08.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

110. mál, búnaðarmálasjóður

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Í sambandi við afgreiðslu á þessu máli vil ég taka þetta fram: Eins og nú horfir með afkomu landbúnaðarins, þar sem sýnilegt er, að bændur verða að taka á sig alla þá hækkun, sem hefur orðið og kann að verða af völdum gengisfellingarinnar, og voru þó óumdeilanlega langtekjulægsta stétt landsins fyrir, og þar sem nú eru mjög slæmar söluhorfur á öllum framleiðsluvörum hans, sem gætu leitt til enn minni tekna en nú er reiknað með, að ógleymdu mjög erfiðu árferði, sem enginn getur nú séð fyrir, hvaða afleiðingar kann að hafa í för með sér — þó liggur ljóst fyrir, að einhver hluti af bændastéttinni verður tekjulítill eða tekjulaus á yfirstandandi ári; ef hafís liggur langt fram á vor upp við landið, er hætt við, að þessi hópur verði æðistór — með þetta í huga get ég nú ekki séð nein rök fyrir því að viðhalda gjöldum á þessum atvinnuvegi, svo framarlega að hægt sé að létta þeim af með einhverjum hætti.

Á hitt ber að líta, að mikill meiri hluti búnaðarþings og aukafundir Stéttarsambands bænda samþykktu að óska eftir framlengingu á þessum skatti og rökin fyrir þeirri ósk voru þau, að eignarhaldi bændasamtakanna á Bændahöllinni væri teflt mjög í tvísýnu, ef bændasamtökin misstu nú af þeim stuðningi, sem þessi skattur veitti þeim. Þar sem ég er þeirrar skoðunar og hef alltaf verið, að bændasamtökin eigi ekki að sleppa eignarhaldi á Bændahöllinni, en með örðugleika bænda í huga nú, óskaði ég eftir því, að búnaðarmálastjóri, dr. Halldór Pálsson, og framkvæmdastjóri Bændahallarinnar, Sæmundur Friðriksson, væru boðaðir á fund landbn. Nd., en í þeirri n. á ég sæti, til þess að n. fengi það fram, af hverju þessir fjárhagsörðugleikar Bændahallarinnar stafa, og til þess að leita eftir því, hvort ekki væri hægt að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem gerðu það mögulegt að létta þessum skatti af bændastéttinni, án þess þó að bændasamtökin kæmust í vanskil vegna skuldbindinga sinna vegna Bændahallarinnar. Í þessu sambandi var rætt um reksturinn á hótelinu, skuldir og lánakjör á Bændahöllinni. Við ræddum það, hvers virði þetta hótel væri fyrir þjóðina og hvers virði það væri hér fyrir höfuðstaðinn, og það kom í ljós, að það eru miklar gjaldeyristekjur, sem þjóðin hefur af þessari starfsemi eða af rekstrinum á Hótel Sögu. En það kom líka í ljós, að að öllu óbreyttu gætu bændasamtökin ekki staðið við sínar skuldbindingar, ef þau misstu af þessum stuðningi nú. Það var ekki talið, að hægt væri að fá út úr rekstrinum meira en hefur komið nú síðustu tvö ár og það svarar til þess, að reksturinn standi undir vöxtum, þ. e. a. s. þeim hluta þeirra, sem bændasamtökin þurfa að borga öðrum og enn fremur náttúrlega undir viðhaldi og einhverjum hluta af afskriftunum. Hins vegar var það upplýst, að skuldirnar væru til mjög stutts tíma, helmingur þeirra væri erlent lán, sem hækkaði við hverja gengisfellingu, þannig að bændurnir væru í raun og veru að borga alltaf sömu upphæðina. Hins vegar kom fram, að ef hægt væri að breyta þessum lánum í löng lán, og þó sérstaklega, ef væri um að ræða innlend lán, mundi ekki vera brýn þörf á því að láta hallarskattinn standa lengi, eða t. d. út næsta ár, eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. leggur til, að gert verði með þeirri brtt., sem liggur hér fyrir og er á þskj. 497.

Nú vil ég spyrja hv. þm., hann er nú víst ekki hér staddur, en þá ríkisstj., hvort ekki sé hugsanlegt, að það sé hægt að fá lán á næstunni til þess að létta þessum skatti af. Ef hægt væri að útvega 25 eða 30 ára lán, skilst mér á því, sem kom fram hjá þessum mönnum, dr. Halldóri Pálssyni og Sæmundi Friðrikssyni, að ekki væri þörf á að halda þessum skatti áfram. Ef það kæmi hér í ljós, að það væri hugsanlegt, að þetta yrði tekið til vinsamlegrar athugunar, mundi ég samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, af þeim ástæðum, sem ég hef getið um hér að framan, en annars mundi ég ekki treysta mér til þess.

Það eru nú fleiri skattar, sem væri ástæða til að reyna að losa bændastéttina við, t. d. stofnlánasjóðsskatturinn. Það væri nú full ástæða til þess að losa bændastéttina við hann. Þessi skattur var settur á, þó að bændasamtökin legðust alveg á móti honum, og það var sagt, að það væri gert til þess að bændurnir mundu fá hagstæðari eða meiri lán heldur en áður var, en í ljós hefur komið, að það er alveg það gagnstæða. Síðan þessi skattur var settur á, hafa þeir ekki fengið aukin lán, heldur þvert á móti, ef miðað er við verðlagið eins og það var og eins og það er nú. En vextirnir, sem þeir hafa þurft að borga af þessum lánum, hafa tvöfaldazt, og svo hafa þeir orðið að bæta á sig stofnlánagjaldinu ofan á það, og í raun og veru eru þetta mestu okurkjör, sem bændur búa við. Það eru þessi stofnlán, ef maður tekur skattinn þar með. Ég held, að það væri full ástæða til þess að athuga það líka, hvort væri ekki rétt að losa bændurna við þennan skatt, eins og ástatt er nú í landbúnaðinum.