09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

149. mál, breyting á mörkum Eskifjaðrarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps og sala Hólma

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar ég sá frv. um breytingar á mörkum Eskifjarðarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps í Suður-Múlasýslu á þskj. 323, hélt ég, að þarna væri um eitthvert algert friðar- og samkomulagsmál að ræða. Þarna eru fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka, sem standa að flutningi málsins og lítur þess vegna út fyrir, að algert samkomulag sé um það.

Þegar málið var rætt í heilbr.- og félmn., var okkur sagt frá gögnum, sem fyrir lægju í málinu og bentu til þess, að samkomulagið væri ekki algjört, þ. e. a. s. þó þm. hefðu komið sér saman um frv. flutning um málið, væru íbúarnir þarna á þessu landsvæði, sem frv. tekur til, ekki með öllu sammála um það. Efni málsins er í skemmstu máli, að farið er fram á, að Eskifjarðarhreppur fái landstækkun, og hann býr vissulega við mjög þrönga landkosti, en þetta sé gert á kostnað Reyðarfjarðarhrepps og allmikið land, sem nú tilheyrir Reyðarfjarðarhreppi, verði tilheyrandi Eskifjarðarhreppi. Þessu hafa Reyðfirðingar almennt mjög mótmælt og virðast vera frv. mjög svo andvígir.

Upphaflega mun það vera svo, að hreppaskipting átti sér stað 1907. Þá voru þeir aðskildir, Helgustaðahreppur, Eskifjarðarhreppur og Reyðarfjarðarhreppur, og við þau skipti hefur Eskifjarðarhreppur fengið mjög þröngt land, svo þröngt land, að furðulegt má telja. Mér hefur verið tjáð, að meginástæðan til þess, að þeir þá ekki fengu meira landrými sé sú, að Eskfirðingar hafi þá ekki óskað eftir rýmra landi, hafi alls ekki viljað taka við landinu inn fyrir sín sveitarmörk, landinu í fjarðarbotninum, sem nú er verið að óska eftir að falli undir Eskifjarðarhérað. Af hverju? Ja, nú veit ég ekki fullar sönnur á, en mér er tjáð, að fyrir fjarðarbotninum, á því landi, sem nú er kallað Eskifjarðarkálkur, — kálkur er mér sagt, að sé austfirzkt orð og þýði útbyggð; ég hef nýlega öðlazt þessa vizku, en kem henni hér með inn í þingtíðindin — hafi verið nokkrar fátækar, barnmargar fjölskyldur, og Eskfirðingar óttuðust þá aukin sveitarþyngsli af þessum landshluta og vildu hafa hann utan við sín mörk. Áin, sem vellur þarna í fjarðarbotninn, var því látin skilja Löndin milli Reyðarfjarðarhrepps og Eskifjarðarhrepps, og er svo enn.

En ég tel rétt, að það fari ekki fram hjá hv. þm., að hér er ekki um samkomulagsmál að ræða nema á milli þm. (Gripið fram í.) Er það misskilningur? Já, og hér er ekki aðeins um stundardeilumál að ræða milli sveitarfélaganna, heldur hefur logað í þessum glæðum um áratugi. Ég hef gögn um það, að um 1930 er málið flutt hér á Alþ. fyrir 38 árum síðan, og farið fram á það, að Eskifjörður fái bætt úr sínum landþrengslum og landrými aukið á svipaðan hátt og nú er farið fram á, að undir Eskifjörð félli fjarðarbotninn og landið þar inn um. En Reyðfirðingar mótmæltu. Eskfirðingar fólu þá þm. sínum, Sveini í Firði, að flytja málið, hvað hann og gerði, vafalaust af fullum þunga og myndarskap, og gerði þar grein fyrir aðstöðu, sem réttlætti það, að Eskfirðingar fengju þetta landrými. Það er upplýst í málinu 1930, að Eskifjarðarhreppur er ekki nema þriggja km grýtt og víðast sæbrött strandlengja, óræktað land og lítt ræktanlegt, þannig er lýsingin, og daglegur sólargangur er þar stuttur nema um hásumarið meira að segja. Það skín varla sól á Eskfirðinga eftir þeirri lýsingu, sem liggur fyrir hv. þm. 1930. En enn versnar, þegar menn heyra það, að Eskifjörður hefur verið svo illa settur um land, að hann hefur ekki einu sinni haft land til þess að grafa sína dauðu. Hann hefur orðið að fá það að láni hjá Reyðfirðingum allt fram á þennan dag, því að kirkjugarður þeirra mun vera þarna á svæðinu, þessum Eskifjarðarkálk, sem um er talað og á nú að færast undir Eskifjörð.

Það má því segja það, að það er ekki ofsögum af því sagt, að Eskfirðingar eru illa settir, þegar þeirra land er gróðurlítið og grýtt, ekki hægt að grafa dauða í því og sól skín varla á þá. Þetta er alveg ömurlegt, en svona er þetta og ég er ekkert að draga fjöður yfir þetta. Þetta mælir kannske á mót þeirri niðurstöðu, sem ég kemst samt að. En þessi mál eru sem sé búin að vera deilumál frá því 1930. 1931 reynir Sveinn í Firði enn að fá landakaupin samþykkt til handa Eskifjarðarhreppi. Það tekst ekki heldur. Svo er mér kunnugt um, að 1945 er þetta reynt og enn fremur 1966. En aldrei hefur Alþ. treyst sér til að höggva á hnútinn og breyta mörkum hreppanna gegn eindregnum mótmælum annars sveitarfélagsins, sem sé Reyðarfjarðarhrepps. Og það verð ég að segja, að mér finnst afskaplega harkalegt að leysa þetta mál á þann veg, þótt það sé eftir eindreginni ósk Eskfirðinga, en gera það alveg gegn hatrömmum mótmælum Reyðfirðinga.

Breytingar á mörkum sveitarfélaga hafa sjaldan verið gerðar hér á Alþ. nema eftir samkomulagsleiðum milli sveitarfélaganna, og er mjög illt að þurfa að breyta út af því. Nú segja Eskfirðingar, að þeir þurfi mjög á landinu inn í fjarðarbotninn að halda, því að það er ekki eingöngu vandamál með kirkjugarðinn, heldur eru þeir einnig byrjaðir að byggja stór mannvirki þarna inni í fjarðarbotninum. Þar mun vera að rísa eða risin síldarverksmiðja og þar er verið að byrja að byggja aðalhöfn Eskfirðinga, og það furðulega er, að deilumálin eru nú m. a. um útsvör varðandi þessi stóru mannvirki þarna. En þar mun einmitt vera komið að mjög viðkvæmu máli. Það er talið, að áin hafi jafnvel breytt sér, og það er magnað deilumál líka frá því að hún var áður sem landamerki þarna í milli hreppanna. Og nú er mér tjáð, að þar sem Eskfirðingar vilja nú tryggja sér útsvörin af þessu stóra fyrirtæki þarna, sé um að ræða eitthvað af fátæku börnunum sem þeir ekki vildu fá inn fyrir sín sveitarmörk 1907. Ég veit ekki fullar sönnur á þessu, en mér er sagt þetta, og það gerir málið enn þá meira viðkvæmnismál.

Það er enginn vafi á því, að Eskfirðingar sækja þetta fast og hafa lagt fast að sínum þm. og þeir tekið málið að sér nú og orðið sammála um að flytja um þetta sameiginlegt frv. En þá rísa upp mótmælin, eins og alltaf hefur gerzt á þeim 30–40 árum, sem þetta mál nær yfir. Reyðfirðingar mótmæla, og það liggja hér fyrir tvenn mótmæli, sem frsm. hefur sennilega skýrt d. frá og ég vil aðeins vekja athygli á. Það eru í fyrsta lagi mótmæli frá ábúendunum á Hólmalandi og Flateyri, sem mun vera í landi Hólma í Reyðarfirði, stórbýlisins, sem hér á að skipta. Hólmar í Reyðarfirði skiptast í tvennt, ef þetta frv. verður samþ. Þessir ábúendur á býlunum tveimur, sem eru í landi Hólma, mótmæla. En mótmælin eru viðameiri og þyngri en þetta, því að Reyðfirðingar, sveitarstjórnarmenn og íbúar Reyðarfjarðarhrepps, láta ekkert minna duga heldur en mjög harðorð og ákveðin mótmæli gegn frv. Það eru hér undirskriftaskjöl upp á 10 síður frá íbúum Reyðarfjarðarhrepps, 20 ára og eldri, og það hlýtur þess vegna að vera nærri því hvert mannsbarn af fullorðna fólkinu í Reyðarfjarðarhreppi, sem mótmælir. Þau eru örstutt, mótmælin sjálf, en því eindregnari. Með leyfi hæstv. forseta eru þau á þessa leið:

„Við undirritaðir íbúar Reyðarfjarðarhrepps, 20 ára og eldri, mótmælum eindregið af gefnu tilefni hvers konar skerðingu á Reyðarfjarðarhreppi frá því, sem hann er nú. Lítum við mjög alvarlegum augum á það, ef þm. kjördæmisins hyggjast knýja fram með lagaboði breytingu á hreppamörkum Reyðarfjarðar- og Eskifjarðarhrepps á sama tíma og yfir stendur endurskoðun á stækkun sveitarfélaga á vegum félagsmálaráðuneytisins.“

Þetta niðurlag mótmælanna vakti athygli mína, og ég hafði þess vegna samband við skrifstofu Sambands ísl. sveitarfélaga og spurðist fyrir um það, hvað liði tilraunum í þá átt að sameina þessi sveitarfélög, og fékk þá vitneskju um það, að fundir hefðu verið haldnir með hreppsnefndunum þremur, Eskifjarðarhrepps, Helgustaðahrepps og Reyðarfjarðarhrepps, og mér voru send afrit af þeirri fundargerð. Af þeirri fundargerð virðist mér ljóst, að öll sveitarfélögin taka það í mál að athuga um sameiningu og sérstaklega aðgætti ég, hvernig hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps hefði tekið í það mál. Mér virðist, að hún hafi að vísu ekki verið þar hvetjandi aðili, en það, sem mér þótti máli skipta, var að ganga úr skugga um, hvort þeir hefðu ekki léð máls á sameiningu, og sé ég í fundargerðinni, að þar taka ekki aðeins einn, heldur tveir af hreppsnefndarmönnum Reyðarfjarðarhrepps það fram, að þeir séu alls ekki lokaðir fyrir þeim möguleika að sameina Eskifjarðarhrepp og Reyðarfjarðarhrepp. Einn þeirra segir, að það megi alls ekki skilja yfirlýsingu þeirra, sem þeir lögðu fram á fundinum, á þann veg, að þeir telji sameiningu útilokaða. Og annar hreppsnefndarmaður Reyðarfjarðarhrepps segir: Hún, þ. e. hreppsnefndin, er því ekki mótfallin að halda sameiginlegan fund og ræða þau mál, er nm. koma sér saman um að taka fyrir á hverjum tíma, og bætir því við, að grg. megi ekki taka sem svo, að sameining sé ekki möguleg. Og annar hreppsnefndarmaður úr Reyðarfjarðarhreppi segir, að hann telji þá Reyðfirðinga geta samþ. till. um athugun á sameiningu allra sveitarfélaganna, þ. e. a. s. Helgustaðahrepps, Eskifjarðarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps. En þarna á að taka bara land úr landi Reyðarfjarðar og skerða þannig Reyðarfjarðarhrepp og sameina þann hluta hreppsins Eskifjarðarhreppi. Því virðast þeir vera mjög andvígir og viðkvæmir fyrir því og andvígir því.

Nú er spurningin: er búið að fullreyna þennan möguleika að leysa þetta viðkvæma deilumál milli sveitarfélaganna með sameiningu sveitarfélaganna? Mér virðist fundinum hjá sveitarstjórnarmönnunum og fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga ljúka á þann veg, að málið sé á viðræðustigi, en hvergi nærri fullreynt. En það sýnist mér, að deilumálin um mörkin þarna inni í Eskifjarðarbotninum, vandamálin um útsvarsréttindin hjá sveitarfélögunum og þeim stóru fyrirtækjum og hafnarmannvirkin á þessu umdeilda svæði, kirkjugarðinn og malartökuna og skreiðarhjallana og allt það, sem þarna skiptir máli í þessum flóknu deilumálum, sé hægt að leysa með því, að hreppamörkin hverfi þarna í burtu og Reyðarfjarðarhreppur og Eskifjarðarhreppur verði eitt sveitarfélag. Þarna eru tvö myndarleg kauptún, eins og öllum er kunnugt. Það eru nær 900 manns á Eskifirði og á 7. hundrað manns í Reyðarfjarðarkauptúni og þarna yrði því, ef þessi sveitarfélög sameinuðust, þá yrði þarna sveitarfélag með u.þ.b. 15–1600 manns.

Sveitarfélag, sem gæti fengið sterka aðstöðu á Austfjörðum og haft sinn lækni, haft sveitarstjóra og framkvæmdastjóra í sínum málum og borið slíkt vel uppi og þannig áreiðanlega fengið miklu betri starfsaðstöðu sem sveitarfélag. Kostirnir eru alveg augljósir við þetta og þessi viðkvæmu deilumál væru með því leyst, ef þetta væri hægt. En mér sýnist þetta sameiningarmál einmitt vera nú í miðjum klíðum. Annar möguleiki væri kannske til heldur en sá að kljúfa endilega í sundur land Hólma í Reyðarfirði, þess mikla og forna stórbýlis, sem mér skilst, að Reyðfirðingum sé nokkuð viðkvæmt. Þá væri hugsanlegt, að það nægði Eskfirðingum að fá land eyðijarðarinnar Borga þarna í fjarðarbotninum og að landamerki Borga og Hólma yrðu aftur sveitarmörkin, ef ekki tækist að sameina sveitarfélögin bæði.

Um það, hvort þeir möguleikar eru fyrir hendi, vita Austfjarðaþm., flm., betur. Maður skyldi þó ætla, að búið væri að fullreyna þá leið líka. Er sameiningarleiðina, að sameina hreppana, virðist mér alveg liggja skjallega fyrir mér, að ekki er búið að reyna til þrautar. En allar leiðir finnst mér, að verði að reyna til fulls, áður en öðru sveitarfélaginu er misboðið svo, að málið sé knúið fram með löggjöf á Alþ. gegn eindregnum mótmælum svo að segja hvers einasta fullorðins manns í því sveitarfélagi. Það er vandræðalaust undir öllum kringumstæðum. Úr því að málið er nú búið að vera deilumál í 30–40 ár, finnst mér varla, að það geti ráðið örlögum eða haft verulega þýðingu, þó að sameiningarmöguleiki sveitarfélaganna væri nú reyndur af fullum krafti og þetta mál, sem sætir svo eindregnum andmælum frá hendi Reyðfirðinga, verði látið bíða til næsta Alþ. og þá því aðeins flutt á ný, að ekki hefði tekizt að fá sameiginlega lausn á málinu. Ég hef því hugsað mér að flytja á þessu stigi málsins till. til rökst. dagskrár á þessa leið:

„Þar eð sameining sveitarfélaga er nú mjög á dagskrá, umr. um sameiningu umræddra sveitarfélaga eru hafnar, en ekki reyndar til þrautar og þar eð sameining Eskifjarðarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps mundi leysa hið viðkvæma vandamál, sem frv. fjallar um, ályktar þingið að fresta afgreiðslu frv., meðan gengið er úr skugga um, hvort sameining sveitarfélaganna megi takast og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það gæti farið svo, að athugun á þessu að reyna sameiningarleiðina tefði málið nokkra mánuði, en niðurstaðan yrði þá aldrei önnur en sú, að ef sameiningin tækist ekki, vita Reyðfirðingar það, að löggjöfin mundi koma og þá verð ég að segja, að þá yrðu þeir að sætta sig við það. En þeir hefðu átt þann möguleika að ganga til samninga um sameininguna í millitíðinni. En það er alveg greinilegt af lokum þeirrar fundargerðar, sem ég hef hérna fyrir mér, að samningaviðræður um sameiningu sveitarfélaganna eru ekki enn þá fullreyndar, því að þeir halda þar opnum leiðum, Reyðfirðingar, og segja, að það megi ekki taka yfirlýsingu þeirra þannig, að þeir séu ekki til viðræðu um málið, og annar þeirra segir m. a. s., að þeir séu alls ekki á móti sameiningu hreppanna í einhverri mynd á annan veg heldur en þann að sundurlima Hólma í Reyðarfirði og taka hluta af landi Reyðarfjarðarhrepps og leggja það undir Eskifjarðarhrepp. Því eru þeir andvígir og hafa verið það svo langt sem sögur herma, eins og ég hef nú rakið, þegar Sveinn í Firði var að berjast með þetta mál 1930 og 1931, og Alþ. hefur ekki séð sér fært fram að þessu að afgreiða málið með löggjöf gegn eindregnum vilja annars sveitarfélagsins, en að vísu samkv. eindregnum óskum hins.