25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins stutt aths. út af orðum síðasta ræðumanns. Ég mundi telja það nokkuð varasamt að ætla sér að fara að binda prósentvís ákveðinn hluta þeirra tekna, sem skapast af happdrætti DAS, og miða við ákveðið landsvæði. Ég byggi það ekki á því, að það séu líkindi til, að aðilar á því svæði, sem hefur til umráða og notkunar 60% af tekjum þess, mundu seilast eftir því að fá fé úr Byggingarsjóði aldraðs fólks. Hins vegar getur svo farið — og við skulum setja það dæmi upp þannig — að t. d. Suðurnes, Akranes, Borgarnes eða einhvern stað hér á Suðvesturlandi, þar sem mér þykir trúlegast að verði ráðizt í framkvæmdir næst af þessum samtökum, sem hafa byggt Hrafnistu, að þann stað, sem valinn yrði, vantaði eitthvert ákveðið fjármagn á ákveðnu stigi til þess að ljúka framkvæmd sinni. Ég mundi telja það vegna rekstrarins ákaflega skynsamlegt, að það væru heimildir til þess að leggja fram það fjármagn, sem fyrir hendi væri til þess að ljúka þessum áfanga. Ég veit það í sambandi við Dvalarheimili aldraðra sjómanna hér í Reykjavík, að það sem kannske hefur farið verst með þau samtök á undanförnum árum, er að hafa þurft að taka svona langan tíma í þær framkvæmdir, sem þau hafa staðið fyrir. Það er fyrst á s. l. ári að einingin er komin í þá stærð, sem fyrirhuguð var og áætlað var, að hún þyrfti að vera, til þess, að hún gæti staðið undir sér. Og það er líka fyrst á s. l. ári, sem þetta heimili stendur undir sér, rekstrarlega séð. Við skulum hugsa okkur það líka á seinna stigi, að þetta gæti orðið hemill á það, ef slík ákvæði kæmu inn í l., það gæti orðið hemill á það, að af þessum 60% væri kannske sett stór upphæð til þess að ljúka dvalarheimilum úti um land. Ég held, að við verðum að horfa á þetta frá báðum hliðum upp á þetta að gera, og ég mundi álíta það hafandi það í huga, að það verði enginn vilji í dag frá þessum samtökum hér í Reykjavík og Hafnarfirði til þess að ásælast þetta fé. Það eru miklu frekar þeir, sem hafa forgöngu um það, að það yrði nýtt úti um land, þannig að ég tel engin líkindi á því. En ég vara aðeins við því, ef hv. síðasti ræðumaður hefur það í huga að fara að binda þetta svona, það getur verkað á báða vegu.