25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Einhver hv. þm. lét svo ummælt áðan, að hv. 5. þm. Norðurl. e., sem hefur flutt hér brtt. á þskj. 418, mundi hafa misskilið eitthvað í þessu máli. Nú vil ég ekkert fullyrða um það eða segja um það, hvort þessi hv. þm. kunni að hafa misskilið eitthvað í málinu. En ég er ekki alveg viss um það, að ég og aðrir, sem erum nú að greiða atkv. um þetta frv., höfum fyllilega gert okkur grein fyrir, hvernig þessi lög frá 1963 verka í framkvæmd. Og vegna þess að ég tel mig eiginlega ekki nógu kunnugan málinu eða réttara sagt framkvæmd málsins, vildi ég gera hér að umræðuefni eitt eða tvö atriði í þessu máli og það í von um, að ég verði upplýstur af mér fróðari mönnum um það, hvernig þau atriði séu eða muni verða í framkvæmd, sem ég átta mig ekki fyllilega á. Og verð ég að segja það, að það má e. t. v. heita vorkunnarmál, þó að ekki átti sig allir á þessu fyllilega, þar sem l. eru, að því er upplýst hefur verið, ekki komin til framkvæmda, þannig að þessi byggingarsjóður aldraðs fólks hafi eiginlega ráðstafað fé.

Það stendur hér í l. frá 1963, að hlutverk sjóðsins sé að stuðla að því með lánveitingum, að byggðar verði hentugar íbúðir fyrir aldrað fólk. Í 3. gr. er svo fjallað um tekjur sjóðsins og í 4. gr. um það, hverjir skuli annast rekstur hans, og svo segir í 5. gr., að lán úr sjóðnum megi veita, gegn öruggum tryggingum, sveitarfélögum eða aðilum, sem sveitarstjórnir mæla með og takast á hendur að reisa íbúðir handa öldruðu fólki. Lán til einstaklinga til kaupa á íbúðum fyrir sjálfa sig má þó veita samkv. 6. gr. Og í 6. gr. segir, að heimilt skuli vera að verja hluta af fé sjóðsins til að lána einstaklingum, 67 ára og eldri, til kaupa á litlum íbúðum, sem gerðar séu sérstaklega við hæfi aldraðs fólks. En þegar það er gert, skuli sú kvöð hvíla á íbúðunum, að þær verði notaðar fyrir aldrað fólk, meðan lán hvíla á þeim. Í 7. gr. segir svo, að lán, sem veitt eru úr sjóðnum, megi nema allt að 50% af kostnaðarverði íbúðanna og vera tryggð með veði í íbúðunum og að heimilt sé að veita lánin á eftir eða samhliða veðlánum annars staðar frá, er nemi allt að 35% af kostnaðarverði íbúðanna. 8. gr. l. er um teikningar og um að umsækjandi sýni fram á, að hann hafi tryggt sér nægilegt fjármagn. 9. gr. er um setningu reglugerðar og 10. gr. um, að lög þessi öðlist þegar gildi. Þetta er í stuttu máli efni l. um byggingarsjóð aldraðs fólks frá 1963.

Ég var að lesa þetta yfir vegna ummæla, sem hér féllu áðan um það, að í þessum l. væru ákvæði um það, að þetta fé skyldi renna til — ja, byggða landsins utan Reykjavíkur, skildist mér. Það væri í þessum l. En ég get ekki fundið þetta ákvæði, og ef mér hefur sézt yfir það, vildi ég mælast til þess, að mér yrði á það bent.

Hitt er annað mál, eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði áðan, að það gæti verið ástæða til þess, að ákvæði þess efnis væru sett inn í l. Ef það er rétt, sem hann virtist einnig hafa fengið heimildir fyrir, að ákveðinn hluti af happdrættisfénu eða happdrættishagnaðinum, sem hér er aðallega byggt á, komi úr þessum landshlutum, væri það nokkuð við að miða, eins og hann sagði. En mér virðist, að það, sem hér er verið að fjalla um, sé ekki þetta, hve mikið eigi að renna af þessu fé til höfuðborgarsvæðisins, skulum við segja, og hvað til landsbyggðarinnar að öðru leyti. Það sé ekki það, sem l. fjalla um, og það sé ekki það, sem menn eru að tala um hér, heldur tæknilegt atriði í sambandi við húsnæði aldraðs fólks, þ. e. a. s. hvort heppilegra sé, að aldrað fólk safnist saman á stórum elliheimilum eða sé hjálpað til þess á einhvern hátt að eignast eða fá umráð yfir sjálfstæðum íbúðum, annaðhvort í námunda við elliheimili eða í sambandi við það, þó að þau yrðu annars staðar. Það er það, sem hér er um að ræða. Og ég verð nú að segja það alveg eins og það er, að ég er ekki svo fróður í þessum málum, að ég treysti mér til þess að skera úr um það, hvort muni reynast betur. En ég man það, að á því þingi, sem fjallaði um þessi mál fyrir nokkrum árum, var mikið um það rætt, að það væri nauðsynlegt að hjálpa gamla fólkinu til þess að fá umráð yfir íbúðum út af fyrir sig, og það var haft eftir fræðimönnum í þessum málum þá og haft fyrir satt, að svo væri. Og hvort fræðimenn um meðferð aldraðs fólks eru komnir á aðra skoðun nú, það skal ég ekki segja um. Hv. 9. landsk. þm. virtist nú telja, að reynsla frá Akureyri benti í þá átt, og það getur vel verið, að það sé rétt, ég rengi hann ekki um það, nema síður sé. Hann má vera þeim málum mjög kunnugur.

Nú veit ég ekki, hvað þeir menn hugsa, sem hafa staðið að því að setja þessa löggjöf og nú standa fyrir breytingum á henni. Ég veit ekki, hvað þeir hugsa eða hvað þeir hafa rætt sín á milli. En ég sé það, hvað í l. stendur og hvað í frv. stendur, sem hér liggur fyrir. Og ég sé það, að hér stendur í 2. gr. þessa frv., að í staðinn fyrir að sagt er nú í l., að hlutverk sjóðsins sé að stuðla að lánveitingum, til þess að byggðar verði hentugar íbúðir fyrir aldrað fólk, eigi nú að stuðla að því, að byggðar verði hentugar íbúðir eða dvalarheimili fyrir aldrað fólk. Nú langar mig til að spyrja í sambandi við þetta. Er hægt að skýra þetta ákvæði svo, ef menn það vildu t. d., að þetta fé, sem Hrafnista hefur verið byggð fyrir, það ágæta hæli, að það skili sér bara aftur á sama stað og verði notað til þess að byggja upp Hrafnistu áfram? Má skilja þetta svo, að það sé heimilt? Ég veit um menn, sem hafa verið þeirrar skoðunar, að það væri vandi að skipta þessu og að bezt væri að halda áfram að byggja upp Hrafnistu. Ég hef þekkt menn, sem hafa verið á þeirri skoðun, og það getur vel verið, að hún sé rétt. En það er ekki það, sem ég er að ræða, heldur hvort það væri hugsanlegt, að skilja mætti ákvæði þessa frv., sem hér liggur fyrir, á þá leið, að dvalarheimilið Hrafnista geti einnig fengið þetta fé, sem átti að verja til að byggja einstakar íbúðir fyrir aldrað fólk, eða hvort menn telja, að það sé útilokað samkv. l., að það geti orðið. En ef það væri svo, að skilja mætti þetta nýja frv. á þá leið, að það mætti skila fénu öllu aftur til Hrafnistu eða nota það til þess að halda áfram að byggja þar upp, þá er það a. m. k. ekki í samræmi við tilgang þeirra manna, sem eru hér að tala um það, að nú eigi að tryggja það með l., að nokkuð af þessu fé renni til að skapa gamla fólkinu í öðrum byggðum landsins heimili þar. Um þetta hefði ég gjarnan viljað fá upplýsingar.

Svo vil ég leyfa mér að benda á eitt í þessu sambandi, þar sem það telst vera rök með eða móti þessu frv. Það er svo, eins og hv. þm. hafa tekið fram að ýmis bæjarfélög og stærri sveitarfélög hafa hafizt handa um byggingu elliheimila eða undirbúning þeirra. Mörg önnur hafa ekki gert það, og þó að víða væri fullur hugur á að gera það, veldur því getuleysi, að það hefur ekki tekizt. En er það ekki hugsanlegt, að þó að lítið sveitarfélag og vanmáttugt í fjármálum geti ekki komið því við að byggja elliheimili, koma upp slíkri byggingu, sem því nafni má nefna, að þá gæti það e. t. v. notað sér aðstoðina hjá Byggingarsjóði aldraðs fólks til þess að koma upp svona einni, tveimur eða þremur íbúðum fyrir gamalt fólk. Er ekki þetta líka hlið á málinu, sem þarf að athuga?

Þetta, sem ég hef sagt, það eru nú bollaleggingar um málið, sem m. a. stafa af því, að ég er einn af þeim, sem það á við, sem einn hv. þm. sagði hér áðan, að þeir hefðu ekki kynnt sér þetta mál nógu rækilega á meðan byggingarsjóðslögin eru enn ekki komin til framkvæmda. Mig langar til að heyra þetta nánar upplýst, og ég hefði nú ekki verið fjarri því að álykta sem svo, að það væri heppilegt, að svona mál eins og þetta væri undirbúið af stofnun eða nefnd, áður en það væri lagt fyrir þing. En nú er 2. umr. þessa máls, og ég vil skjóta því til hv. 5. þm. Norðurl, e., hvort hann teldi ekki rétt eða væri fáanlegur til þess að draga till. sína til baka til 3. umr., líka vegna þess, að hann gerir ráð fyrir að þurfa að gera á henni breytingu og þá jafnframt mælast til, að hæstv. forseti veiti okkur nokkurn frest milli umræðna til þess að átta okkur betur á þessu máli, sem hér er um að ræða, og afla okkur vitneskju um þá reynslu af undirbúningi, sem hér kann að vera fyrir hendi.