16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

189. mál, kaup ríkissjóðs á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það var hér í vetur, að ég mælti fáein orð fyrir frv., sem ég flutti ásamt fleirum til l. um Áburðarverksmiðju ríkisins, sem landbn. hefur haft til meðferðar síðan og ekki treyst sér til að mæla með, eins og á stendur. En í staðinn ber meiri hl. fram nýtt frv., sem nú er hér til umr., um það, að ríkisstj. verði heimilað að kaupa fyrir hönd ríkissjóðs þau hlutabréf í Áburðarverksmiðjunni h.f., sem eru í einkaeign, fyrir allt að fimmfalt nafnverð.

Ég verð nú að segja það, að þó að frv., sem meiri hl. n. flytur nú, verði gert að l., þá lít ég svo á, að það sé engin trygging fyrir því, að Áburðarverksmiðjan verði gerð af hreinu ríkisfyrirtæki, því að í frv. skortir með öllu ákvæði um slíkt. Með því eina móti, að allir hluthafarnir vilji af fúsum og frjálsum vilja selja hlutabréf sín á fimmföldu nafnverði, getur slíkt átt sér stað, þ. e. a. s., að síðar sé hægt að gera Áburðarverksmiðjuna að hreinu ríkisfyrirtæki. Það þarf ekki nema 1 eða 2 hluthafa, sem ekki vilja selja bréfin sín, til þess að verksmiðjan verði áfram hlutafélag eins og hún er nú, þó að hluthöfunum hefði þá að vísu e. t. v. fækkað. Það má segja, að þetta frv. sé eins konar tilraun og með því, ef að lögum verður, er ríkisstj. gefin heimild til þess að biðja hluthafana góðfúslega að láta bréfin sín á fimmföldu nafnverði. Það eru engin ákvæði í þessu um eignarnám. Ég vil segja það, að samningaleið er að vissu leyti í mínum augum auðvitað alltaf bezta leiðin. Ef hægt er að ná samningum, er það sú eðlilegasta og bezta leið, enda var líka í frv. okkar framsóknarmanna gert ráð fyrir slíku og sú hugmynd sett þar inn í frv., sem landbrh. hæstv. hafði í fyrra hreyft hér, að ríkisstj. keypti þessi hlutabréf. En í okkar frv. var líka ákvæði um eignarnám. Þar var gefin heimild til þess að taka þau hlutabréf eignarnámi, sem ekki fengjust keypt á þessu verði, og að mat færi fram á bréfunum. Ég verð að segja það, að þó að ég telji litlar líkur til þess, að þetta frv. nái þeim tilgangi, að Áburðarverksmiðjan verði gerð að hreinu ríkisfyrirtæki, þá tel ég þó betra en ekki, að þessi tilraun sé gerð, sem frv. gerir ráð fyrir, og mun greiða atkv. með frv.

Ég vil hins vegar taka undir það, sem hv. 3. þm. Austf. sagði, þegar hann mælti fyrir frv. meiri hl. n., að ég tel, að ef það tekst að ná kaupum á þessum hlutabréfum öllum á þessu verði, þá verði það nauðsynlegt að gera fljótlega breytingar á l. um Áburðarverksmiðju ríkisins. Og ég greiði atkv. með þessu frv. núna í þeirri trú, að þetta takist og að ný lög verði sett um Áburðarverksmiðjuna í þeim anda, sem frv. okkar framsóknarmanna gerði ráð fyrir og sem ég hef hér minnzt á.