26.02.1968
Neðri deild: 66. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

17. mál, almannatryggingar

Frsm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., fjallar um þá breytingu á almannatryggingal., að sú takmörkun sé felld úr gildi, að dagpeningar vegna barna slasaðrar eða sjúkrar fyrirvinnu fjölskyldu skuli takmarkast við aðeins 3 börn, en séu börnin fleiri, skuli ekki greitt vegna þeirra, sem yfir þá tölu eru á framfæri hinna sjúku eða slösuðu. Þetta hefur þótt augljós agnúi á l. og enda ranglæti. Um þetta segir svo í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til heilbr.- og félmn., en sú n. sendi Tryggingastofnuninni frv. til umsagnar:

„Með bréfi dags. 15. nóv. 1967 hefur heilbr.- og félmn. Nd. óskað umsagnar um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, þar sem gert er ráð fyrir, að dagpeningar í sjúkratryggingu og slysatryggingu vegna barna á framfæri skuli miðaðir við öll börn innan 16 ára, en ekki við hámark 3, eins og nú er ákveðið. Kostnaður við þessa breytingu ætti ekki að nema meiru en 1% af heildarupphæð dagpeninga, og er því hér ekki um mikið fjárhagslegt atriði að ræða, þar sem dagpeningar slysatrygginga munu almennt vera um fjórðungur útgjalda eða í sjúkratryggingu innan við 1/10 hluta. Þá er og í l. óbreytt, að dagpeningar í heild megi ekki nema meiru en 3/4 hlutum tekjumissis fyrir sakir óvinnuhæfni. Tryggingastofnunin mælir því með, að nefnt frv. verði samþykkt.“

Heilbr.- og félmn. varð sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt og vekur jafnframt athygli á að um leið er frv. um atvinnuleysistryggingar, 16. þingmál, þskj. 16, afgreitt svo sem flm. þess óska, þar eð samkv. breytingu á atvinnuleysistryggingalögum 14. apríl 1966 skulu sömu reglur gilda um dagpeninga fyrir atvinnulausa og fyrir börn slasaðra og sjúkra samkv. almannatryggingal. Um þetta segir Tryggingastofnunin svo í bréfi til n.:

Hv. heilbr.- og félmn. Nd. Alþ. hefur sent til umsagnar stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs frv. til l. um breyt. á l. nr. 29 7. apríl 1956 um atvinnuleysistryggingar. Frv. miðar að breytingu 18. gr. nefndra l. þannig, að gert er ráð fyrir, að niður falli orðin „allt að þremur“ í 1. mgr. Vér viljum í þessu sambandi vekja athygli á, að 18. gr. l. nr. 29 1956 með því orðalagi, sem hér um ræðir, var felld niður með 2. gr. l. nr. 28 1966, þar sem ákveðið var, að atvinnuleysisbætur skuli vera hinar sömu og slysabætur samkv. 3. og 4. mgr. l. nr. 40 1963. Fyrir Alþingi liggur nú frv. til l. um breyt. á orðalagi ákvæða um slysabætur í þá átt, sem meðfylgjandi frv. gerir ráð fyrir. Verði það samþ., kemur það af sjálfu sér til þess að taka til atvinnuleysisbóta.“

M. ö. o., það sem hér er lagt til er, að sú takmörkun, sem verið hefur í gildi varðandi dagpeninga með börnum til slasaðra og sjúkra og í raun og veru einnig til atvinnulausra, sú takmörkun, að þetta væri miðað aðeins við 3 börn, sé felld niður og framvegis sé greitt með hverju því barni, sem er í fjölskyldu hjá manni, sem hefur slasazt eða er sjúkur eða atvinnulaus. Heilbr.- og félmn. varð, eins og ég sagði áðan, sammála um að leggja til, að frv. væri samþ. óbreytt.