25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls lýsti ég fylgi mínu við málið. Ég vil endurtaka það nú, og ég vil segja það út af brtt. frá hv. 5. þm. Norðurl. e., að ég tel, að hún skaði málið og færi það inn á það svið, sem það var í áður og gerði það allt of þröngt og hefur gert það að verkum, að l. hafa ekki verið framkvæmd til þessa.

Það er mikil þörf á því að byggja dvalarheimili fyrir aldrað fólk, og ég er sammála þeim hv. síðustu ræðumönnum, flm. málsins, að einmitt með þessari breytingu á lögunum verður farið að framkvæma þau og opna leið fyrir dreifbýlið til að njóta þeirra. Ég vil því eindregið mæla með því, að frv. verði hér samþ. óbreytt og tel, að það muni leysa vandamál, sem margir eru nú að fást við, þ. e. að koma upp dvalarheimilum, sem þeir hafa ekki getað gert vegna fjárskorts. En þetta frv. mundi breyta málinu og styðja að því, að dvalarheimili verði reist.