04.04.1968
Efri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

182. mál, víxillög

Flm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á víxillögunum, er flutt að beiðni samvinnunefndar banka og sparisjóða og veldur engum stórbyltingum. Það er eingöngu til að gera fólki hægara fyrir um að varast afsagnir á víxlum, sem ella gæti orðið hætta á í sambandi við aukinn frídagafjölda, aukinn fjölda daga, sem bankar og sparisjóðir eru lokaðir, sérstaklega laugardagana á sumrum, skv. þeirri venju, sem nú virðist vera að komast á, en getur einnig átt við um nokkra aðra daga, svo sem verzlunarmannafrídaginn, 17. júní og e. t. v. einhverja fleiri. Ég held, að málið þurfi ekki sérstaka skýringu. Er að sjálfsögðu eðlilegt að vísa því til n., og ég leyfi mér að mælast til, að hv. fjhn. fái það til athugunar.