16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

189. mál, kaup ríkissjóðs á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar

Frsm. Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, 189. mál á þskj. 569 um kaup ríkissjóðs á hlutabréfum í Áburðarverksmiðjunni h/f, sem eru í einkaeign, er flutt af meiri hl. landbn. hv. d. Svo sem marga mun reka minni til, hefur hér verið mælt fyrir a. m. k. tveimur frv. um áburðarverksmiðju á þessu þingi. Þau hafa legið fyrir landbn. til athugunar. En við umr. hér á hv. Alþ. um þau frv. beindi hæstv. landbrh. því mjög eindregið til landbn. að reyna að ná samstöðu um frv. um áburðarverksmiðju, sem miðaði að því að gera Áburðarverksmiðjuna að hreinu ríkisfyrirtæki. Þessar ástæður eru nokkuð raktar hér í stuttri grg. með þessu frv., og ég skal ekki hafa langa framsögu fyrir þessu máli, en í stuttu máli verð ég að segja það, að það tókst ekki að ná samstöðu um frv., sem væri líkt að gerð eins og t. d. það frv., sem flutt var af hv. framsóknarmönnum og sem var að verulegu leyti sniðið eftir frv., sem samið hafði verið áður að tilhlutan landbrh. og sent landbn. þingsins til athugunar. Niðurstaðan af þessum viðræðum öllum varð þess vegna þetta frv., sem hér liggur fyrir, og má að vísu segja, að ef það tekst, sem þar er áformað, að ná kaupum á hlutabréfum einstaklinga í Áburðarverksmiðjunni, sé sá hnútur leystur, sem aðallega hefur verið hér við að glíma. Það leiðir að vísu af því, að síðar verður að gera frekari breytingar á þeim lögum, sem nú gilda um Áburðarverksmiðjuna, en það verður þá líka væntanlega auðveldara að ná samstöðu um slíka lagasetningu.

Ég held, að hv. þdm. sé þetta mál allkunnugt, og ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um það, en ég vildi vænta þess, að enda þótt nú sé mjög liðið að þinglokum, þá verði möguleiki á því, ef samstaða er um efni þessa máls, að það mætti koma því í gegn, þannig að það öðlaðist lagagildi. Það er flutt, eins og ég sagði, af meiri hl. landbn. og sparast a. m. k. í þessari hv. d. þess vegna sá tími, sem ella þyrfti til þess að senda það n. til athugunar.