25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Norðurl. e. (GíslG), hefur varpað fram nokkrum spurningum, sem ég skal fúslega reyna að leysa úr, svo framarlega sem mitt vit endist til.

Hann spurði m. a. um það, hvernig þessi lög verkuðu í framkvæmd. Áður en við komum inn á það, skulum við hafa í huga, eins og þegar er tekið fram í grg., sem fylgir frv., að þrátt fyrir lög þessi, sem eru nú búin að vera í gildi um nokkurra ára skeið, hefur Byggingarsjóður aldraðs fólks ekki lagt neitt fé til bygginga yfir aldrað fólk. Aðeins ein umsókn hefur borizt til sjóðsins frá Reykjavíkurborg, sem byggði á sínum tíma — fyrir tveimur árum, að mig minnir, — 22 íbúðir fyrir öldruð hjón, og eins og tekið er fram í grg., fellur lánsumsókn Reykjavíkurborgar í einu og öllu undir tilgang laganna.

Við höfum hins vegar bent á og reyndar kom það líka fram í ræðu hv. meðflm. míns að þessu frv., að þrátt fyrir þá brýnu þörf, sem er á því að útvega húsnæði hið bráðasta, hafa ekki fleiri aðilar farið út í það að byggja á þennan hátt, einfaldlega vegna þess, eins og kom fram í minni framsöguræðu, að slíkar byggingar eru svo miklu dýrari miðað við hvern vistmann en dvalarheimili. Það er þegar komin nokkur reynsla af því, hvernig slík dvalarheimili ættu að vera, hvaða stærð væri hentugust og þetta verður auðvitað líka að fara nokkuð eftir því, hvar þau eru byggð.

Vegna þess, sem hann kom inn á síðast í sinni ræðu, hvort lítil sveitarfélög og fátæk ættu ekki hugsanlega að geta fengið aðstoð úr þessum sjóði, vil ég segja, að vitaskuld eiga þau að geta það, enda ekkert, sem bannar það. Hins vegar er ég algerlega sammála því, sem kom fram hjá frsm. heilbr.- og félmn., að áður en við förum út í það að efna til slíkra bygginga í mörgum sveitarfélögum landsins, verður að taka fleira til athugunar en bara það, að þar sé eitthvað af öldruðu fólki. Við verðum að hafa í huga, að það sé þjónusta á staðnum fyrir þetta fólk. Ég álít það mjög óskynsamlegt, að slík heimili séu byggð þar, sem ekki er læknisþjónusta fyrir hendi. Það er stefnt að því, og það er skynsamlegt, að komið verði upp ákveðnum læknamiðstöðvum víðs vegar um landið, þar sem læknar með sérfræðikunnáttu á mörgum sviðum eru saman komnir, og það liggur beint við, að þeir eigi þess kost að stunda slíka ellisjúklinga, ef heimili fyrir þá er fyrir hendi á staðnum. Það er auðvitað ekkert bann við því, að hitt komi líka, en ég mundi sjálfur persónulega telja það óskynsamlegt á þessu stigi, þegar við horfum fram á þessa miklu þörf.

Ég sagði áðan og reyndar í minni framsöguræðu við 1. umr. málsins, að í dag vantaði 500 ellivistarpláss hér allt í kringum land. Ég þekki það frá Dvalarheimili aldraðra sjómanna. Hrafnistu, að síðustu árin hafa ekki verið þar færri en 200 umsóknir um vist víðs vegar að af landinu. Það hefur ekkert verið bundið við Reykjavík, eins og reyndar var tekið fram hér áðan í ræðu um elliheimilið í Skjaldarvík. Það er fólk á því heimili víðs vegar að af landinu. Ég veit, að nýlega hefur verið gerð könnun á því, að á Hrafnistu hér í Reykjavík eru í dag 90 einstaklingar, sem eiga lögheimili annars staðar en í Reykjavík, og við vitum það, að þar fyrir utan eru fjölmargir einstaklingar og hjón, sem komið hafa á síðustu 10–15 árum utan af landi og setzt að hjá börnum sínum hér í Reykjavík eða í kauptúnum og sveitarfélögunum í kringum Reykjavík og hafa öðlazt sveitfesti hér eða í nágrenni Reykjavíkur og eru komnir þarna til viðbótar, þrátt fyrir það, að þetta fólk hafi átt sitt starf og sitt líf í stöðum úti um land. Hins vegar vitum við það, að þróunin hefur verið sú í búferlatilflutningi landsmanna, að þeir hafa sótt hingað nokkuð strítt á undanförnum árum. Margt af þessu aldraða fólki á afkomendur sína hérna í nágrenninu og vill kannske frekar vera hér en á stöðum úti um land. Þetta er önnur hlið málsins, sem auðvitað ber að hafa í huga líka, en á Dvalarheimili aldraðra sjómanna, Hrafnistu, hefur aldrei manni verið vísað frá vegna sinnar búsetu. En af þeirri reynslu, sem forráðamenn þar hafa fengið á undanförnum árum, er það hins vegar alveg ljóst, að bygging dvalarheimila í kaupstöðum og kauptúnum úti um land verður að vera í sambandi við læknisþjónustu og jafnvel aðra þjónustu, og þar sem spítalapláss er fyrir hendi. Það er jafnvel mjög óskynsamlegt að fara út í það á þessum dvalarheimilum að reisa sérstakar sjúkradeildir, sem er mjög dýrt að setja á stofn, rekstrarkostnaður þeirra er mikill.

Hv. þm. spurði um það, hvort fræðimenn hefðu breytt um skoðun á því, að heppilegt væri að byggja sérstakar íbúðir. Ég held, að í þessum orðum mínum hafi ég nokkuð svarað því. Auðvitað hafa þeir ekki breytt um skoðun á því. Ég álít, að við þurfum að hafa 3 stig íbúða fyrir aldrað fólk. Fólk, sem búið er að koma frá sér börnum sínum, þarf að geta smækkað við sig, það þarf að fá minni íbúð, það þarf að geta fengið þjónustu í þeim íbúðum, ekki aðeins húshjálp, heldur læknisþjónustu. Þetta húsnæði þarf að standa einhvers staðar í nálægð elliheimila eða dvalarheimila, sem taka svo við þessu fólki á seinna stigi, þegar það getur ekki séð um sig sjálft, jafnvel með þessari þjónustu, og þá getur verið æskilegt, ef slík eining er nógu stór, að hafa sjúkradeild á staðnum til þess að taka við þessu fólki eða hjúkrunardeild og síðar sjúkradeild, þegar það getur ekki jafnvel einu sinni verið á slíku vistheimili, þótt ég hins vegar að fenginni reynslu álíti, að það væri betra að þetta væri í grennd við spítala, sem tæki við slíkum legusjúklingum inn á spítalann.

Við verðum að hafa í huga, eins og ég er búinn að margundirstrika, að við þurfum að gera stórátak, og það er hægt að gera stórátak, ekki bara með þessu fé, heldur eru líka lánsmöguleikar úr erfðafjársjóði til elliheimila. Það er hægt að fá lán til bygginga elliheimila úr erfðafjársjóði, þó að ég viti nú ekki eins og er, hvernig hans hagur stendur. En það, sem ég legg megináherzlu á, er að við náum inn gífurlegu starfi og miklu fé, sem þegar er fyrirheit um frá mörgum aðilum, ef þeir fá þessa hjálp, sem þetta frv. leggur til að verði heimilt að veita. Við erum ekki að draga úr hinu, við erum að leggja til að víkka þetta út, þannig að við náum þessum mikla krafti, sem liggur nú óbeizlaður, til þess að komast yfir þennan nauðsynlega áfanga okkar, sem er 500 ellivistarpláss alveg nú á næstunni eða á næstu árum.

Vegna þeirrar spurningar, sem hv. þm. lét koma fram um það, hvort samtökin, sem standa að byggingu Hrafnistu, mundu leita eftir láni úr þessum sjóði í framtíðinni, vil ég taka það fram, að til bygginga Hrafnistu fara nú 60% af tekjum happdrættisins. Í upphaflegu áætlununum um byggingu dvalarheimilis aldraðra sjómanna hér í Reykjavík var gert ráð fyrir byggingu íbúða fyrir aldrað fólk. Það hefur aldrei hvarflað að forráðamönnum þar að leita eftir fé til þess af öðru en sínum eigin hlut, sem þeir hafa til umráða, aldrei hvarflað að þeim. Og ég er sannfærður um — og ég geri ráð fyrir, að það verði tekið fyrir á þessu eða næsta ári hjá þessum samtökum, sjómannasamtökunum í Reykjavík og Hafnarfirði, — að það verður ákveðin bygging dvalarheimilis, ekki hér í Rvík og ekki við Hrafnistu, heldur hér einhvers staðar í nágrannakaupstöðum okkar eða jafnvel á Suðurnesjum, eða þá að gengið verði til samstarfs við Akranes. Eins og ég segi, er þetta óráðið enn þá, þrátt fyrir það, að farið verði í slíka framkvæmd, þá verður ekki af þeim samtökum leitað eftir láni úr þessum sjóði. Það hefur verið vilji þessara samtaka, frá því að þau mótuðu sínar skoðanir á þessu, eftir að þau komust yfir erfiðasta byrjunarhjallann í sambandi við byggingu Hrafnistu, þá hefur það verið þeirra skoðun, að það væri réttlátt, að ákveðinn tekjuhluti happdrættisins færi til sinna upprunalegu staða úti um land, og eins og segir í lögum um happdrætti dvalarheimilisins, þá hafa þessi samtök jafnframt leyfi til þess að styrkja slíka staði af sínum hluta. Og þegar þau verða eitthvað komin út úr sínum skuldbindingum, sem eru miklar í dag vegna hinna öru byggingarframkvæmda, þá er ég sannfærður um, að af þeim hluta, sem þau hafa til umráða, verður líka veittur styrkur til þeirra staða, sem að allra manna mati og þeirra, sem hafa yfirstjórn málanna, eru álitlegastir til framkvæmda á hverjum tíma.