16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

186. mál, sala Jórvíkur í Hjaltastaðahreppi

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Eins og frv. þetta ber með sér, var það upphaflega flutt sem brtt. við annað frv. um jarðarsölu, sem lá fyrir þessari hv. d., en það kom í ljós við athugun þess máls, að þar voru nokkrir annmarkar í vegi, þannig að Jarðeignadeild vildi ekki mæla með því og hv. landbn. komst að þeirri niðurstöðu, að hún gæti ekki afgreitt það mál á þessu þingi. Hins vegar sendi hún þetta mál, sem borið var hér fram sem brtt. við það frv., einnig, sem venja er, bæði Jarðeignadeild og landnámsstjóra til umsagnar, og báðir þessir aðilar mæltu eindregið með, að heimiluð yrði sala á eyðijörðinni Jórvík í Hjaltastaðahreppi. Það lá fyrir áður álit hreppsnefndar Hjaltastaðahrepps, þar sem hún mælti með þessu, þannig að á þessu máli voru engir meinbugir. Þess vegna sameinaðist n. um það að flytja þetta sem sérstakt mál, og þar sem það er n., sem flytur það, þarf það ekki að ganga til hennar aftur, og ég vildi beina því til hæstv. forseta, að þetta mál gæti fengið greiðan gang í gegnum d.