19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

189. mál, kaup ríkissjóðs á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., til athugunar. Ekki náðist samstaða um afgreiðslu þess í n. meiri hl. leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og nál. á þskj. 670 ber með sér, en minni hl. mun skila séráliti. Eins og rakið er í grg. með frv., er áhugi fyrir því innan Alþ. að breyta l. um Áburðarverksmiðjuna til þess horfs, að hún verði framvegis öll eign ríkisins, en menn hafa ekki getað náð samstöðu um leiðir til þess. Það frv., sem hér er til umr., er flutt af meiri hl. landbn. Nd. og er að dómi meiri hl. landbn. þessarar hv. d. nauðsynlegur áfangi á þeirri leið, sem fara þarf til þess að koma málinu í heild fram. Það verður að teljast mjög nauðsynlegt, til þess að unnt verði að koma á þeim breytingum á verksmiðjunni, sem fyrirhugaðar eru, en þær breytingar munu verða til þess, að framleiddur verði í landinu alhliða áburður, svo ekki þurfi að flytja inn tilbúinn áburð.

Það er skoðun meiri hl. landbn., að hér sé um þjóðþrifamál að ræða, og meiri hl. getur því ekki gengið inn á skoðun minni hl., sem vill gefa innflutning á áburði frjálsan og þar standa í vegi fyrir æskilegum og nauðsynlegum vexti þessa mikilvæga iðnaðar í landinu.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frv. sérstaklega, en legg áherzlu á það álit meiri hl. n., að frv. verði samþ. og afgreitt á þessu þingi.