29.03.1968
Neðri deild: 86. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég var svo heppinn að eiga þátt í því, að hér voru samþ. á Alþ. á sínum tíma lög um happdrætti DAS. Ég álít, að þeir, sem gengust fyrir þeirri starfsemi og sem fyrst og fremst voru áhugamenn, eins og hér hefur verið tekið fram í umr., og hafa haldið henni áfram með mikilli atorku og stórfelldum árangri, eigi miklar þakkir skildar. Við vitum öll, hvað þar hefur verið gert, svona nokkurn veginn, og þar hefur verið stuðzt við happdrættispeningana. En sá varð galli á, að þegar átti að framlengja happdrættið, var lögfest skerðing á því, að Dvalarheimili aldraðra sjómanna fengi happdrættiságóðann eins og áður. Var þá ákveðið, að nokkur hluti ágóðans skyldi renna í þann byggingarsjóð, sem hér er verið að ræða um og átti að stuðla að því, að komið yrði upp byggingum fyrir aldrað fólk.

Tilgangurinn með þessari löggjöf var góður, en sá var galli á gjöf Njarðar, að það var ekki aflað sérstaklega fjár í þennan sjóð, heldur átti að klípa þetta af því fé, sem DAS hafði fengið. Þetta kom sér afar illa, því að meiningin var og yfirlýst stefna af hálfu forráðamanna DAS að styðja byggingu dvalarheimila úti um land, eftir að búið væri að sjá sæmilega fyrir þeim málum við sunnanverðan Faxaflóa, þar sem samtökin komu fyrst upp og þar sem fjáröflun fór mest fram. Stefnan var yfirlýst sú, að styðja ætti dvalarheimilabyggingar úti um landið. En þá var þetta fé tekið í annað. Ég var á móti því á sínum tíma að skerða þannig tekjur DAS og tel, að það hefði verið skynsamlegast að láta þá stofnun njóta áfram allra happdrættisteknanna og framfylgja sínu verkefni á þá lund, sem þeir ætluðu sér að gera. Ekki fyrir það, að ég telji það ekki nauðsynlegt að styðja og setja upp byggingarsjóð, sem geti stuðlað að því að koma upp byggingum fyrir aldrað fólk. En ég áleit, að það hefði átt að afla sérstaklega fjár til þessa sjóðs, en ekki klípa það af þessu fé DAS.

Af þessari afstöðu minni leiðir, að ég er með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Mér finnst, að það mundi bæta nokkuð úr, því að þarna muni geta komið eitthvert fjármagn aftur til baka, þó að það komi ekki sem framlag, þá sem lán, til baka inn í starfsemi DAS. En það álít ég nauðsynlegt, eins og hér eru færðar ástæður fyrir. Ætlunin er þá að gera þá starfsemi miklu víðtækari en áður, og að fleiri landshlutar geti notið hennar en ennþá hefur orðið.

Ég kvaddi mér hljóðs til þess að fyrirbyggja, að afstaða mín í þessu gæti valdið misskilningi á þann hátt, að ég vildi með því setja fótinn fyrir, að reynt yrði að koma upp sérstökum íbúðum fyrir aldrað fólk. Því fer alls fjarri, en ég álít, að það verði að ganga í að afla fjár í þá starfsemi með öðrum hætti. Er ég sama sinnis um það, eins og þegar sú löggjöf var upphaflega sett, sem byggðist á því að klípa af því fé, sem DAS átti að fá. Ég mundi vilja vera stuðningsmaður þess, að þetta málefni að byggja íbúðir fyrir aldrað fólk yrði tekið fastari tökum en verið hefur, en þá yrði það að mínu viti að verða með því að afla sérstaklega fjár til þess.