04.04.1968
Efri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

62. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég hygg, að ekki þurfi að hafa ýkjamörg orð um það frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr. Landbn. flutti þetta frv. að beiðni Vélanefndar ríkisins, og eftir að það hafði verið rætt hér í d., sendi landbn. búnaðarþingi frv. til umsagnar. Búnaðarþing gerði ályktun um málið og mælti með nokkrum tilteknum breyt., sem gerðar yrðu við frv. Landbn. hefur svo athugað þær till. búnaðarþings og fallizt á margar þeirra, en eina till. varð ekki samstaða um að mæla með. Meiri hl. gat ekki fallizt á þá till. búnaðarþings, en að öðru leyti var farið að till. þess.

Landbn. hefur því lagt hér fram brtt. við frv. á þskj. 456, og að þeim brtt. stendur öll landbn. Að mestu leyti eru þetta orðalagsbreytingar og raðað upp efni sumra málsgreinanna á þann hátt, sem betur þótti fara. En sú till., sem búnaðarþing gerði og meiri hl. gat ekki fallizt á að mæla með, var um það, að þegar boðnar væru út framræsluframkvæmdir á tilteknum svæðum jarðræktarsambanda, sem ættu sinn vélakost til að framkvæma verkin, væri þeim ekki skylt að bjóða verkin út. Meiri hl. gat ekki fallizt á, að þau yrðu undanþegin útboðsskyldu, enda litum við þannig á, að nægilega væri tryggður hagur ræktunarsambandanna með því, að í frv. var og er enn þá ákvæði um, að ræktunarsambönd hafi rétt til að ganga inn í lægstu tilboð, hvert á sínu ræktunarsvæði.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en ég legg til, herra forseti, að brtt. á þskj. 456 verði samþ., og frv. verði samþykkt með þeim breyt.