11.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Varðandi fsp. hv. síðasta ræðumanns eru fordæmi fyrir því, að ef kosning hefur verið gerð ógild, ákveður Alþ., hver skuli koma í hans stað. Um það eru fleiri en eitt fordæmi til, eins og þm. getur auðveldlega kannað, ef hann kærir sig um, og myndast því enginn óyfirstíganlegur vandi af þeim sökum. Hitt má segja, að það sé eðlilegt, að hv. Alþb.-menn séu gramir yfir því, að stjórnarflokkarnir skuli ekki greiða atkv. í þessu máli, og má þó raunar segja, að þar hafi, eins og oft áður, Framsfl. komið þeim mjög til hjálpar til þess að bjarga þeim úr mesta vandanum, því að það eina rétta væri, að Alþb.- mennirnir einir kvæðu á um þetta mál hér á Alþ.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson gat þess, að ég hefði spurt sig um það í sjónvarpsviðtali, hvaða afstöðu hann mundi taka í þessu deilumáli eftir kosningar, og hann sagðist hafa vikið sér undan með því að spyrja mig um það sama. En ég svaraði því, sem rétt var, að afstaða mín mundi mjög fara eftir afstöðu þeirri, sem Alþb. sjálft tæki, vegna þess að það mundi geta skorið úr um, hvernig líta ætti á þann leik, sem hér væri framinn. Og eins og hv. þm. Lúðvík Jósefsson gat um, svaraði hann mér ekki, vegna þess að hann vildi hafa allar dyr opnar, hann vildi geta tekið hverja ákvörðun eftir kosningar, sem honum líkaði, eins og hann hér gaf óvenjulega skýra yfirlýsingu um, sem hann getur ekki með nokkru móti sloppið frá, þó að hann hafi oft manna bezt lag á því að vera býsna loðinn í sínum umsögnum.

En hv. þm. Magnús Kjartansson fylgdi fordæmi Lúðviks Jósefssonar. Þegar ég spurði Magnús Kjartansson svipaðrar spurningar í útvarpsumr., þeim síðustu, sem fóru fram fyrir kosningar, hver hans afstaða mundi verða í þessu máli, þegar á Alþingi kæmi, þá neitaði hv. frambjóðandi þá, nú þm. Magnús Kjartansson algerlega að svara þessari spurningu. Það lá mjög við fyrir kosningar að fá þessari spurningu svarað, vegna þess að undir henni var komið það, sem Magnús Kjartansson segir nú, að allt velti á, hvort kjósendur vissu, þegar þeir gengu að kjörborðinu, hvern þeir voru að kjósa, til hvers atkv. þeirra mundi leiða.

Ég tek undir það, sem hæstv. dómsmrh. segir, að í þessum efnum er alls ekki að saka hv. þm. Hannibal Valdimarsson. Ég er raunar hissa á því, að hann skuli ekki heimta hér, að sitt kjörbréf sé gert ógilt og hann sé úrskurðaður af Alþingi sem þm. Alþb. Það væri hið eina rökrétta í hans afstöðu, vegna þess að hann reyndi ekki fyrir kosningar að blekkja um fyrir mönnum. Hann sagði alltaf: Ég er fyrir Alþb. og mín atkv., þau sem ég fæ, eiga að falla Alþb. til hags. Það voru hans félagar, sem neituðu þessu, og ég veit ekki til þess, að Hannibal Valdimarsson hafi fallið út úr sínu hlutverki nema í því einu, þegar hann eftir dúk og disk fór að heimta að geta talað í útvarpi sem einhvers konar utanflokkaframbjóðandi. Þá var það hans málgleði, sem gerði það að verkum, að hann féll í þá gildru, sem Magnús Kjartansson og hans félagar höfðu þar lagt fyrir hann með till. Björns Th. Björnssonar. En það var aukaatriði, sem ekki skiptir ýkjamiklu máli. Hitt má vel koma fram, að það var fyrir beina till. Lúðvíks Jósefssonar, sem sjónvarpsumr. var hagað á þann veg sem gert var, og hann talaði við mig og aðra um það fyrirkomulag sem formaður þingflokks Alþb., og við höfðum alla ástæðu til þess að ætla, að hann talaði þar í umboði þess flokks.

Nú bætist það ofan á allt annað, að við heyrum eftir á, að málið hafi aldrei komið til landssamtaka Alþb. og aldrei verið undir þau borið. Já, mikið er nú samlyndið og náið samstarfið á stundum innan þessa flokks, ef miðstjórn og framkvæmdastjórn, yfirstjórn Alþb., lætur slíka deilu algerlega fram hjá sér fara. Ég hygg nú, að skýringin á því sé sú, sem Lúðvík Jósefsson réttilega sagði, að þeir vildu geta tekið hverja þá afstöðu, sem þeim sýndist henta eftir kosningar, geta verið með Magnúsi Kjartanssyni eftir kosningar, ef þeir vildu, en með Lúðvík eftir kosningar, ef þeir vildu. Því að þá hafa þeir sennilega reiknað enn þá með, að Magnús Kjartansson mundi ekki, eins og einn þm. sagði hér áðan, vilja láta flokkslög gilda fyrir kosningar, en landslög eftir kosningar, sem sagt algerlega snúa við og halda allt öðru fram hér á Alþ., þegar hann er í fyrsta skipti kosinn sem aðalmaður, heldur en hann er búinn að halda fram í harðri baráttu í sínu blaði í allri kosningabaráttunni.

Það er rétt, sem þessir hv. þm. segja, og við skulum ekkert vera að fara í launkofa með það, að í öllum flokkum hafa orðið harðar deilur um framboð. Slíkt hlýtur ætíð að verða í lýðfrjálsu landi og er ekkert eðlilegra heldur en svo sé. Yfirleitt er þeim ráðið til lykta með ákvörðunum réttra aðila innan flokkanna. Stundum tekst það ekki. Þá koma sérframboð fram. Því er að taka og ekkert við því að segja.

En það einkennilega er í þessu máli Alþb., að það er alveg ljóst, að í fyrstu telur Alþb. í Reykjavík, að það hafi í fullu tré við Hannibal Valdimarsson. Magnús Kjartansson segir þá: Það eru alveg skýrar línur, það er ljóst, að við höfum afl til þess að fella ríkisstj. og fella þann, sem setur sinn persónulega metnað ofar heldur en áhugann fyrir að fella ríkisstj., og þar var ekki um að villast, að hann átti við Hannibal Valdimarsson. Þegar leið á kosningahríðina sáu þessir góðu menn, að málið lá ekki þannig fyrir. Hannibal Valdimarsson hafði auðsjáanlega mun meira fylgi í Reykjavík heldur en þessir menn höfðu gert ráð fyrir, eins og ríkisstj. reyndist að lokum hafa mun meira fylgi heldur en þeir höfðu vonað. Slíkur misreikningur er eðlilegur. En þá vildu þeir nota sjálfum sér til framdráttar það, að Hannibal Valdimarsson óð fram vígreifur mjög og sagðist vera í baráttu við kommúnista og ætla að setja þá á kné, svipta þá völdum innan Alþb. og ýmislegt fleira, sem hann sagði í baráttunnar hita. Þegar kommúnistar sáu, að Hannibal hafði mikið fylgi eða mikla fylgisvon, þá héldu þeir að vísu áfram að skamma Hannibal, en jafnframt undirbjuggu þeir algera kúvendingu. Þeir fóru að undirbúa það að geta eftir kosningarnar tekið atkvæðamagn Hannibals sjálfum sér til framdráttar. Þess vegna voru það hrein svik, sem voru framin við kosningarnar. Það var visvitandi verið að dylja það fyrir kjósendum fyrir kosningar, til hvers atkvgr. þeirra mundi leiða. Magnús Kjartansson fór að þveröfugt við það, sem hann var að segja hér áðan, að réði sínu atkv. og ætti að vera grundvöllur þessarar málsmeðferðar á Alþ. Þessu verður ekki með nokkru móti haggað.

Það var alveg ljóst fyrir kosningar, að Hannibal Valdimarsson hafði mun meira fylgi heldur en flestir höfðu gert ráð fyrir. Það var ljóst, að margir kusu hann vegna þess að þeir töldu, að hann væri í einlægri og harðri baráttu við litlu, ljótu klíkuna. En það var líka ljóst, að litla, ljóta klíkan ætlaði að verða stóri, ljóti púkinn á því að reyna að fá atkv. Hannibals með sér, og þess vegna fengust þeir ekki til þess með nokkru móti að segja fyrir kosningar, þrátt fyrir öll stóru orðin, hvað þeir ætluðu að gera. Það er alveg nauðsynlegt, að menn hafi þetta í huga, og þess vegna hlaut það og hlýtur að valda mjög miklu um ákvörðun manna um þetta mál, hvaða afstöðu Alþb. sjálft tekur í málinu. Ég segi, það er nauðsynlegt fyrir velsæmi í íslenzkum stjórnmálum, að það komi nú fram og sé alveg ljóst, að litla, ljóta klíkan hefur étið ofan í sig allt, sem hún sagði fyrir kosningar, og það er með hennar atkv., sem Hannibal Valdimarsson er nú tekinn aftur inn í hana og fær að efla hana með öllu sínu atkvæðamagni. Við tökum að vissu leyti ábyrgð á þessu með því að sitja hjá. Það mundum við ekki gera, ef við teldum ekki, að lagastafurinn sé Hannibalsmegin í málinu. Það er alveg ljóst. Ef við værum ekki þeirrar skoðunar, að Hannibal hefur að lokum miðað við núverandi lagabókstaf rétt fyrir sér, væri óverjandi að sitja hjá. Þá ætti Steingrímur Pálsson hiklaust að víkja af þingi. En við teljum, að atkvæðanna hafi verið aflað og þess uppbótarsætis, sem hér er verið um að ræða, með svo ósæmilegum hætti, að það sé bezt, að þeir einir, sem ósómann drýgðu, fái nú að bera hann fram hér á sína ábyrgð í sölum Alþingis.