23.01.1968
Neðri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

85. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að láta í ljósi ánægju mína yfir, að hæstv. landbrh. skyldi lýsa yfir fylgi sínu við frv. Hins vegar varð ég undrandi yfir því, að hæstv. landbrh. skyldi líta þannig á, að ef frv. þetta yrði að lögum, mundi framkvæmdin verða þannig, að fyrra lánið yrði nokkurs konar bráðabirgðalán með enn hærri vöxtum en þessi stofnlán eru með. Ég get ekki séð, að neitt sé því til fyrirstöðu, að þessi lán verði veitt t.d. í tvennu lagi með tveimur skuldabréfum eins og hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Ég vil ekki ætla hæstv. landbrh. það, sem þó hefði mátt lesa út úr orðum hans, að hann hefði hug á, að þessi lán yrðu með öðrum hætti og öðrum kjörum en stofnlánadeildin hefur nú í reglum sínum. Þetta er auðvitað framkvæmdaratriði, sem hann getur fyrst og fremst haft áhrif á, og ég verð nú að segja það, að mér finnst nóg komið og meira en það með þessa háu vexti, þessa háu vexti úr stofnlánadeildinni, þó að enn sé ekki gengið í þá áttina að hækka vextina, og ég verð að segja, að hafi honum í raun og veru verið alvara að framkvæma þetta frv. þannig, ef að lögum verður, að veitt verði bráðabirgðalán með víxilvöxtum, er það ekki það, sem fyrir okkur flm. vakir, heldur hitt, að út séu gefin, eins og ég sagði áðan, tvö skuldabréf, það fyrra, þegar fokhelt er og hið síðara þegar byggingin er frágengin. En þessar vangaveltur hæstv. ráðh., að hætt sé við, að vextir verði aðrir af þessum lánum og þau séu tekin eða verði tekin til bráðabirgða, sýnir þó hitt, að honum er enn efst í huga að ganga á það lagið að hækka endalaust vextina, þar sem því verður við komið. Það er þessi árátta hans og hans fylgismanna, sem hefur orðið þess valdandi, hvernig staða landbúnaðarins er í dag.

Hæstv. landbrh. talar um vanþekkingu mína á þessum málum og segir, að það væri þess virði að fræða mig og gera samanburð á stöðu landbúnaðarins í dag og því, sem hafi verið, þegar flokksbræður mínir hafi farið með landbúnaðarmálin, svo að ég geti betur áttað mig á þessum málum. En svo ber hæstv. landbrh. við tímaleysi, að hann geri það ekki í þetta sinn og bætir við, að til þess muni gefast tóm síðar. Nú er ég ekki að halda því fram, að ég sé neitt sérstaklega vel að mér í landbúnaðarmálum, en hitt fullyrði ég, að ef hæstv. landbrh. stendur í þeirri trú, að það yrði hagstætt fyrir hann og hans flokksmenn, að þessi samanburður yrði gerður, gerir hann aðeins eitt með því, að undirstrika það greinilega, að hann skilur mjög takmarkað í þessum málum, alls ekki neitt um stöðu og framtíðarhorfur landbúnaðarins í dag. Því skildi hann það, hefði hann ekki talað svona digurbarkalega, því að í orðum hans fólst áskorun á okkur framsóknarmenn að gera þennan samanburð. Því miður er útlitið á þann veg, að í því uppgjöri mun ekki felast neitt lof á hæstv. landbrh. eða stuðningsflokka hans. Ég sagði, því miður, en í því sambandi er ég ekki að hugsa um hæstv. landbrh. eða hans skinn, heldur bændurna og þeirra afkomu og framtíð. Af þessum ástæðum verður ekki hjá því komizt að fara ofan í þessi mál, og liggja til þess fleiri ástæður en ég hef nú nefnt.

Það hafa fleiri talað digurbarkalega að undanförnu en hæstv. landbrh. Ég man ekki betur en því væri mjög haldið á lofti í þann mund, sem krónan var felld, að nú stæði þjóðin betur að vígi en áður, nú hefði hún sitt efnahagsmálaráðuneyti og þar á að skipa sprenglærðum spekingum. Nú væri vitað um stöðu hverrar greinar, a. m. k. útflutningsframleiðslunnar og ég held annarra atvinnugreina einnig. Í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar þurfti ekkert handahóf að vera á hlutunum, að okkur var sagt. Það var hægt að reikna nákvæmlega, hvað krónan þyrfti að lækka, svo að framleiðslan gæti aftur starfað með eðlilegum hætti án styrkja. Og nú vil ég spyrja: Var reiknað rétt? Mér sýnist það nú vera fleiri en hæstv, landbrh., sem fatast á viðreisnargöngunni. Ég veit ekki, hvað hæstv. landbrh. óskar eftir, að ég fari langt aftur í tímann til að telja upp afrek og ávirðingar flokka okkar beggja í sambandi við landbúnaðarmálin, e. t. v. allt til þess tíma, er hans flokksmenn hækkuðu krónuna upp úr fyrri heimsstyrjöldinni, sem varð til þess að eyðileggja efnahag bændanna, þannig að þeir báru ekki sitt barr eftir það um árabil. Hæstv. landbrh. vill einnig e. t. v. rifja upp, hvernig afstaða og vinnubrögð hans flokksmanna voru, þegar sú löggjöf var sett, sem efalaust hefur orðið landbúnaðinum mesta eða ein hin mesta lyftistöng á þessari öld. Þar á ég við afurðasölulögin, sem Framsfl. undir foyrstu Hermanns Jónassonar stóð að að setja og framkvæma. Mjólkurverkfallið svonefnda er staðreynd. Það fór ekki á milli mála, hverjir stóðu að því eða í hvaða tilgangi það var gert. Mjólkurverkfallið er mjög merkur kapítuli í íslenzkri búnaðarsögu, sígilt dæmi um hugarfar og starfshætti þeirra manna, sem telja sig borna til að hafa og njóta meiri réttar en almenningur í landinu hefur á hverjum tíma. Það er gott að hafa þetta hugfast, þegar við hlustum á þá menn, sem nú aðvara þjóðina um, að ef hún tekur ekki þegjandi því, sem að henni er rétt, skuli hún eða þeir hafa verra af. Og í framhaldi af því tala þessir herrar um pólitísk verkföll, sem til þess séu gerð að steypa löglega kosinni ríkisstj., tala um, að lýðræðið sé í hættu o. s. frv. En nú væri gaman að heyra álit þessara manna, sem svona tala, á mjólkurverkfallinu, sem flokksbræður þeirra gerðu fyrir rúmum 30 árum. Það var verkfall til að reyna að brjóta niður löggjöf, sem löglega kjörnir fulltrúar hér á háu Alþ. voru nýbúnir að setja. Hafi pólitískt verkfall nokkurn tíma verið gert á þessu landi, sem lýðræðinu stóð hætta af, var það þetta verkfall. Ef þeir menn, sem nú ráða Sjálfstfl., fordæma þetta verkfall, er vel, og þá geta þeir frekar vænzt þess, að þjóðin taki það alvarlega, að sagan muni ekki endurtaka sig, að Sjálfstfl. muni aldrei framar standa að ámóta verknaði og hann reyndi með mjólkurverkfallinu, þegar hann reyndi að brjóta niður þá löggjöf, sem lagði grunninn fyrst og fremst að framförum í íslenzkum landbúnaði og kom á í landinu mannsæmandi sölufyrirkomulagi á landbúnaðarvörum, sem enn er að mestu leyti byggt á, og það út af fyrir sig segir töluvert um þessa löggjöf.

Þegar rætt er um og borin saman stefna þessara tveggja flokka, Framsfl. og Sjálfstfl., í lánamálum landbúnaðarins, er aðalmunur flokkanna þessi: Á meðan Framsfl. fór með landbúnaðarmálin var stefnt að því, að búnaðarsjóðirnir, ræktunarsjóður og byggingarsjóður, stæðu undir uppbyggingunni í landbúnaðinum. Lánin voru til langs tíma, í sumum tilfellum allt upp í 50 ár. Rentur voru 3½–4%. Sjóðirnir höfðu fast framlag úr ríkissjóði og síðan látnar í þá öðru hverju allstórar fjárhæðir, er þörfin var mest og ástæður ríkissjóðs leyfðu það. En eftir að hæstv. landbrh. tók við þessum málum var þessu alveg snúið við. Þá voru stofnlánadeildarlögin sett, en sú löggjöf var fyrst og fremst byggð þannig upp, að landbúnaðurinn, þ. e. a. s. bændurnir sjálfir, voru látnir byggja upp sjóð stofnlánadeildarinnar. Vextir voru hækkaðir um 70%, stofnlánadeildarskatturinn settur, sem hefur orðið því sem næst 3½% á raunverulegar tekjur bændanna að meðaltali árið 1966. Þetta er nú stefnumunurinn, enda hefur ekki staðið á því, að árangurinn kæmi fram, en ég kem betur að því síðar. Afrekaskrá hæstv. landbrh. í þessum málum er þessi:

1. Afnumdir úr lögum fastir vextir. 2. Styttur lánstíminn. 3. Hækkaðir vextir í stofnlánadeildinni um 70%. 4. Settur stofnlánaskattur, 1%, á seldar landbúnaðarvörur, sem hefur komizt upp í 3½%, eins og áður sagði, af raunverulegu kaupi bóndans. 5. Bannað að lána út á nema eina framkvæmd á sama ári. 6. Bannað að veita lán, nema sótt hafi verið um það fyrir þorralokin veturinn áður og að lánsloforð lægi fyrir frá bankanum, áður en framkvæmd væri hafin. 7. Haldið niðri matsgerð á öllum framkvæmdum, byggingum og ræktun.

Nú er það fjarri mér að halda því fram, að þau lán, sem byggingar- og ræktunarsjóður lánuðu, hafi verið fullnægjandi fyrir bændurna og ekki hefði verið æskilegt að hafa þessi lán hærri á þeim tíma, sem framsóknarmenn fór með þessi mál. En séu athuguð árin fyrir viðreisn, sem voru mesta framkvæmdatímabil í sögu landbúnaðarins, þá var útkoman sú, að af heildarskuldum landbúnaðarins voru föstu lánin þá yfir 60%, en lausaskuldirnar undir 40%. Á valdatíma hæstv. landbrh. hefur þetta alveg snúizt við. Nú eru föstu lánin ekki einu sinni 40% af skuldum bænda, en lausaskuldirnar komnar yfir 60%. Segir ekki þetta sína sögu um það, hvernig hafi verið unnið að þessum málum á þessum tveimur tímabilum? Ég man ekki betur en hæstv. landbrh. og hans stuðningsmenn áteldu framsóknarmenn mjög fyrir það, að svona hátt hlutfall af skuldum bænda, þ. e. a. s. 40%, skyldu vera lausaskuldir, og þeir sögðu, að nú ætti að efla stofnlánadeildina, svo að bændur söfnuðu ekki lausaskuldum eins og áður. Það er ekki nema á 6. ár síðan þau orð voru töluð, en í dag eru lausaskuldirnar komnar yfir 60%.

Á árunum 1953–1957 voru greiddar úr ríkissjóði 65.4 millj. eða rúmar 13 millj. á ári að meðaltali. Hvað skyldi þessi upphæð eiga að vera nú, svo að hún yrði hlutfallslega eins miðað við fjárlög þá og nú? Skyldi það vera hæstv. landbrh. eða flokki hans hagstætt í samanburðinum frekar en annað? Skyldi ekki mega sexfalda þessa upphæð eða því sem næst? 70 millj. eru ekki sú fjárhæð, sem þessir sjóðir fá nú úr ríkissjóði. Í verðlagsgrundvellinum stendur, að meðalvextir séu af stofnlánum 6.6% eða heldur hærri en ég reiknaði með hér áðan. Þar segir einnig, að að meðaltali séu föstu skuldirnar 80500 kr. Vextir af því eru 5313 kr. Stofnlánaskatturinn er í grundvellinum 3929 kr. eða samtals 9242 kr. Þetta eru þau vildarkjör, sem bændastéttin býr við undir stjórn hæstv. landbrh. 40% af skuldunum eru föst lán í lánasjóðum landbúnaðarins með í raun og veru 11.5% vöxtum. Þessar tölur eru upp úr verðlagsgrundvellinum, og ekki geri ég ráð fyrir því, að hæstv. landbrh. vefengi þær. En þegar framsóknarmenn fóru með landbúnaðarmálin hefðu bændur ekki þurft að borga nema 2937,50 kr. af sömu upphæð. Mismunurinn er 6305 kr. og er ekki þessi samanburður hagstæður fyrir hæstv. landbrh. Ég sagði, að þau kjör, sem bændur byggju við að þessu leyti, væru okurvextir, og ég vona, að hæstv. landbrh. neiti því ekki, að 11.5% vextir séu okurvextir.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. ræddi hér um daginn um söluskattinn á landbúnaðarvörum og fer ég því ekki út í það hér, en vil aðeins taka undir það, sem hann sagði þá, að það er vægast sagt óskynsamlegt að leggja söluskatt á þá vöru, sem á annað borð er greitt niður verð á af almannafé. Og slík skattlagning stuðlar að því, að bændur fá síður það verð, sem þeim er ætlað hverju sinni, ekki sízt þegar það fer saman, að kaupgetan minnkar innanlands og útflutningssjóðirnir reynast ekki hlutverki sínu vaxnir vegna óðaverðbólgu í landinu.

Ég sagði það í upphafi máls míns, að þegar ég hlustaði á hæstv. landbrh. tala hér s. l. fimmtudag, hefði komið í ljós, að hann gerði sér engan veginn grein fyrir því, hvaða vandamál landbúnaðurinn á nú við að glíma og hvernig útlitið er í dag eftir 7 ára setu hans sem landbrh. Hefði hann gert sér fulla grein fyrir því, hefði hann ekki gefið tilefni til þess að ræða þessi mál nú, heldur reynt að komast hjá umr. um þau og stjórn hans á þessum málum.

Því hefur verið haldið fram hér á Alþ., að 1966 hafi bændur að meðaltali haft innan við 100 þús. kr. í tekjur eða því sem næst hálfar tekjur viðmiðunarstéttanna. Ekki hefur þessu verið mótmælt eða það vefengt á neinn hátt, enda ekki auðvelt, þar sem þessar upplýsingar munu vera frá Hagstofunni komnar. Þrátt fyrir þetta var verðlagsgrundvöllurinn úrskurðaður nær óbreyttur af yfirdómi. Með þessum dómi eru lög um framleiðsluráð o.fl. brotin og það blátt áfram viðurkennt í grg., sem dómnum fylgir. L. um framleiðsluráð o. fl. fela það í sér, að verðlagningin eigi að fara þannig fram hverju sinni, að bændunum séu tryggðar svipaðar tekjur og viðmiðunarstéttirnar hafa á hverjum tíma. Þegar verðlagningin fór fram, lá það fyrir, hvernig verðlagning fyrri ára hefði reynzt bændastéttinni. Það lá fyrir, að rekstrarkostnaður hefði hækkað stórlega, t. d. að fóðurbætisgjöf hefði verið tvöfalt meiri en reiknað er með í verðlagsgrundvelli. Það var óvefengjanlegt, að afurðir hefðu verið minni, sérstaklega af sauðfé og eftir úrtaki viðmiðunarstéttanna átti kaupgjaldsliðurinn að hækka um rúmlega 22% og enn meira, ef kaupgjaldsliðurinn hefði verið úrskurðaður samkv. gildandi l. Það var vitað, að heybirgðir voru mikið minni s. l. vetur, sem sennilega nemur yfir 200 þús. hestburðum, en þó munu hafa verið notuð á s. l. ári yfir 50 þús. tonn af kjarnfóðri. Stjórnskipuð nefnd, sem hæstv. landbrh. skipaði sjálfur, ráðlagði bændum að setja á kjarnfóður og benti á, að hagkvæmt verð væri nú á því. Nú má ætla með tilliti til reynslu fyrri ára, að í vetur þurfi a. m. k. 70 þús. tonn af kjarnfóðri og ef hart verður vorið, enn meira. Það kjarnfóður, sem var notað í fyrra, mun hafa kostað bændur um eða yfir 225 millj., en í ár sennilega ekki minna en 425 millj. miðað við það magn, sem ég miðaði við áðan, eða 200 millj. meira en í fyrra. Fyrir jólin greiddi hæstv. landbrh. ásamt öllu stjórnarliðinu atkv. á móti heimildartill. við 6. gr. fjárl., um að kjarnfóðrið yrði selt með því verði, sem á því var fyrir gengisfellingu. Hann gerði grein fyrir atkv. sínu á þá leið, að þar sem hækkunin, sem stafaði af gengislækkuninni, væri komin inn í búvöruverðið, segði hann nei.

En þá skulum við athuga það í réttu ljósi, hvernig hæstv. landbrh. skilar þessari hækkun til bænda, en sú skilagrein er í fullu samræmi við þá landbúnaðarstefnu, sem hann og hans stuðningsflokkar hafa markað og unnið eftir. Hún er reiknuð á 26600 tonn og er að krónutölu 33 millj. 647 þús., en hin raunverulega hækkun, sem af gengislækkuninni leiðir miðað við það magn, sem líklegt er, að bændurnir þurfi að nota á þessum vetri, nemur rúmum 100 millj. eða þar um bil. Sem sagt, þeir taka af bændunum um 105 millj. og skila þeim aftur 33.6 millj. Það er ekki undur, þó að hæstv. landbrh. segði það með töluverðu yfirlæti, að búið væri að setja þessa hækkun inn í búvöruverðið.

Ég man ekki betur en hæstv. landbrh. segði það, þegar hann var að koma á okurvöxtunum á stofnlánin, að lánskjörin væru ekki aðalatriðið, heldur hitt, að bændurnir fengju út úr vinnu sinni eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins. Og auðvitað eru þetta hvort tveggja stór atriði. En nú vil ég spyrja ráðh.: Hvenær hafa bændurnir verið fjær því marki en nú að ná kaupi í samanburði við það, sem viðmiðunarstéttirnar höfðu s. l. ár? Og þá komum við að aðalatriðinu: Hver borgar það, sem landbúnaðurinn þarf að fá til rekstrar á yfirstandandi ári? Það verður áreiðanlega ekki gert með afrakstri búanna, eins og nú er komið. Ekki geta kaupfélögin lánað þeim rekstrarvörur og annað, sem til þarf, og ekki er hægt að fá lán í banka, þrátt fyrir allar bankahallirnar. Hver á að borga? Fóðurbætiskaupin yfir 200 millj. kr. meiri en í fyrra. Áburðurinn hækkar um 25–30% og er talinn í heildinni muni verða 55–60 millj. Og engin hækkun hefur komið á búvöruverðið til þess að mæta þeirri hækkun og mun ekki koma fyrr en næsti verðlagsgrundvöllur kemur. E. t. v. kemur hann fyrir næstu áramót, en ekkert verður borgað með því á þessu ári. Og ofan á þetta bætist svo, að engin líkindi eru til þess, að bændurnir fái það smánarverð, sem yfirdómurinn úrskurðaði þeim, vegna þess að útflutningssjóðurinn mun sennilega ekki hafa til umráða nema 250 millj., en sterkar líkur fyrir því, að útflutningsstyrkjaþörfin verði 340–350 millj. og þá mun vanta á verðið um 4%. Hvernig því verður náð, veit ég ekki.

Bændur eiga rétt á svipuðum hliðarráðstöfunum að krónutölu samkv. úrskurði yfirdómsins eins og þeir fengu í fyrra. Nú vil ég spyrja hæstv. landbrh. að því: Eftir hvaða leiðum ætlar hann að tryggja bændum þá greiðslu? Samkv. l. um gengisráðstafanir átti sá atvinnuvegur, sem útflutningsverðmætið átti, að fá til sín gengishagnaðinn, sem því nam. Samkv. grg. yfirdóms voru ull og gærur verðlagðar á þann hátt eftir boði ríkisstj., að gengisáhrifin voru reiknuð með í verðlagningunni, sem þýddi það, að ef farið hefði verið eftir verðlagningu liðinna ára, átti að verðleggja ull og gærur sem næst heimsmarkaðsverði. Hefði verðlagningin farið fram samkv. því og eins og verð var á þessum vörum í septembermánuði s. l., hefði þurft að færa að heildinni til fast að 50 millj. yfir á kjötið. Samkv. því er gengishagnaðinum ráðstafað í raun og veru til þess að borga niður kjötverðið til neytenda og með því fer gengishagnaðurinn alls ekki til bænda. Af þessu leiðir, að samkv. l. um gengisráðstafanir eiga bændur að fá þessa upphæð, sem þessari millifærslu nemur, úr ríkissjóði. Og nú vil ég spyrja hæstv. landbrh. að því, hvort hann sé búinn að gera ráðstafanir til þess, að landbúnaðurinn fái þessa upphæð og þá, hvernig henni verður ráðstafað. Ég vil ekki trúa því að óreyndu, að landbrh. sjái ekki um það, að þessi lög nái tilgangi sínum, þ. e. lögin um gengisráðstafanir, þar sem hann hefur framkvæmd þeirra í sínum höndum samkv. l. um gengishagnað landbúnaðarins.

Annars er ekki hægt að sjá annað en staða landbúnaðarins sé slík í dag, að hann sé kominn í algert greiðsluþrot, þegar á heildina er litið. Margir bændur geta ekki borgað rentur og afborganir af stofnlánum sínum. Það er farið að auglýsa jarðir á nauðungaruppboði og verður gert í stærri stíl, ef ekki kemur eitthvað sérstakt til. Hvernig bændur eða stofnanir þeirra leysa úr kjarnfóðurvandamálinu er öllum ráðgáta, eins og á þessum málum er nú haldið. Og þá skilja menn enn síður, hvernig farið verður að því að leysa úr áburðarvandamálinu á næsta vori. En ef ekki verður hægt að tryggja bændum kjarnfóður nú, eins og ásetningurinn er, er hreinn voði fyrir dyrum. Og þar sem stjórnskipuð n. skipuð af hæstv. landbrh. sjálfum hvatti til þess að setja á kjarnfóðrið, má í raun og veru segja, að ráðh. beri að sumu leyti ábyrgð á þessum ásetningi, og verði ekki borinn tilbúinn áburður á tún í vor, er ekki von á miklu grasi hjá þeim bændum að hausti, og þá er stutt í endalokin fyrir þá bændur með búskapinn, sem þannig fara út úr því.

En það er ekki von að vel fari, þegar hæstv. landbrh. veit ekki, hvernig komið er, og reynir ekki að skilja orsakir þess. Landbúnaðurinn í þessu landi getur ekki blómgazt nema hann búi við löng lán með mjög hagstæðum vöxtum. Hann býr nú við meira vaxtaokur en nokkur annað aðili í landinu. Stofnlánin eru með 11.5%, að stofnlánaskattinum meðtöldum.

Fyrir valdatíð hæstv. landbrh. voru þessir vextir 3.5–5%. Lánin hafa verið stytt til muna. Á tveimur síðustu árum hafa bændur aldrei staðið eins langt frá því að ná kaupi sínum miðað við viðmiðunarstéttirnar. Þó er úrskurðurinn sami verðlagsgrundvöllur, og ofan á það eiga svo að koma öll áhrif gengisfellingarinnar án teljandi hækkunar á búvöruverðið. Við þetta bætist svo enn, að engin líkindi eru fyrir því, að þetta verð náist, sem úrskurðað var. Líklega muni vanta um 4% á heildarverðið, ef ekki koma einhverjir fjármunir til, sem er því sem næst sú hækkun, sem búvöruverðið hækkaði, bæði af völdum vísitöluhækkunarinnar 1. des. og vegna áhrifa af gengislækkuninni 1. jan. Sem sagt, eins og útlitið er nú, er ekkert líklegra en bændur verði að bera alla hækkunina af gengisfellingunni bótalaust. Og þar sem bændur hafa safnað miklum skuldum undanfarin ár, er ekkert undarlegt, þó að útlitið sé á þann veg, sem ég hef lýst.

Mér er það vel ljóst, að það er ekki af því, að hæstv. landbrh. hafi ekki viljað bændastéttinni vel, að svona hefur farið, heldur af hinu, að hann hefur aldrei skilið þessi mál eða fylgzt með þeim. Dýrtíðarstefnan og vaxtaokrið orsaka það, að hlutur landbúnaðarins hefur farið stórversnandi síðari árin miðað við aðra atvinnuvegi og viðmiðunarstéttir. Í góðu árunum undanfarið fékk hann aldrei neitt af hagvextinum og nú er hann alveg afskiptur, fær enga hækkun vegna gengisfellingarinnar eða aukins tilkostnaðar og minni afurða síðasta verðlagsár. Og við þetta bætist svo óhagstætt árferði og þá er ekki enn öll sagan sögð. Hæstv. landbrh. sjálfur virðist ekki fylgjast með, hvernig komið er, ef dæma má af drýldni hans á fundi hér síðasta fimmtudag. Hann sagði: Hvað hugsa sunnlenzkir bændur nú? Ég þykist sjá, að það muni lítið þýða fyrir mig að spyrja hæstv. ráðh., hvernig hann ætli nú á 11. stundu að koma landbúnaðinum til bjargar, bæta fyrir yfirsjónir sínar á liðnum árum, bæta fyrir lagabrot, sem yfirdómurinn framdi, bæta fyrir vaxtaokrið á stofnlánunum. Hvernig hann ætlar að koma í veg fyrir, að hækkunin af áhrifum gengisfellingarinnar sligi landbúnaðinn gersamlega. Það þýðir sjálfsagt lítið að spyrja þá, sem ekki vilja skilja.