k. vegna þessa var ósk sjómannasamtakanna hér syðra borin fram á sínum tíma við hv. Alþ., þótt þá væri ekki farið inn á þá leið, sem við höfum nú lagt til, ég og meðflm. minn að þessu frv.