30.11.1967
Efri deild: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

62. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um breyt. á jarðræktarlögum, sem hér er til 1. umr., er flutt af landbn. hv. Ed., en með eðlilegum hætti áskilja einstakir nm. sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., þar sem n. hefur ekki enn athugað frv. gaumgæfilega, en mun að sjálfsögðu gera það eftir 1. umr. Frv. er samið af vélanefnd ríkisins, svo og grg. sú, sem prentuð er með frv., og er frv. flutt að ósk vélanefndar. Ég vil því leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta mál og freista þess að skýra þau sjónarmið, sem réttlæta setningu þessara l. og gera hana raunar nauðsynlega að minni hyggju.

Hinn 1. júní s. l. höfðu skurðgröfur Vélasjóðs verið að verki í 25 ár. Þann dag árið 1942 hóf fyrsta skurðgrafan vinnu í Garðaflóa við Akranes, og litlu síðar eða hinn 24. júní 1942 var hafin vinna með annarri gröfu í Staðarbyggðarmýrum í Eyjafirði. Á þessum árum, sem síðan eru liðin, hafa verið grafnir rúmlega 15 millj. lengdarmetrar af framræsluskurðum eða um 62½ millj. teningsmetra. Með gröfum Vélasjóðs hafa verið grafnir tæplega 38 millj. teningsmetrar eða um 60% alls þess, sem grafið hefur verið af slíkum skurðum. En allt fram til ársins 1961 er hlutur Vélasjóðs um 70% af heildarframkvæmdunum.

Hin síðari ár hefur þetta hlutfall snúizt við og það svo, að árið 1965 er hlutur Vélasjóðs ekki nema 33½ af öllum skurðagreftri og árið 1966 enn minni eða sennilega um 25%. Þessi breyting á sér þær orsakir fyrst og fremst, að allmargir gröfueigendur í landinu hafa snúið sér að því að grafa framræsluskurði. Hafa þeir þá tekið að sér framkvæmdir hjá einstökum bændum, en allajafna hliðrað sér hjá að taka að sér óhagstæðari verkefni, svo að einstaka jarðir og jafnvel byggðarlög hafa orðið útundan og Vélasjóður því mátt sinna þeim verkefnum og þá oft með ærnum tilkostnaði með tilflutningi tækja og vegna þess að þarna er oft um verra land að ræða, svo að afköst verða lítil og verkið því óhagstætt, sé það unnið eitt sér. Af þessu öllu leiðir, að rekstur Vélasjóðs hefur orðið mjög slæmur og það svo, að á árinu 1965 varð halli á rekstri sjóðsins rúmlega 2 millj. kr.

Þrátt fyrir þennan halla á rekstri Vélasjóðs mætti segja, að hann gæti verið réttlætanlegur og ríkið þyrfti ekki að meta hann til útgjaldaaukningar, þar sem taxtar sjóðsins eru lagðir til grundvallar, þegar jarðræktarframlag ríkisins á framræslu er ákveðið. En það er eins og fyrr segir 70% af kostnaðinum og því mikils um vert að halda þeim töxtum sem lægstum. En þetta verður þó ekki talin eðlileg leið að því marki, heldur er hallazt að því að halda kostnaði við skurðagröftinn sem lægstum með því að skipuleggja framræsluframkvæmdirnar betur en enn hefur verið gert með áætlanagerð fyrir 5 ára tímabil í senn, sem þó væri endurskoðað árlega, og á grundvelli þeirra áætlana væru verkin boðin út. Með þessum vinnubrögðum má ætla, að náist mun hagstæðari árangur í heild, án þess að þrengdur sé hagur þeirra, er að framkvæmdunum standa. Þeir, sem annast skurðagröftinn, munu fá samfelldari verkefni. Minni tími fer í tilflutning tækja og í upphafi hvers tímabils lægi það fyrir ljósar en áður, hversu verkefnið væri stórt. Bóndinn ætti og að hafa meiri tryggingu fyrir því, að verkin væru unnin á fyrirfram ákvörðuðum tíma og er það til mikilla bóta og þæginda fyrir hann og heimili hans. Þá mundi þessi tilhögun og verða til þess, að hægt væri með meiri nákvæmni en áður hefur verið hægt að áætla, hversu stór hlutur ríkisins verður á næsta ári í krónum talinn. Mér þykir líklegt, að einhverjum þeim, sem lítur yfir þessar till. til breyt. á l., þyki það óeðlilegt ákvæði, að héraðsráðunautum og ráðunautum Búnaðarfélags Íslands skuli vera fengið það vald í hendur að gera endanlegar áætlanir um framkvæmdir bænda við skurðagröft. En þegar betur er að gáð, er þetta mjög eðlilegt, og ég tel, að umsagnir sérfræðinga um fjárfestingar mundu vera nauðsynlegar á fleiri sviðum og hjá öðrum atvinnuvegum ekki síður en hjá landbúnaði og mætti það skoðast nánar síðar.

Þeirri reglu er nú fylgt, að bóndi, sem sækir um lán úr fjárfestingarsjóðum landbúnaðarins, verður að afla sér umsagnar héraðsráðunautar um, hversu mikil þörf hans er fyrir hina einstöku framkvæmd og hversu stór hún skuli vera. Hér er því með þessum till. ekki farið inn á nýja braut, heldur aðeins fært lengra út það kerfi, sem þegar er farið að nota og sjáanlega hefur gefizt vel, þótt ég skilgreini það ekki nánar nú.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um það ákvæði frv., að bændur, sem láta aðra en samþykkta verktaka grafa á jörðum sínum, fái aðeins hálft framlag á skurðina. Varðandi þetta ákvæði er rétt að minna á að í gildandi jarðræktarl. er gert ráð fyrir því í 20. gr., að ýmis félög bænda, svo sem búnaðarfélög, ræktunarsambönd, búnaðarsambönd o. fl., hafi rétt til að fá skurðgröfur og jarðræktarvélar leigðar. Síðan segir svo í 2. mgr. 20. gr., með leyfi forseta:

„Samningar þeir, sem um getur í l. mgr. um leigu á jarðræktarvélum og skurðgröfum á félagssvæðinu, skulu vera bindandi fyrir einstaklinga innan hvers sveitarfélags.“

Það er því ljóst, að í l. er gert ráð fyrir því, að einstakir bændur séu bundnir af samþykktum síns félags varðandi stærri jarðræktarframkvæmdir, þótt það hafi hins vegar komið í ljós, að þessu ákvæði hefur verið mjög erfitt að beita. Af því leiðir svo, að félagsreksturinn hefur orðið óviss. Þetta hefur valdið glundroða og raskað áætlunum ræktunarsambandanna og það svo, að ýmis þeirra riða til falls og eru ómáttug að koma til liðs við þá, sem sízt geta verið án þjónustu þeirra. Fyrir því er þetta ákvæði sett inn, ákvæðið um skerðingu ríkisframlagsins, að vonir standa til, að það stuðli að því, að menn virði þetta ákvæði gildandi l., sem sett var á sínum tíma til þess að tryggja hagkvæm vinnubrögð og góða nýtingu hinna stærri jarðræktarvéla.

Í lok a- liðs 1. gr. frv. er nýmæli, sem ég tel rétt að staldra aðeins við, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Á ræktunarsvæðum, þar sem kostnaður við skurðgröft vegna óhagstæðrar aðstöðu er meira en 25% hærri en meðalkostnaður á landinu, en telst þó nauðsynleg framkvæmd, er landbrh. heimilt eftir till. Búnaðarfélags Íslands að hækka ríkisframlagið svo, að hlutur bóndans verði eigi hærri en meðalkostnaður.“

Ákvæði þetta miðar beint að því að gera þeim bændum kleift að bæta bújarðir sínar, sem þannig eru settir, að kostnaðarsamt er að koma þangað þungum vinnuvélum, en þó því aðeins yrði þetta framkvæmt, að sérfróðir menn teldu framræslu nauðsynlega á þeim stað. Í gildandi jarðræktarl. er gert ráð fyrir að koma á fót jöfnunarsjóði, þ. e. í 22. og 23. gr. gildandi l. Tekjur sjóðsins eru áætlaðar um 700 þús. kr. á þessu ári, en sýnt þykir, að þær hrökkvi ekki til að jafna hallann, þar sem erfiðast er fyrir fæti, svo sem víða er um Vestfirði og á nokkrum svæðum öðrum. Tekjur jöfnunarsjóðsins er vart hægt að auka nema heimila, að jöfnunarsjóðsgjaldið megi ganga inn í heildarkostnaðinn, en það mundi vega á móti höfuðsjónarmiði þeirra, sem frv. hafa samið, en það er að lækka heildarkostnað fyrir þessar tilteknu framkvæmdir. En á hitt ber að líta og þess að gæta að skáka ekki úr leik þeim bújörðum, sem eiga góða möguleika og þurfa að haldast í byggð og stundum að vera bakhjarl nærliggjandi byggðarlaga. Þetta dæmi er þekkt víða um land og má með engu móti missa sjónar á því atriði. Því er þetta ákvæði sett inn í l., sem ég var nú að ræða um.

Í b-lið 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því að plógræsi skuli boðin út á sama hátt og vélgrafnir skurðir. Um plógræsin er það að segja, að vélanefnd ríkisins fékk vitneskju um það fyrir nokkrum árum, að í Finnlandi hefði verið reyndur sérstakur plógur, sem gerði lokræsi í mýrar og eftir lýsingum að dæma, mátti ætla, að þessi gerð ræsa hentaði íslenzkum mýrajarðvegi. Því varð það að ráði að vélanefnd hóf samningaumleitanir við uppfinningamanninn, próf. Pentti Kaitera, og keypti af honum verkfærið, sem var frumsmíð, og reyndi það hér. Þær tilraunir, sem hér voru gerðar, gáfu góða raun og var upphæð ríkisframlags á plógræsin sett kr. 1.20 á lengdarmetra og þá áætlað, að bændur þyrftu að greiða um 25–30% af kostnaðinum við ræsagerðina. Nú er nokkuð meiri reynsla komin á þessa aðferð við gerð lokræsa, nýir ræsaplógar hafa verið smíðaðir hér af íslenzkum hagleiksmönnum og finnsku plógarnir, sem voru fyrirmynd hinna síðari plóga, hafa verið endurbættir verulega. Samkeppnin milli þeirra aðila, sem reka ræsaplóga, er allmikil. Þannig hafa bændur náð í seinni tíð hagstæðari samningum en í fyrstu var áætlað, og með nýjum og endurbættum plógum má búast við frekari þróun í þá átt.

Þar sem framlag ríkisins er bundið við verkmagn eða lengdareiningu, en ekki hluta af kostnaði, hafa bændur einir orðið aðnjótandi þeirrar lækkunar á kostnaði, sem orðið hefur vegna þeirrar tækniþróunar, sem hér hefur átt sér stað, enda er svo komið málum, að í vissum tilvikum hafa bændur aðeins þurft að greiða 5 aura á hvern metra, þegar ríkið greiðir 1.20 kr. Þetta verður að teljast óeðlilegt og var ekki ætlunin, þegar ákveðin var upphæð ríkisframlagsins á plógræsin. En þar sem ekki er endanlega séð fyrir um þróun þessara mála, þykir rétt að fella niður ákveðna greiðslu á lengdareiningu, en taka upp bundna þátttöku af heildarkostnaði ræsagerðarinnar og beita útboðum til þess að halda þeim kostnaði niðri.

Herra forseti. Þetta frv. miðar að því í fyrsta lagi að koma betra skipulagi á framræsluframkvæmdir um land allt með áætlanagerð og útboðum, í öðru lagi að minnka útgjöld ríkissjóðs án þess að ganga á hlut bænda, í þriðja lagi að fá Vélasjóði ríkisins samkeppnisaðstöðu til jafns við aðra skurðgröfueigendur með því að gera bindandi útboðssamninga, í fjórða lagi að tryggja hag ræktunar- og búnaðarsambanda, í fimmta lagi að jafna aðstöðu bænda við framræsluframkvæmdir og í sjötta lagi að lækka kostnað ríkissjóðs vegna ræsagerðar.

Að minni hyggju mun þetta frv., ef að lögum verður, ná þeim tilgangi, sem til er ætlazt, og legg ég því til, að því verði vísað til 2. umr.