26.10.1967
Neðri deild: 9. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

17. mál, almannatryggingar

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Um þetta mál er það sama að segja eins og það fyrra, sem ég hef nú þegar mælt fyrir. Það var flutt í lok síðasta þings af einum af varaþm. Sjálfstfl., Jóni lsberg sýslumanni, og það fjallar um að fella niður það hámarksákvæði, sem í l. er og hefur verið um langan tíma, það, að aðeins séu greiddir sjúkradagpeningar og slysabætur með þrem börnum bótaþega, fella niður þetta hámarksákvæði og greiða framvegis, ef frv. þetta verður samþ., bætur með öllum börnum bótaþega.

Það er sama um þetta mál eins og það fyrra að segja, ég er sammála þeim, er fyrst flutti þetta mál hér inn á Alþ., um það, að þetta hafi komizt inn fyrir nokkurn misskilning eða a. m.k. að það hafi verið í gildandi l. svo lengi fyrir misskilning. Og þess vegna vænti ég þess, að hv. alþm. komi á móti þeirri ósk þess manns, sem flutti þetta á sínum tíma, að koma þessu sjálfsagða réttlætismáli fram og það sem fyrst.

Herra forseti. Ég leyfi mér að lokinni þessari umr. að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.