09.04.1968
Efri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er þmfrv. flutt í hv. Nd., og er með þessu frv. lagt til, að gerðar verði breytingar á l. um Byggingarsjóð aldraðs fólks. Sjóðurinn var stofnaður með l. nr. 49 frá 1963, og er hlutverk hans það að lána fé til byggingar hentugra íbúða fyrir aldrað fólk. Lán má veita sveitarfélögum eða öðrum aðilum, sem sveitarstjórnir mæla með og sem beita sér fyrir að byggja slíkar íbúðir, og hins vegar má einnig lána einstaklingum, hvort tveggja með nánari skilyrðum. Tekjur sjóðsins eru aðallega hluti af tekjum af happdrætti DAS eða um 40% af árlegum tekjum happdrættisins. Hinn hlutinn, 60%, rennur til byggingarframkvæmda við Dvalarheimili aldraðra sjómanna, Hrafnistu, hér í Reykjavík.

Það kemur fram í grg. frv., að flm. telja, að hlutverk byggingarsjóðsins eins og það er orðað í l. sé þannig, að það komi ekki að gagni nema að takmörkuðu leyti, vegna þess að byggingar íbúða fyrir aldraða séu ekki fyrirhugaðar eða ekki hafi verið í þær ráðizt annars staðar á landinu en hér í Reykjavík. Hér hafa verið byggðar leiguíbúðir fyrir aldrað fólk, 22 að tölu, í háhýsi við Austurbrún, og Reykjavíkurborg hefur þegar sótt um lán úr sjóðnum vegna þeirra íbúða. Hins vegar telja flm., að annars staðar af landinu sé ekki eftirspurn eftir lánum úr sjóðnum, vegna þess að þar stefni allt að því frekar, að byggð séu dvalarheimili fyrir aldrað fólk. Nú mun vera langt í land, að lokið sé byggingarframkvæmdum hér við Dvalarheimili aldraðra sjómanna í Reykjavík, sem þessi 60% af tekjum happdrættisins ganga til. Þess mun því verða langt að bíða, að framkvæmdir annars staðar á landinu, sem þessi 60% af happdrættistekjum eiga að ganga til, eftir að Hrafnistuframkvæmdum er lokið, geti hafizt, þess mun verða langt að bíða, að þau framlög geti farið að renna til slíkra bygginga eða dvalarheimilabygginga úti um landsbyggðina. Því hafa þeir flutt þetta frv., þær breytingar, sem með því eru lagðar til, eða sú breyting er einungis sú, að auk þess að lána til að byggja hentugar íbúðir fyrir aldrað fólk verði einnig heimilað að stofna til byggingar dvalarheimila.

Það er ekki ástæða til, held ég, að fara fleiri orðum um frv. Það er gerð allýtarleg grein fyrir aðdraganda þess, að til byggingarsjóðs aldraðra var stofnað og enn fremur nokkur grein gerð fyrir fjárhag sjóðsins og að öðru leyti raktar ástæður fyrir flutningi frv. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. þd. hefur haft frv. til athugunar og leggur til, að það verði samþ. Tveir nm., hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 4. þm. Sunnl., voru fjarstaddir, þegar málið var afgreitt í n.