25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 10. þm. Reykv. (PS), 1. flm. þessa máls, fyrir greinargóða ræðu, sem hann flutti hér áðan um sitt sjónarmið og reynslu í þessum málum. Mér er að sjálfsögðu kunnugt um það, að á dvalarheimilinu Hrafnistu og eins á dvalarheimilinu á Akureyri er fjöldi aldraðs fólks, sem þar hefur fengið athvarf úr ýmsum byggðarlögum, og er það vissulega þakkarvert, enda þakkað af þeim, sem eiga hlut að máli, að slíkt athvarf skuli vera til. Hins vegar er það náttúrlega svo, eins og hv. þm. kom að, að það hafa verið uppi ýmsar kenningar um það, hvernig bezt væri að koma fyrir aðstöðu fyrir aldrað fólk. Sumir eru kannske þeirrar skoðunar, að það sé bezt, að slík dvalarheimili séu fá, slíkir staðir séu fáir og þeim mun betur búnir, kannske aðeins í Reykjavík og á Akureyri og allra stærstu bæjunum og þeim mun betur búnir og með því móti muni það ganga bezt að leysa þetta mál á viðunandi hátt fyrir nógu marga. En hins vegar hafa líka verið þær skoðanir uppi, að þessi stóru dvalarheimili séu að vísu nauðsynleg, og alveg sérstaklega fyrir sjúkt fólk, að það sé hægt að koma því þangað. En jafnframt bæri að stefna að því að koma upp nokkrum heimilum, minni heimilum nokkuð víða, þar sem fólk gæti dvalið sem næst átthögum sínum, dvalarheimilum, sem minntu á heimili, eða jafnvel bara sérstökum heimilum, sérstökum íbúðum, sem hentuðu fyrir aldrað fólk. Ég hef oftar en einu sinni átt tal við einn mikinn áhugamann um þessi mál, sem hefur líka meiri reynslu en flestir aðrir í þessu landi um þessa hluti, og ég hef veitt athygli skoðunum hans og þeim hugmyndum um sérstakt kerfi, sem hann hefur í þessu máli.

Nú er það auðvitað æskilegt, að í grennd við slíkt dvalarheimili eða heimili aldraðs fólks, þar sem ekki eru beinlínis sjúkradeildir, sé læknir. Sem betur fer, þá er nú svo þrátt fyrir allt, að allvíða er nú læknir í kauptúnum eða a. m. k. á að vera þar, og ef slík dvalarheimili eða heimili aldraðs fólks eru í grennd við kauptún, a. m. k. stærri kauptún, eru alltaf miklar líkur til þess, að þar sé ekki mjög langt til læknis að leita.

Ég er að nefna þetta vegna þess, að ég er ekki viss um, að hið háa Alþ. sé eiginlega búið að marka sér afstöðu í þessu máli, og það er kannske varla von, því að menn, sem telja má sérfróða á þessu sviði, hafa ekki verið á einu máli um það og auk þess æskilegt fyrir þing og stjórn, að einhver reynsla sé fyrir hendi, eða slík reynsla verði til um stór og lítil elliheimili, þó að þau séu ekki mörg og einnig að leitað sé eftir reynslu af því fyrirkomulagi, að fólk búi út af fyrir sig í íbúðum, þar sem skilyrði eru til þess að njóta nálægrar hjálpar. Hitt er auðvitað alveg rétt, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði hér áðan, að sumt aldrað fólk er það veikt eða fatlað, að það verður beinlínis að vera á deild, sem jafna má við spítala.

Ég hef nú verið að ræða þetta m. a. vegna þess, að mér finnst þetta frv. ekki fjalla um það, í hvaða landshluta þessi sjóður eigi að renna, heldur sé það nú þetta spursmál, sem við erum eiginlega að fjalla um, gerð dvalarheimilanna, annars vegar dvalarheimili stór og smá, hins vegar íbúðir fyrir aldrað fólk.

Ég veitti því athygli, að hv. 10. þm. Reykv. svaraði ekki fyrirspurn minni um það, hvað hann teldi, að í lögunum fælist um það, hvað gera mætti við féð. Hann sagði bara, að forstöðumenn dvalarheimilisins Hrafnistu hefðu það alls ekki í huga að sækja um lán úr þessum sjóði til sinna framkvæmda, en jafnframt gat hann um, að hjá forustumönnum þar væru og hefðu verið uppi hugmyndir um að ráðast í framkvæmdir víðar á landinu en þegar hefur verið gert. Ég vil taka það fram, að ég hygg, að það mundi verða mjög vel séð, ef stjórn dvalarheimilisins færi að birta eitthvað af hugmyndum sínum um það, hvar hún muni hefjast handa annars staðar og á hvern hátt.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en ég mundi telja æskilegt, að tími yrði á milli 2. og 3. umr. til þess að átta sig nánar á þessu máli og vildi þá jafnframt spyrja, eins og ég gerði áðan, hv. 5. þm. Norðurl. e., hvort hann gæti ekki hugsað sér að taka till. sína aftur til 3. umr., enda gæti hann þá borið fram nýja till. með því sniði, sem hann gat um áðan, að á henni þyrfti að vera, ef allt væri tekið með, sem hann ræddi um.