16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

189. mál, kaup ríkissjóðs á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Í landbn. var ég andvígur því, að frv. þetta væri flutt, og vil ég gera eftirfarandi grein fyrir afstöðu minni.

Á undanförnum árum hefur oft verið um það rætt, að nauðsynlegt væri að breyta skipulagi Áburðarverksmiðjunnar h/f. Hafa þær umr. yfirleitt beinzt að því, að ríkið næði eignarhaldi á hlutabréfum þeim, sem nú eru í eigu einstaklinga og félaga. Hins vegar hefur engin athugun farið fram á því, með hverjum hætti væri eðlilegast að endurskipuleggja félagið sem traust og heilbrigt hlutafélag með útgáfu jöfnunarhlutabréfa og hlutafjáraukningu líkt og unnið hefur verið að bæði í Flugfélagi Íslands h/f og Eimskipafélagi Íslands h/f. Á það hefur þó verið bent, að í sambandi við slíka endurskipulagningu væri eðlilegt að auðvelda bændum að gerast beinir eignaraðilar að Áburðarverksmiðjunni h/f, en engin athugun hefur hins vegar verið framkvæmd á því, með hvaða hætti því yrði bezt fyrir komið. Eðlilegast virðist, að slík athugun fari fram á vegum verksmiðjunnar sjálfrar, enda er ríkið þar meiri hluta aðili. Framkvæmdastjóri Áburðarverksmiðjunnar h/f, Hjálmar Finnsson, hefur á fundi í landbn. lýst því yfir sem sinni persónulegu skoðun, að hlutafélagsformið á rekstri þessa fyrirtækis sé síður en svo til trafala og jafnframt, að engar tafir hafi þess vegna orðið á vinnu við undirbúning stækkunar og endurbóta á verksmiðjunni. Af þeim sökum er því engin ástæða til að hraða afgreiðslu málsins nú á síðustu dögum þingsins og með hliðsjón af því, hve allur undirbúningur er lélegur, legg ég til, að málinu verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún beiti sér fyrir því við stjórn Áburðarverksmiðjunnar h/f, að þær athuganir verði gerðar á framtíðarskipulagi fyrirtækisins, sem rætt er um hér að framan.